Bandalag við Rómverja og Spartverja

1 Jónatan sá nú að aðstæður höfðu þróast honum í vil. Valdi hann menn til farar til Rómar til að staðfesta og endurnýja vináttusamning við Rómverja. 2 Sömuleiðis sendi hann bréf sama efnis til Spörtu og annarra þjóða. 3 Sendimennirnir komu til Rómar, gengu fyrir ráðið og ávörpuðu það: „Jónatan æðsti prestur og Gyðingaþjóðin senda okkur til að endurnýja fyrri samning okkar um vináttu og bandalag.“ 4 Rómverjar fengu þeim bréf sem áminnti yfirvöld hvers staðar um að greiða götu þeirra heim til Gyðingalands.
5 Hér fer á eftir afrit af bréfi Jónatans til Spartverja. 6 „Jónatan æðsti prestur, öldungaráð þjóðarinnar, prestarnir og öll Gyðingaþjóð sendir bræðrum sínum, Spartverjum, kveðju. 7 Fyrir löngu sendi Aríus, þáverandi konungur ykkar, Óníasi æðsta presti bréf um að þið séuð bræður okkar eins og meðfylgjandi afrit þess sýnir. 8 Ónías tók sendiboðanum með kostum og kynjum og einnig bréfunum sem kváðu á um bandalag og vináttu. 9 Vissulega þörfnumst við slíks ekki því að við höfum hjástoð hinna helgu bóka sem við eigum. 10 Samt sendum við ykkur þetta bréf til endurnýjunar bræðralags og vináttu við ykkur svo að við verðum ykkur eigi framandi en langt er um liðið síðan okkur barst sending ykkar. 11 Aldrei látum við undir höfuð leggjast að minnast ykkar hvert sinn er við færum fórn og í bænum okkar, jafnt á hátíðum sem við önnur tækifæri, eins og bæði er skylt og rétt að minnast bræðra sinna. 12 Við fögnum yfir frægð ykkar. 13 Ýmsir örðugleikar hafa steðjað að okkur úr öllum áttum, og margt stríðið, og konungarnir í grannríkjunum hafa herjað á okkur. 14 Ekki vildum við þó ómaka ykkur né aðra bandamenn okkar og vini í þessum styrjöldum 15 því að við höfum hjálp á himni sem veitir okkur fulltingi og hefur frelsað okkur frá óvinum okkar og komið þeim á kné.
16 Nú höfum við kjörið Númeníus Antíokkusson og Antípater Jasonarson til farar til Rómverja til að endurnýja fyrri vináttu og bandalag við þá. 17 Við höfum einnig falið þeim að fara til ykkar og bera ykkur kveðju okkar og afhenda ykkur þetta bréf um endurnýjun á bræðralagi okkar. 18 Vel gerið þið ef þið sendið okkur svar við þessu.“
19 Afrit af bréfinu sem Ónías fékk er svohljóðandi: 20 „Aríus, konungur Spartverja, sendir Óníasi æðsta presti kveðju. 21 Í riti einu um Spartverja og Gyðinga er frá því greint að þeir séu bræður enda hvorir tveggja af ætt Abrahams. 22 Þar sem vér höfum komist að þessu gerðuð þið vel að skrifa oss um hagi ykkar. 23 Vér munum svo svara bréfi ykkar. Búsmali ykkar og eigur eru vorar og allt vort er ykkar og gefum vér fyrirmæli um að þetta verði kunngjört ykkur.“

Herferðir Jónatans og Símonar

24 Jónatan frétti að hershöfðingjar Demetríusar væru komnir aftur með enn meiri herafla en áður til að ráðast á hann. 25 Vildi hann ekki gefa þeim tóm til að komast inn í land sitt og fór því frá Jerúsalem og bjó sig til atlögu gegn þeim í Hamathéraði. 26 Hann sendi njósnara í herbúðir þeirra og komu þeir aftur með þær njósnir að óvinurinn væri að búa sig undir árás á þá um nóttina. 27 Við sólsetur skipaði Jónatan mönnum sínum að vaka og vera undir vopnum og albúnir til bardaga alla nóttina. Setti hann einnig varðmenn umhverfis herbúðirnar.
28 Andstæðingar Jónatans fréttu að hann og menn hans væru búnir til bardaga. Olli það þeim ótta og skelfingu. Kveiktu þeir bál í herbúðunum og héldu á brott. 29 Jónatan og menn hans urðu einskis vísari fyrr en í morgunsárið sakir eldbjarmans sem þeir sáu. 30 Þeir veittu óvinunum eftirför en náðu þeim ekki þar sem þeir komust yfir Elevterusfljót. 31 Jónatan sneri þá gegn Aröbum, sem kallast Sabadear, sigraði þá og rændi herfangi. 32 Tók hann sig upp þaðan, hélt til Damaskus og fór um landið allt.
33 Símon fór einnig herför um landið til Askalon og til víggirtu borganna þar í grennd. Sneri hann síðan til Joppe og tók hana herskildi 34 enda hafði hann fregnað að ætlunin væri að afhenda mönnum Demetríusar virkið. Hann setti setulið þar til að gæta virkisins.
35 Þegar Jónatan kom heim kallaði hann öldunga lýðsins saman og ákvað í samráði við þá að reisa virki í Júdeu. 36 Einnig var afráðið að hækka múra Jerúsalem og hlaða háan múr milli virkisins og borgarinnar til að skilja það frá borginni svo að virkið einangraðist og setuliðið gæti hvorki selt neitt né keypt.
37 Menn dreif að til byggingarstarfa, en nokkur hluti múrsins við árfarveginn að austanverðu var hruninn, og einnig gerði hann við hið svokallaða Kafenata. 38 Símon byggði einnig upp bæinn Hadíd í Sefela, víggirti hann og bjó hann hliðum með slagbröndum.

Trýfon tekur Jónatan til fanga

39 Trýfon sat um líf Antíokkusar konungs því að sjálfur vildi hann ná völdum í Asíu og verða krýndur konungur. 40 Var hann ekki ugglaus um að Jónatan mundi standa í vegi fyrir fyrirætlunum þeirra og halda með her gegn sér. Trýfon leitaði því ráða til að ná Jónatan og ryðja honum úr vegi og hélt til Bet Sean. 41 Jónatan fór í móti honum með fjörutíu þúsund úrvals bardagamenn og kom til Bet Sean. 42 Þegar Trýfon sá að Jónatan kom svo liðsterkur þorði hann ekki að leggja til atlögu gegn honum. 43 Þess í stað tók hann veglega á móti Jónatan, kynnti hann fyrir öllum vinum sínum og gaf honum gjafir. Bauð hann vinum sínum og herliði að hlýða Jónatan eins og sjálfum sér.
44 Við Jónatan sagði hann: „Hví hefur þú lagt erfiði á allt þetta lið úr því að enginn ófriður er okkar í milli? 45 Sendu það til síns heima og veldu þér fáeina að fylgisveinum. Komdu síðan með mér til Ptólemais. Þá skal ég afhenda þér borgina og að auki hinar víggirtu borgirnar og hersveitirnar sem eftir eru og alla embættismenn. Síðan mun ég fara og halda heimleiðis enda hingað kominn þessara erinda.“
46 Jónatan lagði trúnað á orð hans og gerði svo sem hann sagði. Hann lét liðið fara, og hélt það til Júdeu, 47 en hafði þrjú þúsund manns hjá sér. Tvö þúsund þeirra skildi hann eftir í Galíleu en þúsund fóru með honum.
48 Þegar Jónatan kom inn í Ptólemais lokuðu borgarbúar hliðunum, gripu hann og hjuggu niður alla sem með honum voru. 49 Trýfon sendi síðan herlið og riddara til Galíleu og út á sléttuna miklu til að gera út af við menn Jónatans. 50 Þegar mönnum Jónatans varð ljóst að hann hafði verið gripinn og farist með mönnum sínum, stöppuðu þeir stálinu hver í annan og sóttu fram fylktu liði, albúnir til orrustu. 51 Hinum, sem þá ofsóttu, skildist þá að þeir mundu berjast fyrir lífi sínu og sneru aftur. 52 Menn Jónatans komust því allir heilir á húfi til Júdeu og hörmuðu Jónatan og liðsmenn hans. Einnig voru þeir óttaslegnir mjög og allur Ísrael var harmi lostinn.
53 Allar þjóðirnar umhverfis gripu tækifærið og reyndu að tortíma Ísraelsmönnum og sögðu sem svo: „Þeir hafa hvorki fyrirliða né neinn sem hjálpar. Við skulum ráðast á þá og afmá minningu þeirra meðal manna.“