Mælt gegn framandi þjóðum

Gegn Babýlon

1 Boðskapur um Babýlon sem Jesaja Amotssyni birtist:
2Reisið gunnfána á gróðurvana fjallstindi.
Hrópið til þeirra hárri röddu.
Bendið þeim að koma gegnum hlið höfðingjanna.
3Ég kvaddi sjálfur út minn vígða her,
kallaði hetjur mínar til að vinna verk reiði minnar,
þá sem fagna frammi fyrir hátign minni.
4Heyrið, gnýr er á fjöllunum
eins og frá mannmergð,
hark frá konungsríkjum,
þjóðum sem safnast saman.
Drottinn allsherjar kannar liðið,
vígbúinn herinn.
5Þeir koma frá fjarlægu landi,
frá ystu mörkum himins,
Drottinn og vopn reiði hans,
til að eyða landið allt.
6Kveinið því að dagur Drottins er í nánd.
Hann kemur sem eyðing frá Hinum almáttka.
7Þess vegna verða allar hendur lémagna
og öllum fellst hugur.
8Þeir verða skelfingu lostnir,
helteknir krampa og kvölum
og engjast eins og jóðsjúk kona.
Þeir stara skelfdir hver á annan,
rauðglóandi í framan.
9Hinn hræðilegi dagur Drottins kemur
með reiði og logandi heift
til að gera jörðina að auðn
og afmá syndara af henni.
10Stjörnur himins og stjörnumerki
munu ekki láta ljós sitt skína,
sólin myrkvast í dagrenningu
og tunglið ber enga birtu.
11Ég mun refsa heiminum fyrir illskuna
og óguðlegum fyrir synd þeirra.
Ég mun binda enda á hroka stærilátra
og yfirlæti harðstjóranna mun ég lægja.
12Ég mun gera menn fágætari en skíragull
og mannfólk sjaldséðara en Ófírgull.
13Himinninn mun skjálfa
og jörðin hnikast úr stað
vegna reiði Drottins allsherjar
á degi brennandi heiftar hans.
14Eins og fæld gasella,
eins og fjárhópur án smala,
mun sérhver snúa til sinnar þjóðar,
heim í sitt eigið land.
15Hver sem fyrir verður mun lagður í gegn,
hver sem næst mun falla fyrir sverði.
16Ungbörn þeirra verða barin til bana
fyrir augum þeirra,
hús þeirra rænd,
eiginkonum þeirra nauðgað.
17Já, ég æsi Meda gegn þeim.
Þeir meta silfur einskis
og girnast ekki gull.
18Bogar þeirra munu fella æskumenn til jarðar, [
þeir þyrma ekki ávexti móðurlífsins
og líta ekki börn miskunnaraugum.
19Fyrir Babýlon, prýði konungsríkja,
skartinu sem Kaldear hreykja sér af,
mun fara eins og Sódómu og Gómorru
þegar Guð umturnaði þeim.
20Hún verður aldrei framar mönnum byggð,
enginn sest þar að, kynslóð eftir kynslóð.
Enginn hirðingi mun tjalda þar
né hjarðmaður hvíla þar hjörð sína.
21En eyðimerkurdýr munu hafast þar við
og uglur fylla húsin.
Strútar munu setjast þar að
og púkar stökkva um.
22 Hýenur munu væla í virkjunum
og sjakalar í gleðisölunum.
Tími hennar [ færist nær,
dögum hennar mun ekki fjölga.