Landinu skipt

Ósigrað land

1 Þegar Jósúa var orðinn gamall og hniginn að aldri sagði Drottinn við hann: „Þú ert orðinn gamall og aldurhniginn en samt er enn mikið af landinu sem ekki hefur verið tekið til eignar. 2 Þetta er landið sem eftir er: Öll lönd Filistea og allt land Gesúríta 3 frá Síhórá austan við Egyptaland og norður til landa Ekrons sem allt telst heyra Kanverjum til. Auk þess fimm höfðingjadæmi Filistea í Gasa, Asdód, Askalon, Gat og Ekron, einnig Avítar 4 í suðri, allt land Kanverja og Meara, sem heyrir Sídon til, allt að Afek til lands Amoríta, 5 einnig land Giblíta og allt Líbanon í austur frá Baal Gað, sem er undir Hermonfjalli, og til Lebó Hamat.
6 Ég mun sjálfur hrekja úr vegi Ísraelsmanna alla íbúa fjalllendisins, frá Líbanon til Misrefót Majím, alla Sídoninga. En þú skalt kasta hlut um landið og skipta því í erfðahluti eins og ég hef boðið þér. 7 Skiptu þessu landi nú þegar í erfðahluti með ættbálkunum níu og hálfum ættbálki Manasse.“

Skipting lands austan við Jórdan

8 Hinn helmingur ættbálks Manasse og niðjar Rúbens og Gaðs höfðu þegar tekið við erfðahlut sínum sem Móse fékk þeim austan við Jórdan. Þetta er það sem Móse, þjónn Drottins, fékk þeim: 9 landið frá Aróer í jaðri Arnondalsins, frá borginni, sem er í dalnum miðjum, alla sléttuna frá Medeba til Díbon, 10 allar borgir Síhons Amorítakonungs, sem ríkti í Hesbon, og allt að landsvæði Ammóníta. 11 Auk þess fékk hann þeim Gíleað og landsvæði Gesúríta og Maakatíta og allt Hermonfjalllendið og allt Basansvæðið að Salka, 12 enn fremur allt konungsríki Ógs í Basan, sem ríkti í Astarót og Edrei. Hann var einn af þeim fáu Refaítum sem eftir voru en þá hafði Móse sigrað og rekið brott.
13 En Ísraelsmenn ráku ekki Gesúríta og Maakatíta burt. Þess vegna búa Gesúrítar og Maakatítar meðal Ísraels enn þann dag í dag.
14 Ættbálki Leví einum gaf Jósúa engan erfðahlut: Eldfórnir Drottins, Guðs Ísraels, eru erfðahlutur hans, eins og Drottinn hafði sagt við hann.
15 Móse hafði fengið hverri ætt fyrir sig í ættbálki niðja Rúbens land sem hér segir: 16 Landið frá Aróer í jaðri Arnondalsins og frá borginni, sem er í dalnum miðjum, alla sléttuna við Medeba, 17 Hesbon og allar borgirnar á sléttunni umhverfis hana, Díbon, Bamót Baal, Bet-Baal-Meon 18 Jahsa, Kedemót, Mefaat, 19 Kirjataím, Síbma, Seret Sahar á fjallinu í dalnum, 20 Bet Peór, Pisgahlíðar og Bet Jesímót, 21 auk þess allar borgirnar á sléttunni, gjörvallt ríki Síhons Amorítakonungs sem hafði ríkt í Hesbon. Móse hafði sigrað hann og höfðingja Midíaníta frá Eví, Rekem, Súr, Húr og Reba, en þeir höfðu verið herforingjar Síhons og bjuggu í landinu. 22 Ísraelsmenn höfðu einnig drepið spásagnamanninn Bíleam Beórsson með sverði auk hinna sem þegar höfðu verið felldir.
23 Jórdan markaði landamæri Rúbensniðja. Borgirnar og þorpin umhverfis þær voru erfðahlutur Rúbensniðja, hverrar ættar um sig.
24 Móse hafði fengið ættbálki niðja Gaðs land, hverri ætt fyrir sig. 25 Þeir hlutu Jasersvæðið, allar borgir í Gíleað, helming lands Amoríta að Aróer, sem er gegnt Rabba, 26 einnig landið frá Hesbon að Ramat Mispe og Betóním og frá Mahanaím að Lídebírlandi 27 og að auki Bet Haram, Bet Nimra, Súkkót og Safón í dalnum, leifar konungsríkis Síhons, konungs í Hesbon, og enn fremur Jórdan og landið austan við Jórdan að strönd Kinneretvatns.
28 Þessar borgir ásamt þorpunum umhverfis voru erfðahlutur hverrar ættar niðja Gaðs.
29 Móse hafði einnig fengið hálfum ættbálki niðja Manasse land, hverri ætt um sig. 30 Land þeirra var frá Mahanaím, allt Basansvæðið, allt konungsríki Ógs, konungs í Basan, og auk þess öll tjaldaþorp Jaírs í Basan. Alls voru það sextíu borgir.
31 Niðjar Makírs, sonar Manasse, helmingur niðja Makírs, hver ætt fyrir sig, hlutu helming af Gíleað, Astarót og Edrei, en það voru höfuðborgir konungsríkis Ógs í Basan.
32 Það eru þau svæði sem Móse hafði skipt í erfðahluti á sléttunum í Móab, handan við Jórdan, austan Jeríkó.
33 En ættbálki Leví fékk Móse engan erfðahlut. Drottinn, Guð Ísraels, er erfðahlutur hans, eins og hann hafði sagt þeim.