Þjónið Drottni með þolgæði

1Barnið mitt, er þú kemur til að þjóna Drottni
bú þig þá undir þolraun.
2 Hjarta þitt sé einlægt og staðfast
og rótt á reynslutíma.
3 Haltu þér fast við Drottin og vík eigi frá honum
og þú munt vaxa af því um síðir.
4 Tak öllu sem að höndum ber,
berðu þjáningu og neyð með þolinmæði.
5 Eins og gull er reynt í eldi,
þannig eru þeir sem Drottinn ann
reyndir í deiglu þjáningar.
6 Treystu honum og hann mun taka þig að sér,
gakk réttan veg og vona á hann.

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn

7Þér sem óttist Drottin, bíðið miskunnar hans,
snúið ei frá honum svo að þér fallið.
8 Þér sem óttist Drottin, treystið honum,
hann mun eigi láta laun yðar bregðast.
9 Þér sem óttist Drottin, væntið góðs,
eilífrar gleði og miskunnar.
10 Hugsið til genginna kynslóða og gætið að:
Brást Drottinn nokkrum sem treysti honum?
Yfirgaf Drottinn nokkurn sem óttaðist hann?
Hver ákallaði Drottin og hlaut ekki áheyrn?
11 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn,
hann fyrirgefur syndir og bjargar á neyðarstundu.
12 Vei blauðum hjörtum og magnvana höndum,
vei þeim syndara sem sýnir tvöfeldni.
13 Vei huglausu hjarta sem treystir ekki,
eigi mun það vernd hljóta.
14 Vei yður sem skortir þrautseigju,
hvað gerið þér er Drottinn kemur til dóms?
15 Þeir sem óttast Drottin óhlýðnast eigi orðum hans.
Þeir sem hann elska ganga vegi hans.
16 Þeir sem óttast Drottin leitast við að þóknast honum
og þeir sem elska hann sökkva sér í lögmálið.
17 Þeir sem óttast Drottin undirbúa hjörtu sín
og beygja sig í auðmýkt fyrir honum.
18 Látum oss falla í hendur Drottins
en eigi í hendur manna.
Miskunn hans er eins mikil
og máttug tign hans.