Leyndardómur Guðs opinber

1 Þegar ég kom til ykkar, systkin,[ og boðaði ykkur leyndardóm Guðs[ gerði ég það ekki með háfleygri mælsku eða spekiorðum. 2 Þegar ég var með ykkur ásetti ég mér að hafa ekkert í huga annað en Jesú Krist og hann krossfestan. 3 Og ég dvaldist á meðal ykkar í veikleika, ótta og mikilli angist. 4 Orð mín og boðun studdust ekki við sannfærandi vísdómsorð. Ég treysti sönnun og krafti Guðs anda. 5 Trú ykkar skyldi ekki byggð á vísdómi manna heldur á krafti Guðs.
6 Ég tala speki meðal hinna fullkomnu, þó ekki speki þessarar aldar eða höfðingja þessarar aldar sem eiga að líða undir lok, 7 heldur tala ég leynda speki Guðs sem hulin hefur verið en Guð hefur frá eilífð fyrirhugað okkur til dýrðar sinnar. 8 Enginn af höfðingjum þessa heims þekkti hana. Hefðu þeir þekkt hana hefðu þeir ekki krossfest Drottin dýrðarinnar. 9 En það er eins og ritað er:
Það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki
og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns,
það allt hefur Guð fyrirbúið þeim er hann elska.

10 En Guð hefur látið anda sinn opinbera okkur hana því að andinn rannsakar allt, jafnvel djúpin í Guði. 11 Hver veit hvað í manninum býr nema andi mannsins sem í honum er? Eins veit enginn hvað í Guði býr nema andi Guðs. 12 En við höfum ekki hlotið anda heimsins heldur andann sem er frá Guði, til þess að við skulum vita hvað Guð hefur gefið okkur. 13 Enda segjum við það ekki með orðum sem mannlegur vísdómur kennir heldur með orðum sem andi Guðs kennir og útlistum andleg efni á andlegan hátt.[ 14 Jarðbundinn maður hafnar því sem andi Guðs boðar, honum er það heimska. Hann getur ekki skilið það af því að andinn veitir skilninginn. 15 En sá sem hefur andann dæmir um allt en enginn getur dæmt um hann. 16 Því að hver hefur þekkt huga Drottins að hann geti frætt hann? En við höfum huga Krists.