1 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Asafssálmur. Ljóð.
2Vér þökkum þér, Guð, vér þökkum.
Vér áköllum nafn þitt
og segjum frá undraverkum þínum.
3„Þegar mér þykir tími til kominn
dæmi ég af réttvísi.
4Þótt jörðin skjálfi ásamt öllum íbúum sínum
hef ég samt fest stoðir hennar. (Sela)
5Ég segi við hrokagikkina: Hreykið yður eigi,
við hina óguðlegu: Hefjið eigi horn,
6hefjið eigi horn til himins,
mælið eigi drambyrði hnakkakerrtir.“
7Því að hvorki frá austri né vestri
né úr auðninni kemur neinn sem upphefð veitir.
8Guð er sá sem dæmir,
hann niðurlægir einn og upphefur annan.
9Í hendi Drottins er bikar,
fullur af freyðandi, krydduðu víni.
Af honum skenkir hann
og hinir óguðlegu á jörðinni munu allir drekka,
jafnvel dreggjarnar skulu þeir sötra.
10En ég mun fagna að eilífu,
syngja lof Guði Jakobs.
11Ég mun höggva hornin af óguðlegum,
en horn réttlátra skulu gnæfa hátt.