Ljóð Móse

1Hlustið, himnar, og ég mun mæla,
jörðin hlýði á mál mitt.
2Kenning mín streymi sem regn,
ræða mín drjúpi sem dögg,
eins og gróðrarskúr á grængresi
og dögg á nýgræðing.
3Ég vil kunngjöra nafn Drottins,
lofið mátt Guðs vors.
4Hann er bjargið, verk hans fullkomin
og allir hans vegir réttlátir.
Hann er trúfastur Guð og svikalaus,
réttlátur og hreinlyndur.
5Svikul kynslóð og spillt brást honum;
sér til svívirðu eru þeir ekki synir hans framar.
6Þakkar þú Drottni þannig,
heimska og fávísa þjóð?
Er hann ekki faðir þinn og skapari,
sá er gerði þig og fann þér samastað?
7Minnstu fyrri tíða,
hygg að árum genginna kynslóða.
Spyrðu föður þinn, hann fræðir þig,
öldungana, þeir segja þér frá.
8Þegar Hinn hæsti fékk guðunum þjóðirnar, [
er hann greindi mennina að,
þá setti hann þjóðunum landamerki
eftir fjölda guðanna. [
9En lýður Drottins kom í hlut hans,
Jakob varð erfðahlutur hans.
10Hann fann hann í auðninni,
í ýlfrandi óbyggðum,
sveipaði hann, hlúði að honum,
gætti hans sem sjáaldurs auga síns,
11eins og örn sem gætir hreiðurs síns
og svífur yfir ungum sínum,
eins þandi hann vængi sína, greip einn þeirra upp
og bar burt á vængjum sér.
12Drottinn einn leiddi Jakob,
enginn framandi guð er með honum.
13Hann lét hann fara um hæðir landsins
og nærast af ávexti jarðar.
Hann gaf honum hunang úr klettum að sjúga
og ólífuolíu úr tinnusteinum.
14Hann ól hann á rjóma og mjólk úr kúm og ám,
feiti lamba, sauða, hafra og Basannauta,
og besta hveiti,
þrúgnablóð drakkstu sem freyðandi vín.
15Jakob át fylli sína,
Jesjúrún [ varð feitur og sparkaði,
þú fitnaðir, varðst digur og sællegur.
Hann hafnaði Guði sem mótaði hann,
forsmáði klettinn sem bjargaði honum.
16Þeir vöktu afbrýði Drottins með framandi guðum,
ögruðu honum með viðurstyggilegum skurðgoðum.
17Þeir færðu fórnir illum öndum sem engir guðir eru,
guðum sem þeir þekktu ekki áður,
nýjum guðum, nýlega fram komnum,
sem vöktu feðrum yðar engan ugg.
18Þú afræktir bjargið sem gat þig,
gleymdir Guði sem ól þig.
19Drottinn sá það og hafnaði þeim
því að synir hans og dætur vöktu heift hans.
20Hann sagði: „Ég mun byrgja auglit mitt fyrir þeim,
ætla að sjá hvað um þau verður,
því að þau eru þverúðug kynslóð,
börn sem engin tryggð finnst í.
21Þau vöktu afbrýði mína með því sem ekki er guð,
vöktu heift mína með fánýtum skurðgoðum.
Nú vek ég afbrýði þeirra með því sem ekki er þjóð,
ögra þeim með heimskum lýð.
22 Úr nösum mér standa eldtungur
sem brenna niður í djúp heljar,
eyða jörð og jarðargróða,
leggja eld í grundvöll fjalla.
23 Ég mun hlaða að þeim hvers kyns böli,
eyða á þá örvum mínum.
24 Tærandi hungri, eyðandi plágu,
drepsótt og vígtenntu dýri
sleppi ég lausu á þá
og eitri þeirra sem í duftinu skríða.
25 Á strætum úti sviptir sverðið þá börnum,
í húsum inni mun skelfingin deyða
æskumann og yngismey,
brjóstmylking og öldung.
26 Ég hefði getað sagt: Þeim mun ég eyða,
afmá minningu þeirra meðal manna,
27 ef ég óttaðist ekki að óvinir Ísraels blekktu með því að segja:
Hönd okkar er sigursæl,
ekkert af þessu gerði Drottinn.“
28 En þeir eru ráðþrota þjóð,
skilning hafa þeir engan.
29 Væru þeir vitrir skildu þeir þetta,
væri ljóst hvað þeir eiga í vændum.
30 Hvernig fær einn elt þúsund
eða tveir menn hrakið tíu þúsund á flótta
nema bjarg þeirra hafi framselt þá,
Drottinn ofurselt þá?
31 En bjarg fjandmannanna er ekki sem bjarg vort,
um það geta óvinir vorir dæmt.
32 Vínviður þeirra er af vínviði Sódómu,
hann er úr víngörðum Gómorru,
vínber þeirra eru eitruð,
þrúgurnar beiskar,
33 vín þeirra er slöngueitur
úr banvænum nöðrum.
34 Er það ekki í minni vörslu,
innsiglað í forðabúri mínu?
35 Mín er hefndin og mitt að endurgjalda
er þeir gerast valtir á fótum.
Skapadægur þeirra er nærri,
það sem fyrir þeim liggur ber brátt að.
36 Því að Drottinn mun rétta hlut þjóðar sinnar,
sýna þjónum sínum miskunn
þegar hann sér að hver hönd er máttlaus,
engir eftir nema kúgaðir menn og hjálparvana.
37 Þá mun hann spyrja: Hvar eru guðir þeirra,
bjargið sem þeir leituðu hælis hjá
38 sem átu feiti sláturfórna þeirra,
drukku vín dreypifórna þeirra?
Gangi þeir nú fram og hjálpi yður,
verði þeir nú vörn yðar.
39 Sjáið nú að ég einn er Guð,
enginn ríkir mér við hlið.
Ég deyði og ég lífga,
ég særi og ég græði,
enginn fær frelsað úr hendi minni.
40 Ég hef hönd mína til himins og segi:
Svo sannarlega sem ég lifi að eilífu,
41 þegar ég hef hvesst mitt leiftrandi sverð,
tekið réttinn í mínar hendur
mun ég hefna mín á fjandmönnum mínum,
endurgjalda þeim sem hata mig.
42 Ég mun gera örvar mínar ölvaðar af blóði
og sverð mitt skal eta hold,
þær verða drukknar af blóði fallinna og fanga
og æðstu foringja fjandmannanna.
43 Himinn, fagnaðu sigri,
tilbiðjið hann, guðasynir, [ því að hann hefnir blóðs þjóna sinna
og hefnir sín á fjandmönnum sínum
en fyrirgefur landi þjóðar sinnar.

44 Móse kom ásamt Hósea [ Núnssyni og flutti þjóðinni allt þetta kvæði í heyranda hljóði.
45 Þegar Móse hafði lokið við að flytja öll þessi ákvæði fyrir öllum Ísrael 46 sagði hann: „Leggið ykkur á hjarta öll þau orð sem ég hef flutt ykkur í dag. Brýnið fyrir börnum ykkar að halda öll ákvæði þessara laga og framfylgja þeim. 47 Þau eru ekki innantóm orð sem engu skipta, þau eru sjálft líf ykkar því að sakir þessara orða verðið þið langlíf í landinu sem þið haldið nú inn í yfir Jórdan til að taka það til eignar.“

Dauði Móse boðaður

48 Þann sama dag ávarpaði Drottinn Móse og sagði:
49 „Farðu upp á Abarímfjall, fjallið Nebó í Móabslandi, gegnt Jeríkó, og horfðu yfir Kanaansland sem ég fæ Ísraelsmönnum til eignar. 50 Þú átt að deyja á fjallinu sem þú gengur upp á og safnast til þíns fólks eins og Aron bróðir þinn dó á Hórfjalli og safnaðist til síns fólks, 51 af því að þið báðir brugðuð trúnaði við mig meðal Ísraelsmanna hjá Meríbavötnum við Kades í Sínaíeyðimörkinni og virtuð mig ekki sem hinn heilaga meðal Ísraelsmanna. 52 Þótt þú megir horfa yfir til landsins færðu ekki að koma inn í landið sem ég gef Ísraelsmönnum.“