Babýlon, refsivöndur Drottins

1 Orð kom til Jeremía um alla Júdamenn á fjórða stjórnarári Jójakíms Jósíasonar Júdakonungs. Það var fyrsta stjórnarár Nebúkadresars, konungs í Babýlon. 2 Þetta er orðið sem Jeremía spámaður flutti allri þjóð Júda og öllum Jerúsalembúum:
3 Orð Drottins hefur komið til mín í tuttugu og þrjú ár, frá því á þrettánda stjórnarári Jósía Amónssonar Júdakonungs og til þessa dags. Ég hef hvað eftir annað flutt yður það en þér hafið ekki hlustað. 4 Drottinn hefur hvað eftir annað sent alla þjóna sína, spámennina, til yðar. En þér gáfuð því engan gaum og lögðuð ekki við hlustir.
5 Ég sagði: Hverfið nú, hver og einn, af yðar vonda vegi og frá yðar illu breytni. Þá getið þér búið áfram í landinu sem Drottinn gaf yður og feðrum yðar til ævarandi eignar. 6 Eltið ekki aðra guði, þjónið þeim hvorki né tilbiðjið þá. Þér skuluð ekki vekja reiði mína með handaverkum yðar svo að ég valdi yður ekki ógæfu. 7 En þér hlustuðuð ekki á mig, segir Drottinn, heldur vöktuð reiði mína með handaverkum yðar, sjálfum yður til ills.
8 Þess vegna segir Drottinn hersveitanna: Þar sem þér hafið ekki hlustað á ræðu mína, segir Drottinn, 9 sendi ég eftir öllum ættbálkunum fyrir norðan, segir Drottinn, ásamt þjóni mínum, Nebúkadresari, konungi í Babýlon. Ég mun stefna þeim gegn þessu landi og íbúum þess og gegn öllum þjóðunum umhverfis þá. Ég helga þá banni og geri þá að ógn, aðhlátursefni og ævarandi smán. 10 Ég læt hverfa gleðióp og fagnaðarhróp meðal þeirra, raddir brúðguma, kvarnarhljóð og lampaljós. 11 Allt þetta land verður rúst og auðn. Þjóðirnar þar verða þrælar konungsins í Babýlon í sjötíu ár.
12 Að sjötíu árum liðnum mun ég draga konunginn í Babýlon til ábyrgðar og þjóð hans vegna sektar þeirra, segir Drottinn, og einnig land Kaldea og geri það að ævarandi eyðimörk. 13 Ég mun láta allt sem ég hef talað gegn þessu landi rætast, allt sem skráð er í þessa bók og ræður Jeremía gegn öllum þjóðum. 14 Þær munu einnig verða þrælar margra þjóða og voldugra konunga. Þannig mun ég endurgjalda þeim breytni þeirra og handaverk.

Bikar reiðinnar

15 Svo sagði Drottinn, Guð Ísraels, við mig:
Tak við þessum vínbikar úr hendi minni, bikar reiðinnar, og láttu allar þær þjóðir sem ég sendi þig til drekka úr honum. 16 Þær eiga að drekka svo að þær reiki um og verði viti sínu fjær andspænis sverðinu sem ég mun senda mitt á meðal þeirra.
17 Þá tók ég við bikarnum úr hendi Drottins og lét allar þjóðir, sem Drottinn hafði sent mig til, drekka úr honum: 18 Jerúsalem og borgirnar í Júda, konunga hennar og höfðingja, til að leggja borgirnar í rúst og gera þær að eyðimörk, að aðhlátursefni og tilefni formælinga eins og nú er fram komið, 19 faraó Egyptalandskonung, þjóna hans og hirðmenn og alla þegna hans, 20 alla þjóðablönduna, alla konunga í Úslandi, alla konunga Filistea ásamt Askalon, Gasa, Ekron og því sem eftir er af Asdód, 21 Edóm, Móab og Ammóníta, 22 alla konunga í Týrus og alla konunga í Sídon og konunga eyjanna sem eru handan hafsins, 23 Dedan, Tema og Bús og alla með hárið skorið stutt, 24 alla konunga Arabíu og alla konunga blönduðu þjóðanna sem búa í eyðimörkinni, 25 alla konunga í Simrí, Elam og Medíu, 26 alla konunga fyrir norðan, bæði nær og fjær, hvern eftir annan. Ég læt öll konungsríki heims drekka og síðastur allra á konungur Sesak[ að drekka.
27 Þú skalt segja við þá: Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: „Drekkið, gerist drukknir, spýið, dettið niður og rísið ekki upp aftur vegna sverðsins sem ég sendi mitt á meðal yðar.“ 28 En ef þeir neita að taka við bikarnum úr hendi þér og drekka skaltu segja við þá: Svo segir Drottinn hersveitanna: „Þér verðið að drekka!“
29 Sjá, ég hefst þegar handa við að leiða ógæfu yfir borgina sem kennd er við mig. Ættuð þér þá að komast undan? Nei, þér komist ekki undan því að ég býð út sverði gegn öllum íbúum jarðarinnar, segir Drottinn hersveitanna.

Dómur yfir þjóðunum

30 Þú skalt boða þeim allt þetta og segja:
Drottinn öskrar sem ljón frá hæðum,
hann lætur rödd sína gjalla frá sínum heilaga bústað.
Hann þrumar hátt yfir haga sinn,
hrópar fagnandi eins og þeir sem troða vínber.
31 Háreystin berst til allra íbúa heims,
allt til endimarka jarðar
því að Drottinn höfðar mál gegn þjóðunum,
heldur rétt yfir öllum dauðlegum
og gefur hina guðlausu sverðinu á vald, segir Drottinn.
32 Svo segir Drottinn hersveitanna:
Ógæfan berst frá þjóð til þjóðar,
voldugur stormur geisar frá endimörkum jarðar.

33 Þeir sem felldir verða af Drottni munu á þeim degi liggja dreifðir um alla jörðina. Þeir verða hvorki syrgðir né þeim safnað saman og þeir verða ekki grafnir. Þeir verða að áburði fyrir jarðveginn.
34 Harmið, hirðar, og kveinið,
veltið yður í rykinu, leiðtogar hjarðarinnar.
Því að sá tími er kominn
að yður verði slátrað,
ég mola yður og þér fallið til jarðar
eins og skrautlegt leirker.
35 Hirðarnir finna ekkert skjól,
leiðtogar hjarðarinnar komast ekki undan.
36 Hlustið, hirðarnir kveina,
leiðtogar hjarðarinnar harma
því að Drottinn eyðir haglendi þeirra,
37 hin friðsælu beitilönd eru sviðin
af brennandi reiði Drottins.
38 Hann kom út úr fylgsni sínu eins og ljón,
land þeirra er lagt í eyði af ógnandi sverði hans
og fyrir hans glóandi heift.