Þjónn Drottins

1Sjá þjón minn sem ég styð,
minn útvalda sem ég hef velþóknun á.
Ég legg anda minn yfir hann,
hann mun færa þjóðunum réttlæti.
2Hann kallar ekki og hrópar ekki
og lætur ekki heyra rödd sína á strætunum.
3Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur
og dapran hörkveik slekkur hann ekki.
Í trúfesti kemur hann rétti á.
4Hann þreytist ekki og gefst ekki upp
uns hann hefur grundvallað rétt á jörðu
og fjarlæg eylönd bíða boðskapar hans.
5Svo segir Drottinn Guð
sem skapaði himininn og þandi hann út,
sem breiddi út jörðina með öllu sem á henni vex,
sá er andardrátt gaf jarðarbúum
og lífsanda þeim sem á jörðinni ganga:
6Ég, Drottinn, kallaði þig í réttlæti
og held í hönd þína.
Ég móta þig,
geri þig að sáttmála fyrir þjóðirnar
og að ljósi fyrir lýðina
7til að opna hin blindu augu,
leiða fanga úr varðhaldi
og úr dýflissu þá sem í myrkri sitja.
8Ég er Drottinn, það er nafn mitt,
og dýrð mína gef ég ekki öðrum
né lof mitt úthöggnum líkneskjum.
9Sjá, hið fyrra er fram komið
en nú boða ég nýtt
og áður en það vex upp
kunngjöri ég það.

Nýr lofsöngur

10Syngið Drottni nýjan söng,
syngið lof hans frá endimörkum jarðar,
hafið fagni og allt sem í því er,
fjarlægar eyjar og íbúar þeirra.
11Eyðimörkin og borgir hennar hrópi
og þorpin þar sem Kedar býr,
íbúar Sela syngi af gleði
og hrópi frá fjallatindunum.
12Þeir gefi Drottni dýrðina
og kunngjöri lof hans á fjarlægum eyjum.
13Drottinn heldur af stað sem hetja,
glæðir hugmóð eins og bardagamaður,
hann lýstur upp herópi
og ber sigurorð af fjandmönnum sínum.
14Ég hef þagað frá öndverðu,
verið hljóður og ekki hafst að.
Nú mun ég hljóða eins og kona í barnsnauð,
stynja og standa á öndinni.
15Ég mun láta fjöll og hálsa skrælna
og svíða allan gróður á þeim,
gera árnar að þurrlendi
og tjarnirnar þurrka ég upp.
16Ég leiði blinda um braut sem þeir rata ekki,
læt þá ganga vegi sem þeir þekkja ekki,
ég geri myrkrið fyrir augum þeirra að birtu
og ójöfnur sléttar.
Þessi verk vinn ég
og læt það ekki ógert.
17Þeir sem treysta skurðgoðunum
skulu hörfa og verða sér til skammar,
þeir sem segja við steypt líkneski:
„Þér eruð guðir vorir.“

Blind og heyrnarlaus þjóð

18Hlustið, þér heyrnarlausir,
lítið upp, blindir, svo að þér sjáið.
19Hver er blindur ef ekki þjónn minn
og heyrnarlaus ef ekki sendiboði minn?
Hver er svo blindur sem boðberi minn
eða svo blindur sem þjónn Drottins?
20Margt sér hann en gefur því engan gaum,
hefur eyrun opin en hlustar ekki.
21Vegna réttlætis síns þóknaðist Drottni
að gera lögmál sitt mikið og vegsamlegt.
22 En þeir eru rænd og rupluð þjóð,
allir fjötraðir í dýflissum eða fangelsum,
þeir urðu herfang og enginn bjargaði,
ránsfengur og enginn segir: „Látið þá lausa.“
23 Hver af yður vill hlýða á þetta,
gefa því gaum og hlusta vegna framtíðarinnar?
24 Hver ofurseldi Jakob ránsmönnum
og Ísrael þjófum?
Var það ekki Drottinn sem vér syndguðum gegn?
Þeir vildu ekki ganga á vegum hans
og ekki hlýða lögum hans.
25 Þess vegna jós hann glóandi reiði sinni
og stríðsógnum yfir þá.
Reiðin brann umhverfis þá
en þeir skildu það ekki
og hún sveið þá
en þeir gáfu því ekki gaum.