Á þreskivelli Bóasar

1 Naomí, tengdamóðir hennar, sagði við hana: „Dóttir mín, á ég ekki að leita þér ráðahags svo að þér vegni vel? 2 Þú hefur unnið með stúlkum Bóasar og hann er venslaður okkur. Og taktu nú eftir. Í kvöld varpar hann bygginu á þreskivelli sínum.[ 3 En þú skalt þvo þér, smyrja þig ilmsmyrslum, klæðast skikkju og fara niður á þreskivöllinn. Gættu þess að Bóas verði ekki var við þig fyrr en hann hefur etið og drukkið. 4 Þegar hann leggst til hvíldar, taktu þá eftir hvar hann leggst niður. Farðu þá þangað, lyftu ábreiðunni til fóta honum og leggstu þar. Hann mun þá segja þér hvað þú átt að gera.“ 5 Og Rut svaraði henni: „Ég skal gera allt sem þú segir.“ 6 Síðan fór hún niður á þreskivöllinn og gerði allt eins og tengdamóðir hennar hafði fyrir hana lagt.
7 Þegar Bóas hafði etið og drukkið lagðist hann endurnærður og ánægður við endann á kornbingnum. Þangað laumaðist Rut, lyfti ábreiðunni af fótum hans og lagðist niður. 8 Um miðnætti hrökk hann upp og er hann sneri sér sá hann sér til undrunar að kona lá við fætur hans. 9 Og hann spurði: „Hver ert þú?“ Hún svaraði: „Ég er Rut, ambátt þín. Breiddu kápu þína yfir mig því að þú ert lausnarmaður.“ 10 Þá sagði Bóas: „Drottinn blessi þig, dóttir mín. Með þessu hefur þú sýnt enn meiri ræktarsemi en áður því að þú hefur ekki elt ungu mennina, hvorki ríka né fátæka. 11 Vertu óhrædd, dóttir mín, ég mun gera fyrir þig allt sem þú biður því að allir samborgarar mínir vita að þú ert dygðug kona. 12 Það er vissulega rétt að ég er lausnarmaður en þó er annar lausnarmaður sem stendur þér nær. 13 Vertu hér í nótt. Vilji hann leysa þig á morgun, gott og vel, þá leysi hann þig. En vilji hann ekki leysa þig þá mun ég sjálfur leysa þig, svo sannarlega sem Drottinn lifir. Sofðu nú til morguns.“
14 Hún svaf til fóta honum til morguns en fór þá á fætur í bítið, áður en ratljóst var orðið, því að Bóas vildi ekki að það spyrðist að konan hefði komið á þreskivöllinn.
15 Hann sagði: „Láttu mig fá skikkjuna, sem þú ert í, og haltu henni út.“ Og hún hélt henni út. Þá mældi hann sex mál af byggi og lét á herðar henni. Síðan fór hann til borgarinnar.
16 Þegar Rut kom til tengdamóður sinnar spurði Naomí: „Hvernig gekk þér, dóttir mín?“ Hún sagði henni hversu vel Bóas hefði reynst henni: 17 „Þessi sex mál af byggi gaf hann mér og sagði: Þú skalt ekki koma tómhent til tengdamóður þinnar.“ 18 Naomí svaraði: „Bíddu átekta, dóttir mín, þar til þú fréttir hvernig málinu reiðir af því að maður þessi ann sér ekki hvíldar nema hann ráði málinu til lykta í dag.“