Gegn bandalagi við Egypta

1Vei hinum þrjósku börnum, segir Drottinn,
sem leiða ráð til lykta sem ekki eru frá mér, [
ganga í bandalög sem ekki eru mér að skapi
og hlaða með því synd á synd ofan.
2Þau fara niður til Egyptalands
án þess að ráðgast við mig
til þess að leita hælis undir vernd faraós,
leita skjóls í skugga Egyptalands.
3En vernd faraós verður yður aðeins til skammar
og skjólið í skugga Egyptalands til smánar.
4Þó að höfðingjar séu í Sóan
og sendiboðar komnir til Hanes
5verða þeir allir til skammar
vegna þeirrar þjóðar
sem hvorki veitir hjálp né liðsemd,
heldur einungis skömm og smán.
6Boðskapur um dýrin í Suðurlandinu:
Um land neyðar og þrenginga,
þar sem ljónynjur og öskrandi ljón hafast við,
eiturnöðrur og fljúgandi drekar,
flytja þeir auðæfi sín á bökum asna
og fjársjóði sína á kryppum úlfalda
til þjóðar sem engum verður að liði.
7Liðveisla Egyptalands er fánýt og gagnslaus.
Því nefni ég það Rahab
sem ekkert aðhefst.

Þrjóskri þjóð refsað

8Komdu nú, skráðu þetta á töflu
og ritaðu það á bók
svo að það verði vitnisburður á komandi tímum
og um alla framtíð:
9Þetta er þrjósk þjóð, lygin börn,
börn sem ekki hlusta á leiðsögn Drottins.
10Þau segja við sjáendurna: „Sjáið ekki sýnir,“
og við spámennina: „Sjáið ekki það sem satt er,
segið oss eitthvað geðfellt,
kunngjörið tálsýnir.
11Víkið af veginum, beygið af brautinni,
hættið að setja oss Hinn heilaga Ísraels fyrir sjónir.“
12Þess vegna segir Hinn heilagi Ísraels svo:
„Sökum þess að þér hafnið þessu orði
en reiðið yður á ofbeldi og klæki og treystið á þá
13mun sekt yðar
verða yður sem sprunga
í gnæfandi borgarmúr
sem bungar út.
Sprungan veldur falli,
múrinn hrynur skyndilega og á augabragði.
14Hann hrynur eins og leirker sem er mölbrotið,
svo gersamlega mölbrotið
að ekki finnst brot í mylsnunni
sem taka mætti með eld af arni
eða ausa með vatni úr brunni.“
15Því að svo segir Drottinn Guð, Hinn heilagi Ísraels:
„Fyrir afturhvarf og rósemi munuð þér frelsast,
í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera.“
En þér vilduð þetta ekki
16heldur sögðuð: „Nei,
vér viljum þeysa fram á hestum.“
Þess vegna munuð þér flýja.
„Vér viljum ríða fráum fákum,“
og þess vegna munu þeir fráir sem elta yður.
17Eitt þúsund mun skjálfa vegna hótunar eins manns
og fyrir hótunum fimm manna munuð þér flýja
uns þeir sem eftir verða líkjast merkistöng á fjallstindi
eða gunnfána á hól.

Drottinn miskunnar þjóð sinni

18Því bíður Drottinn þess að sýna yður náð,
þess vegna rís hann upp til að miskunna yður,
því að Drottinn er Guð réttlætisins.
Sælir eru þeir sem á hann vona.
19Já, þú þjóð á Síon,
sem býrð í Jerúsalem,
þú skalt ekki gráta lengur.
Hann verður þér náðugur.
Þegar þú hrópar á hjálp
mun hann bænheyra þig.
20Drottinn mun gefa yður neyðarbrauð og þrengingavatn,
þá verður lærifaðir þinn ekki framar hulinn þér,
heldur munt þú sjá kennara þinn með eigin augum,
21heyra orð að baki þér með eigin eyrum:
„Þetta er vegurinn, farið hann,
hvort sem þér farið til hægri eða vinstri.“
22 Þá muntu afhelga silfurslegin skurðgoð þín
og gulli lögð guðalíkneski þín,
þú munt fleygja þeim í burtu eins og óþverra
og segja: „Burt héðan.“
23 Þá mun hann gefa því regn
sem þú sáðir í akurinn
og kornið, sem hann gefur af sér,
verður kjarnmikið og gott.
Á þeim degi mun fénaður þinn ganga í víðlendum grashaga
24 og uxarnir og asnarnir, sem akurinn erja,
fá saltaða fóðurblöndu að eta
sem dreift er með skóflu og kvísl.
25 Á hverju gnæfandi fjalli og hverri hárri hæð
munu lækirnir streyma bakkafullir
á hinum mikla mannfallsdegi
þegar turnarnir hrynja.
26 Þá verður tunglsljósið eins og sólarljós
og sólarljósið sjöfaldast,
daginn sem Drottinn bindur um sár þjóðar sinnar
og græðir benjarnar sem hann veitti henni.

Gegn Assýríu

27 Nafn Drottins kemur úr fjarlægð,
þungbær reiði hans brennur.
Heiftin freyðir um varir hans
og tunga hans er sem eyðandi eldur.
28 Andgustur hans er sem ólgandi vatnsfall
sem tekur manni í háls.
Hann sáldar lýði í síu eyðingarinnar,
beislar þjóðir og leiðir þær afvega.
29 Þér munuð syngja ljóð
eins og þegar menn helga sig á aðfaranótt hátíðar
og gleðjast af hjarta,
eins og þeir sem ganga við flautuleik
til fjalls Drottins, til bjargs Ísraels.
30 Þá lætur Drottinn hátignarraust sína hljóma
og sýnir að hann slær niður armi sínum
í brennandi reiði með eyðandi eldstungum,
skýfalli, ofviðri og hagli.
31 Assúr mun skelfast raust Drottins
þegar hann lýstur með kylfu sinni.
32 Hvert kylfuhögg verður refsing
sem Drottinn lætur ríða á honum
við bumbuslátt, gígjuhljóm og helgan dans
er hann reiðir til höggs og herjar á hann.
33 Eldfórnargryfjan er fyrir löngu undirbúin,
hún er ætluð konungi,
hún er djúp og breið,
í henni er mikill viður og eldur
sem andgustur Drottins kveikir
eins og brennisteinsflóð.