Svar Jobs

1 Job svaraði og sagði:
2Ég vildi að gremja mín væri vegin
og þjáning mín lögð á vogarskálar.
3Þar eð hún er þyngri en sandur sjávarins
voru orð mín mælt í gáleysi.
4Já, örvar Hins almáttka sitja í mér,
andi minn drekkur eitur þeirra,
ógnir Guðs steðja að mér.
5Rymur villiasni yfir grængresinu?
Öskrar naut yfir fóðri sínu?
6Verður hið bragðlausa etið saltlaust?
Er nokkurt bragð að hvítu í eggi?
7Mig velgir við að snerta þetta,
það er mér eins og óhreinn matur.
8Hver getur orðið við ósk minni?
Guð láti von mína rætast.
9Ég vildi að Guði þóknaðist að merja mig sundur,
rétta fram höndina og skera á lífsþráðinn.
10Það yrði mér til huggunar og ég mundi hoppa af gleði
í vægðarlausri þjáningunni
því að ég hef ekki afneitað orðum hans.
11Hver er styrkur minn, að ég geti haldið þetta út,
og hverjar horfur mínar, að ég geti verið þolinmóður?
12Er ég styrkur sem klettur?
Er líkami minn úr eir?
13Nei, ég er ófær um að hjálpa mér sjálfur
og ég fæ engu áorkað.

Haldlítil vinátta

14Sá sem synjar vini um samúð
er hættur að óttast Hinn almáttka.
15Bræður mínir brugðust eins og lækur,
líkt og farvegir sem tæmast.
16Þeir eru fullir af krapa
og snjórinn hverfur í þeim
17en verða vatnslitlir þegar hitnar,
þorna upp í hitanum, hver á sínum stað.
18Úlfaldalestir beygðu af leið,
héldu út í auðnina og fórust.
19Kaupmannalestir frá Tema leituðu þeirra,
leiðangrar frá Saba væntu þeirra.
20Þeir urðu sneyptir af því að vonin brást,
vonsviknir þegar þeir náðu þangað.
21Þannig eruð þér orðnir mér,
þér horfið á eitthvað ógnvænlegt og skelfist.
22 Hef ég sagt: „Færið mér eitthvað,
gefið mér af eignum yðar,
23 bjargið mér úr höndum kúgara
og kaupið mig lausan úr greipum ofbeldismanna?“
24 Fræðið mig og ég skal þegja,
sýnið mér í hverju mér varð á.
25 Geta einlæg orð sært,
hvað hyggist þér átelja?
26 Ætlið þér að átelja orð?
Hverfa orð örvilnaðs manns út í loftið?
27 Kastið þér hlut um munaðarleysingja
og semjið þér um að selja vin yðar?
28 Lítið nú til mín,
ég mun ekki ljúga upp í opið geðið á yður.
29 Hverfið aftur, ekkert ranglæti má viðgangast.
Já, hverfið aftur, enn hef ég rétt fyrir mér um þetta.
30 Er ranglæti á tungu mér?
Skynjar gómur minn ekki bragð að því sem er spillt?