Brottförin frá Egyptalandi

Niðjar Jakobs í Egyptalandi

1 Þetta eru nöfn sona Ísraels sem komu til Egyptalands með Jakobi. Hver um sig hafði komið ásamt fjölskyldu sinni: 2 Rúben, Símeon, Leví, Júda, 3 Íssakar, Sebúlon, Benjamín, 4 Dan, Naftalí, Gað og Asser. 5 Þetta voru allir niðjar Jakobs, sjötíu manns, en Jósef var fyrir í Egyptalandi.
6 Síðan dó Jósef, allir bræður hans og öll sú kynslóð. 7 En niðjar Ísraels voru frjósamir svo að þeim fjölgaði. Þeir margfölduðust, efldust meira og meira og landið varð fullt af þeim.

Þrælkun Ísraels

8 Nýr konungur, sem ekki hafði þekkt Jósef, komst til valda í Egyptalandi. 9 Hann sagði við þjóð sína: „Takið eftir. Ísraelsþjóðin er fjölmennari og öflugri en við. 10 Við skulum beita hana kænsku svo að henni fjölgi ekki meira. Komi til ófriðar gætu Ísraelsmenn jafnvel gengið í lið með fjandmönnum okkar og barist gegn okkur og síðan yfirgefið landið.“ [ 11 Þá settu Egyptar verkstjóra yfir þá til að þjaka þá með kvaðavinnu og þeir urðu að reisa birgðaborgir, Pítóm og Ramses, handa faraó. 12 En því meir sem þeir voru þjakaðir því meir fjölgaði þeim og þeim mun meir breiddust þeir út svo að Egyptar tóku að óttast Ísraelsmenn. 13 Þeir gerðu því Ísraelsmenn að þrælum og beittu þá hörku. 14 Þeir gerðu þeim lífið leitt með þungri þrælavinnu við leir og tígulsteina og alls kyns vinnu á ökrunum og með öllum þrældómi sem Egyptar þjökuðu þá vægðarlaust með.
15 Egyptalandskonungur talaði síðan við hebresku ljósmæðurnar. Hét önnur Sifra og hin Púa. 16 Hann sagði: „Þegar þið hjálpið hebreskum konum að fæða skuluð þið gefa gaum að kynferðinu. Sé barnið drengur skuluð þið svipta hann lífi; sé það stúlka má hún lifa.“ 17 En ljósmæðurnar óttuðust Guð og fóru ekki eftir fyrirmælum Egyptalandskonungs heldur gáfu börnunum líf. 18 Þá kallaði konungur Egyptalands ljósmæðurnar fyrir sig og spurði þær: „Hvers vegna gerið þið þetta og gefið drengjunum líf?“ 19 Ljósmæðurnar svöruðu faraó: „Hebreskar konur eru ekki eins og egypskar því að þær eru hraustbyggðar. Þær hafa þegar fætt er ljósmóðirin kemur til þeirra.“ 20 Guð launaði ljósmæðrunum með velgengni, og þjóðinni fjölgaði og hún efldist mikið. 21 Vegna þess að ljósmæðurnar óttuðust Guð veitti hann þeim barnalán. 22 En faraó gaf allri þjóð sinni fyrirmæli og sagði: „Öllum drengjum, sem fæðast meðal Hebrea, skuluð þið kasta í fljótið [ en öllum stúlkum megið þið gefa líf.“