Páskahátíðin

1 Gæt þess að halda Drottni, Guði þínum, páska í abíbmánuði. Það var nótt eina í abíbmánuði að Drottinn, Guð þinn, leiddi þig út úr Egyptalandi. 2 Þú skalt slátra Drottni, Guði þínum, fórnardýrum páskanna, sauðum og nautum, á staðnum sem Drottinn mun velja til að láta nafn sitt búa þar. 3 Þú mátt ekki eta sýrt brauð með fórninni heldur skalt þú eta ósýrt brauð í sjö daga, neyðarbrauð, því að þú fórst í flýti frá Egyptalandi, svo að þú minnist brottfarardags þíns frá Egyptalandi alla ævidaga þína. 4 Ekki má súrdeig sjást neins staðar á landi þínu í sjö daga og ekkert af því kjöti, sem þú fórnar að kvöldi fyrsta dagsins, má verða eftir til næsta morguns.
5 Þú mátt ekki slátra fórnardýri páskanna hvar sem er í þeim borgum sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér 6 heldur aðeins á staðnum sem Drottinn, Guð þinn, mun velja til að láta nafn sitt búa þar. Þar skaltu slátra fórnardýri páskanna um kvöldið, við sólarlag, á sömu stund og þú fórst út úr Egyptalandi.
7 Þú skalt sjóða kjöt fórnardýrs páskanna og neyta þess á þeim stað sem Drottinn, Guð þinn, mun velja sér. Morguninn eftir skaltu halda aftur til tjalda þinna.
8 Sex daga skalt þú eta ósýrt brauð. Sjöunda daginn er hátíðarsamkoma Drottni, Guði þínum, til dýrðar. Þá skaltu ekkert verk vinna.

Viknahátíðin

9 Sjö vikur skaltu telja. Þær skaltu telja frá því að sigðin er fyrst lögð að kornstöngunum. 10 Þá skaltu halda Drottni, Guði þínum, viknahátíðina með því að færa honum gjafir af fúsum og frjálsum vilja í samræmi við þá blessun sem Drottinn, Guð þinn, hefur veitt þér.
11 Þú skalt gleðjast frammi fyrir Drottni, Guði þínum, þú og synir þínir og dætur, þrælar þínir og ambáttir ásamt Levítunum, sem búa í borg þinni, og aðkomumönnunum sem njóta verndar þinnar, munaðarleysingjum og ekkjum sem hjá þér eru. Þú skalt gleðjast á staðnum sem Drottinn, Guð þinn, mun velja til þess að láta nafn sitt búa á. 12 Og minnstu þess að þú varst sjálfur þræll í Egyptalandi og þú skalt halda þessi lög og fylgja þeim.

Laufskálahátíðin

13 Laufskálahátíðina skaltu halda í sjö daga þegar þú hefur hirt uppskeruna af þreskivelli þínum og vínið úr vínpressu þinni. 14 Þú skalt gleðjast á hátíð þinni, þú og synir þínir og dætur, þrælar þínir og ambáttir ásamt Levítunum, aðkomumönnunum, munaðarleysingjum og ekkjum sem búa í borg þinni. 15 Þú skalt halda Drottni, Guði þínum, hátíð í sjö daga á staðnum sem Drottinn mun velja. Þegar Drottinn, Guð þinn, hefur blessað þig með allri uppskeru þinni og í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur skaltu fagna stórum.
16 Þrisvar á ári, á hátíð hinna ósýrðu brauða, viknahátíðinni og laufskálahátíðinni, skulu allir karlmenn þínir sjá auglit Drottins, Guðs þíns, [ á staðnum sem hann velur. Enginn skal koma tómhentur til að sjá auglit Drottins 17 heldur skal hver koma með sína gjöf í samræmi við þá blessun sem Drottinn, Guð þinn, hefur veitt þér.

Dómarar og störf þeirra

18 Þú skalt skipa dómara og eftirlitsmenn fyrir ættbálka þína í öllum borgunum sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. Þeir eiga að stjórna fólkinu og dæma réttlátlega.
19 Þú skalt ekki halla réttinum. Þú skalt ekki sýna hlutdrægni. Þú skalt ekki þiggja mútur því að mútur blinda augu hins vitra og afbaka mál þeirra sem hafa á réttu að standa. 20 Réttlætinu einu skalt þú framfylgja svo að þú megir lifa og taka landið til eignar sem Drottinn, Guð þinn, fær þér.

Bann við hjáguðadýrkun

21 Þú skalt ekki gróðursetja neins konar tré sem Asérustólpa við hliðina á altari Drottins, Guðs þíns, sem þú reisir. 22 Þú skalt ekki setja upp neinn merkistein sem Drottinn, Guð þinn, hatar.