1 Þá sagði Salómon: „Drottinn hefur sagt að hann vilji búa í myrkri. 2 Nú hef ég reist þér veglega höll þar sem þú munt ævinlega búa.“

Vígsla musterisins: Ávarp konungs

3 Þá sneri konungur sér við og blessaði allan söfnuð Ísraels en allur söfnuður Ísraels stóð. 4 Hann sagði: „Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels. Hann hefur efnt með hendi sinni það sem hann hét Davíð, föður mínum, með munni sínum þegar hann sagði: 5 Frá þeim degi, er ég leiddi lýð minn, Ísrael, út úr Egyptalandi, hef ég ekki valið borg nokkurs af ættbálkum Ísraels til þess að reisa hús þar sem nafn mitt gæti búið. Ég hef ekki heldur valið nokkurn mann til að vera höfðingi yfir eignarlýð mínum, Ísrael. 6 Aftur á móti hef ég valið Jerúsalem til þess að nafn mitt búi þar og Davíð til að ríkja yfir lýð mínum, Ísrael. 7 Davíð, faðir minn, ætlaði að reisa nafni Drottins, Guðs Ísraels, hús 8 en Drottinn sagði við Davíð, föður minn: Ákvörðun þín, að reisa nafni mínu hús, er góð 9 en þú átt ekki að reisa þetta hús heldur skal sonur þinn, sem er af þínu holdi, reisa nafni mínu hús. 10 Nú hefur Drottinn efnt það heit sem hann gaf. Ég er kominn í stað Davíðs, föður míns, og er sestur í hásæti Ísraels eins og Drottinn hét. Nú hef ég reist nafni Drottins, Guðs Ísraels, hús 11 og búið örkinni þar stað. Í henni er sáttmálinn sem Drottinn gerði við Ísraelsmenn.“

Vígsla musterisins: Fyrirbæn konungs

12 Þessu næst gekk konungur fyrir altari Drottins í viðurvist alls safnaðar Ísraels og breiddi út hendur sínar. 13 Salómon hafði látið gera pall úr eir og koma honum fyrir í miðjum forgarðinum. Hann var fimm álnir á lengd, fimm álnir á breidd og þrjár álnir á hæð. Hann steig nú upp á pallinn, kraup á kné í viðurvist alls safnaðar Ísraels, breiddi út hendur sínar 14 og bað: „Drottinn, Guð Ísraels, enginn guð er sem þú, hvorki á himni né á jörðu, guð sem heldur sáttmála og sýnir trúfesti þeim þjónum þínum sem lifa heils hugar frammi fyrir þér. 15 Þú hefur haldið það sem þú lofaðir þjóni þínum, Davíð, föður mínum. Það sem þú lofaðir með munni þínum hefur þú í dag efnt með hendi þinni. 16 Drottinn, Guð Ísraels, efndu nú einnig heitið sem þú gafst þjóni þínum, Davíð, föður mínum, þegar þú sagðir: Niðjar þínir munu ætíð sitja frammi fyrir mér í hásæti Ísraels svo framarlega sem þeir vanda framferði sitt og breyta frammi fyrir mér eins og þú hefur gert. 17 Drottinn, Guð Ísraels, stattu nú við heitið sem þú gafst þjóni þínum, Davíð.
18 Býr þá Guð hjá mönnunum á jörðinni? Nei, jafnvel himinninn og himnanna himnar rúma þig ekki, hvað þá þetta hús sem ég hef reist. 19 Gefðu gaum að ákalli þjóns þíns og bæn hans, Drottinn, Guð minn. Heyr ákallið og bænina sem ég, þjónn þinn, ber fram fyrir þig í dag. 20 Lát augu þín vaka yfir þessu húsi dag og nótt á þeim stað sem þú hefur um sagt að þar skuli nafn þitt búa. Heyr bænina sem þjónn þinn biður er hann snýr sér til þessa staðar. 21 Heyr bæn þjóns þíns og eignarlýðs þíns, Ísraels, sem hann biður er hann snýr sér í átt til þessa staðar, heyr hana á himnum þar sem þú býrð. Heyr hana og fyrirgef.
22 Ef einhver, sem brýtur gegn náunga sínum er krafinn eiðs og látinn sverja, kemur og vinnur eiðinn frammi fyrir altari þínu í þessu húsi, 23 heyr þá á himnum og veit honum það sem hann verðskuldar svo að þjónar þínir nái rétti sínum. Launaðu hinum seka svo að verk hans komi honum sjálfum í koll. Sýkna hinn saklausa og lát hann njóta réttlætis síns. 24 Ef lýður þinn, Ísrael, bíður ósigur fyrir fjandmanni af því að hann hefur brotið gegn þér og snýr sér síðan aftur til þín, lofar nafn þitt, ákallar þig og biður til þín í þessu húsi, 25 heyr þá á himnum. Fyrirgef þá lýð þínum, Ísrael, synd hans og leið hann aftur til þess lands sem þú gafst honum og feðrum hans.
26 Þegar himinninn er byrgður og ekki rignir af því að Ísraelsmenn hafa syndgað gegn þér og þeir biðja og snúa í átt til þessa staðar og lofa nafn þitt og hverfa jafnframt frá syndum sínum af því að þú hefur auðmýkt þá, 27 heyr þá á himnum. Fyrirgef synd þjóna þinna og lýðs þíns, Ísraels, af því að þú hefur vísað þeim hinn góða veg sem þeir eiga að ganga. Láttu rigna á land þitt sem þú hefur fengið eignarlýð þínum að erfðahlut.
28 Þegar hungursneyð verður í landinu, þegar drepsótt kemur, korndrep og kornbruni, þegar engisprettur og annar jarðvargur herjar á landið, þegar fjandmenn þrengja að fólkinu í landinu utan þess eigin borgarhliða, þegar plága eða sjúkdómsfaraldur þjáir það, 29 heyr þá hvert ákall hvers og eins, hverja bæn lýðs þíns, Ísraels. Sérhver þeirra þekkir kvöl hjarta síns og neyð, þess vegna breiðir hann út hendur sínar í átt til þessa húss. 30 Heyr þá bæn þeirra á himnum þar sem þú býrð og fyrirgef þeim. Launaðu hverjum eftir breytni hans því að þú þekkir innstu hugsanir hans, þú einn þekkir innstu hugsanir mannanna. 31 Þess vegna munu þeir sýna þér lotningu með því að ganga á þínum vegum alla daga sem þeir lifa í því landi er þú gafst feðrum vorum.
32 Ef útlendingur, sem ekki er af lýð þínum, Ísrael, kemur frá fjarlægu landi vegna þíns mikla nafns og sterku handar og útrétts arms þíns, ef hann kemur og biður og snýr sér í átt til þessa húss, 33 heyr þá á himnum þar sem þú býrð. Gerðu allt sem útlendingurinn ákallar þig um til þess að allar þjóðir jarðar játi nafn þitt. Þá munu þær sýna þér lotningu, eins og lýður þinn, Ísrael, og skilja að nafn þitt hefur verið hrópað yfir þessu húsi sem ég hef reist.
34 Þegar lýður þinn heldur í stríð gegn fjandmönnum sínum og fer þá leið sem þú hefur sent hann og Ísraelsmenn biðja til þín og snúa sér til þessarar borgar sem þú hefur valið þér og hússins sem ég hef reist nafni þínu, 35 heyr þá á himnum ákall þeirra og bæn og veit þeim það sem þeir verðskulda.
36 Þegar þeir syndga gegn þér, því að enginn maður er til sem ekki syndgar, og þú reiðist þeim og gefur þá á vald fjandmanna sinna sem flytja þá sem fanga til einhvers lands, fjær eða nær, 37 þá munu þeir koma aftur til sjálfra sín í landinu sem þeir voru fluttir til, iðrast og ákalla þig, í landinu þar sem þeim er haldið nauðugum, og segja: Vér höfum syndgað og breytt ranglega og óguðlega. 38 Þeir munu snúa sér aftur til þín af öllu hjarta og allri sálu, í landinu þar sem þeir eru í útlegð, biðja til þín og horfa í átt til landsins sem þú gafst feðrum þeirra, í átt til þessarar borgar sem þú valdir þér og í átt til hússins sem ég reisti nafni þínu. 39 Heyr þá á himnum, þar sem þú býrð, ákall þeirra og bæn og veittu þeim það sem þeir verðskulda. Fyrirgef lýð þínum sem hefur syndgað gegn þér.
40 Guð minn, ljúk upp augum þínum og eyru þín hlýði með athygli á þá bæn sem borin er fram á þessum stað.
41 Drottinn Guð, rís nú upp og kom til hvíldar þinnar,
þú og hin máttuga örk þín.
Prestar þínir, Drottinn Guð,
skulu klæðast hjálpræði
og þeir sem trúa á þig gleðjast
yfir velgjörðum þínum.
42 Drottinn Guð, vísaðu ekki þínum smurða frá þér.
Minnstu velgjörðanna
við Davíð, þjón þinn.“