Sáttmálsörkin flutt til Jerúsalem

1 Enn einu sinni safnaði Davíð saman öllum vopnfærum mönnum í Ísrael, þrjátíu þúsund manns. 2 Hann hélt af stað ásamt öllum her sínum og hélt til Baala í Júda til þess að sækja þangað örk Drottins sem ber nafn[ Drottins hersveitanna sem situr í hásæti yfir kerúbunum. 3 Þeir sóttu örk Guðs á nýjum vagni og fluttu hana frá húsi Abínadabs sem var uppi á hæð einni. 4 Ússa og Ahjó, synir Abínadabs, stjórnuðu vagninum sem örk Guðs var á. Ahjó gekk á undan örk Guðs. 5 Davíð og allir Ísraelsmenn dönsuðu af miklum móði frammi fyrir augliti Drottins, sungu og léku á sítara, hörpur, pákur, bjöllur og málmgjöll.
6 Þegar þeir komu á þreskivöll Nakóns hnutu uxarnir. Ússa teygði sig þá til arkar Guðs og greip í hana. 7 Þá blossaði reiði Drottins upp gegn Ússa vegna þessarar yfirsjónar og laust hann Ússa banahögg. Hann lét lífið við hliðina á örk Guðs. 8 Davíð var mjög brugðið vegna þess að Drottinn hafði hrifið Ússa svo snögglega í burtu. Hann nefndi þennan stað Peres Ússa[ og það heitir hann enn. 9 Davíð hræddist Drottin á þessum degi og spurði: „Ætli örk Drottins komist nokkurn tíma til mín?“
10 Davíð vildi því ekki láta flytja örk Drottins heim til sín í borg Davíðs heldur sneri með hana að húsi Óbeðs Edóms frá Gat. 11 Örk Drottins stóð í húsi Óbeðs Edóms frá Gat í þrjá mánuði og Drottinn blessaði Óbeð Edóm og alla fjölskyldu hans.
12 Davíð konungi var sagt: „Drottinn hefur blessað fjölskyldu Óbeðs Edóms og allt, sem hann á, vegna arkar Guðs.“ Davíð fór þá glaður í bragði og flutti örk Guðs úr húsi Óbeðs Edóms upp til borgar Davíðs. 13 Þegar þeir sem báru örk Drottins höfðu gengið sex skref færði hann naut og alikálf sem sláturfórn. 14 Davíð sjálfur dansaði af miklum móði frammi fyrir augliti Drottins, búinn línhökli. 15 Þannig flutti Davíð og allir Ísraelsmenn örk Drottins norður eftir með fagnaðarópum og hafurshornablæstri. 16 Þegar örk Drottins kom til borgar Davíðs varð Míkal, dóttur Sáls, litið út um glugga. Er hún sá Davíð konung hoppa og dansa frammi fyrir augliti Drottins fyrirleit hún hann í hjarta sínu.
17 Örk Drottins var nú borin inn og henni komið fyrir á sínum stað í miðju tjaldinu sem Davíð hafði látið setja upp fyrir hana. Því næst færði Davíð brennifórnir og heillafórnir frammi fyrir augliti Drottins. 18 Eftir að Davíð hafði fært brennifórnina og heillafórnina blessaði hann fólkið í nafni Drottins hersveitanna. 19 Loks lét hann úthluta öllu fólkinu, öllum Ísraelsmönnum, körlum og konum, hverjum fyrir sig, einum brauðhleif, einni döðluköku og einni rúsínuköku. Því næst hélt hver og einn heim til sín.
20 Þegar Davíð kom heim til að heilsa fjölskyldu sinni gekk Míkal, dóttir Sáls, á móti honum og sagði: „En hvað konungur Ísraels bar sig virðulega í dag! Hann beraði sig fyrir framan ambáttir manna sinna eins og skríllinn gerir.“ 21 Davíð svaraði Míkal: „Fyrir augliti Drottins dansaði ég, hans sem tók mig fram yfir föður þinn og alla fjölskyldu hans og hefur gert mig að höfðingja yfir þjóð sinni, Ísrael. 22 Ég mun leggjast enn lægra en þetta og falla enn frekar í eigin augum, en meðal ambáttanna, sem þú nefndir, er ég mikils metinn.“ 23 En Míkal, dóttir Sáls, var barnlaus til æviloka.