Ísrael dæmdur

1Heyrið þetta, þér prestar,
takið eftir, Ísraelsmenn,
hlustaðu, konungsætt,
því að þér ábyrgist réttinn.
En þér urðuð snara fyrir Mispa,
útbreitt net á Tabor,
2djúp gröf grafin í Sittím
en ég mun refsa yður öllum.
3Ég þekki Efraím
og Ísrael er mér ekki hulinn
en nú hefurðu hórast, Efraím,
Ísrael hefur saurgað sig.
4Verk þeirra leyfa þeim ekki
að hverfa aftur til Guðs síns.
Þar sem hórdómsandi er í brjósti þeirra
þekkja þeir ekki Drottin.
5Hroki Ísraels vitnar gegn honum
og Ísrael og Efraím líða undir lok vegna eigin sektar.
Júda líður einnig undir lok ásamt þeim.
6Þeir munu halda af stað með hjarðir sauða sinna og nauta
til að leita Drottins
en þeir finna hann ekki,
hann hefur yfirgefið þá.
7Þeir hafa svikið Drottin
því að þeir hafa eignast óskilgetin börn.
Nú skal tunglkoman eyða þeim og ekrum þeirra.
8Þeytið horn í Gíbeu,
lúður í Rama,
hrópið heróp í Betaven,
gæt þín, Benjamín.
9Efraím verður auðn
á degi refsingarinnar.
Ættbálkum Ísraels flyt ég
áreiðanlegan boðskap.
10Höfðingjar Júda hegða sér eins og þeir
sem færa til landamerki,
ég mun hella heift minni yfir þá
eins og vatni.
11Efraím er kúgaður,
rétturinn fótum troðinn
því að hann ákvað
að fylgja lygi.
12En ég reynist Efraím eins og mölur
og Júdamönnum sem rotnun.
13Þegar Efraím uppgötvaði sjúkdóm sinn
og Júda sár sín
leitaði Efraím til Assýríu
og sendi til stórkonungsins
en hann gat ekki gert þá heila,
ekki grætt sár þeirra.
14Því að ég reynist Efraím eins og ljón,
Júdamönnum sem ungt ljón,
sjálfur ríf ég þá í sundur,
dreg þá burt og enginn getur bjargað.
15Ég sný aftur heim
og verð þar uns þeir iðrast
og leita auglitis míns.
Þeir munu leita til mín í neyð sinni.