Dýrkun á náttúrufyrirbærum

1 Afglapar voru allir í eðli sínu sem þekktu ekki Guð og gátu ekki getið sér til um þann sem er af fegurð þess sem augun litu, né fengu hugboð um meistarann af verkum hans. 2 Þeir töldu eldinn, vindinn, kvikt loftið, stjarnhvelfinguna, beljandi hafið eða ljósbera himins vera guðina sem stýra heimi. 3 Fyrst þeir hrifust svo af fegurð þessa að þeir álitu það guði, þá ættu þeir að skilja hve miklu fremri þessum fyrirbærum sá er sem ríkir yfir þeim. Höfundur allrar fegurðar skóp þau. 4 En hafi þeir undrast mátt þeirra og kraft, hefðu þeir átt að ráða af því hve miklu máttugri sá er sem kom þessu til leiðar. 5 Því af mikilfengleik og fegurð sköpunarinnar má geta sér til um höfundinn. 6 Þeim er þó ekki láandi. Þótt þeir leiti Guðs og þrái að finna hann villast þeir hæglega. 7 Þeir umgangast verk Guðs og rannsaka þau en útlitið glepur þeim sýn, svo fagurt er það. 8 En þeir eru þó ekki sýknir saka. 9 Fyrst þeim tókst að ná svo langt í þekkingu að þá gat rennt grun í eilífðina, hvers vegna fundu þeir ekki fyrr Drottin alls þessa?

Dýrkun skurðgoða

10 Aumkunarverðir eru þeir sem setja von sína á dauða hluti og kalla handaverk manna guði, gull og silfur sem listamenn hafa mótað, dýramyndir og verðlausan stein sem höggvinn var fyrir löngu. 11 Smiður fer og viðar að sér í skógi, sagar bút og tekur með sér, skefur allan börk með leikni og smíðar haglega notadrjúgt áhald til heimilisnota. 12 Spæni af smíðinni notar hann í eld til suðu og etur sig mettan, 13 en einn kubbinn, undinn við og kvistóttan, sem einskis er nýtur, tekur hann og telgir til af natni þegar næði gefst. Hann mótar hann af leikni sinni í mannsmynd 14 eða gerir hann líkan auvirðilegu kvikindi, smyr hann menju og málar hann rauðum lit yfir alla bletti. 15 Hann býr honum verðugt skrín til að búa í, setur hann á vegg og festir með nagla. 16 Nú er það tryggt að hann dettur ekki því hann veit að hann getur ekki bjargað sér sjálfur enda líkneski og hjálparþurfi. 17 En þegar hann biður fyrir eignum sínum, hjónabandi og börnum blygðast hann sín ekki fyrir að ávarpa lífvana hlut. Hann biður veikt um heilbrigði, 18 dautt um líf, grátbænir úrræðalaust um aðstoð og um fararheill það sem getur hvorki hrært legg né lið. 19 Auk þess heitir hann á það sem hefur máttarvana hendur að duga sér við athafnir og störf og handiðn sína.