1 Davíðssálmur.
Drottinn er ljós mitt og fulltingi,
hvern ætti ég að óttast?
Drottinn er vígi lífs míns,
hvern ætti ég að hræðast?
2Þegar illvirkjar þrengja að mér
til þess að gleypa mig
verða það andstæðingar mínir og óvinir
sem hrasa og falla.
3Þó að her setjist um mig
óttast hjarta mitt ekki,
þó að stríð brjótist út gegn mér
er ég samt öruggur.
4Eins hef ég beðið Drottin,
það eitt þrái ég,
að ég fái að dveljast í húsi Drottins
alla ævidaga mína
til þess að horfa á yndisleik Drottins
og leita svara í musteri hans.
5Því að hann geymir mig í skjóli sínu
á óheilladeginum,
hylur mig í fylgsnum tjalds síns
og lyftir mér upp á klett.
6Nú ber ég höfuðið hátt
gagnvart óvinum mínum umhverfis mig,
með fögnuði færi ég fórnir í tjaldi hans,
syng og leik Drottni.
7Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt,
ver mér náðugur og bænheyr mig.
8Ég minnist þess að þú sagðir:
„Leitið auglitis míns.“
Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.
9Hyl eigi auglit þitt fyrir mér,
vísa þjóni þínum ekki frá þér í reiði,
þú, sem hefur hjálpað mér.
Hrind mér eigi burt
og yfirgef mig eigi,
þú Guð hjálpræðis míns.
10Þótt faðir minn og móðir yfirgefi mig
tekur Drottinn mig að sér.
11Vísa mér veg þinn, Drottinn,
leiddu mig á beina braut
vegna óvina minna.
12Ofursel mig ekki græðgi hatursmanna minna,
falsvitni rísa gegn mér
og blása af heift.
13En ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins
á landi lifenda.
14Já, vona á Drottin,
ver öruggur og hugrakkur,
vona á Drottin.