Himnaför Elía

1 Þegar Drottinn hugðist hefja Elía til himins í stormviðri voru þeir Elía og Elísa á leið frá Gilgal. 2 Elía sagði við Elísa: „Bíð hér því að Drottinn hefur sent mig til Betel.“ En Elísa svaraði: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú sjálfur lifir, þá yfirgef ég þig ekki.“ Síðan fóru þeir niður til Betel.
3 Þá komu lærisveinar spámannanna, sem voru í Betel, til Elísa og sögðu við hann: „Veistu að í dag er Drottinn í þann veginn að taka frá þér meistara þinn?“ Hann svaraði: „Það veit ég vel en hafið hljótt um það.“
4 Elía sagði þá við hann: „Bíð hér, Elísa, því að Drottinn hefur sent mig til Jeríkó.“ En hann svaraði: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú sjálfur lifir, mun ég ekki yfirgefa þig.“ Þeir komu síðan til Jeríkó.
5 Lærisveinar spámannanna, sem voru þar, komu þá til Elísa og spurðu hann: „Veistu að í dag er Drottinn í þann veginn að taka frá þér meistara þinn?“ Hann svaraði: „Það veit ég vel en hafið hljótt um það.“
6 Þá sagði Elía við hann: „Vertu hér kyrr því að Drottinn hefur sent mig til Jórdanar.“ Elísa svaraði: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú sjálfur lifir, þá mun ég ekki yfirgefa þig.“ Fóru þeir síðan báðir saman. 7 Fimmtíu spámannalærisveinar gengu með þeim og námu staðar álengdar þegar þeir tveir staðnæmdust við Jórdan. 8 Þá tók Elía skikkju sína, braut hana saman og sló með henni á vatnið. Við það skiptist það og þeir gengu báðir þurrum fótum yfir.
9 Þegar þeir voru komnir yfir sagði Elía við Elísa: „Segðu mér hvað ég get gert fyrir þig áður en ég verð tekinn frá þér.“ Elísa sagði: „Ég vildi að mér hlotnuðust tveir hlutar af anda þínum.“ 10 Hann svaraði: „Þú mælist til mikils. En ef þú sérð mig þegar ég verð tekinn frá þér munt þú hljóta þetta, annars ekki.“ 11 Meðan þeir voru að tala saman á göngunni birtist skyndilega eldvagn með eldhestum fyrir er skildi þá að og Elía fór til himins í stormviðri. 12 Elísa sá það og hrópaði: „Faðir minn, faðir minn. Þú, vagn Ísraels og vagnstjóri.“ Þegar Elía var horfinn sjónum hans þreif Elísa yfirhöfn sína og reif hana í tvennt. 13 Þá tók hann upp skikkju Elía, sem hafði fallið af honum, sneri við og staðnæmdist á bökkum Jórdanar. 14 Hann tók skikkju Elía, sem hafði fallið af honum, sló með henni á vatnið og sagði: „Hvar er nú Drottinn, Guð Elía?“ Þegar hann sló á vatnið skiptist það og Elísa gekk yfir.
15 Þegar lærisveinar spámannanna í Jeríkó komu auga á hann úr nokkurri fjarlægð sögðu þeir: „Andi Elía hvílir yfir Elísa.“ Síðan héldu þeir til móts við hann, vörpuðu sér til jarðar frammi fyrir honum 16 og sögðu: „Meðal þjóna þinna eru fimmtíu sterkir menn. Láttu þá fara og leita að meistara þínum. Ef til vill hefur andi Drottins tekið hann og varpað honum upp á eitthvert fjall eða niður í einhvern dal.“ En hann svaraði: „Þið skuluð ekki senda neinn.“ 17 En þar sem þeir lögðu mjög hart að honum lét hann undan og sagði: „Sendið þá af stað.“ Þeir sendu þá fimmtíu menn sem leituðu hans í þrjá daga árangurslaust. 18 Þeir sneru þá aftur til Elísa sem var enn í Jeríkó. Hann sagði við þá: „Sagði ég ekki við ykkur að þið ættuð ekki að fara?“

Jarteikn Elísa

19 Borgarbúar sögðu við Elísa: „Borgin liggur að vísu vel eins og þú getur sjálfur séð, herra minn, en vatnið er vont og konur láta fóstri í héraðinu.“ 20 Hann sagði: „Færið mér nýja skál og setjið í hana salt.“ Þegar þeir höfðu fært honum skálina 21 fór hann út að uppsprettu vatnsins, kastaði í hana salti og sagði: „Svo segir Drottinn: Ég geri þetta vatn heilnæmt. Héðan í frá skal það hvorki valda dauða né ótímaburði.“ 22 Vatnið varð heilnæmt og hefur verið það allt til þessa dags eins og Elísa hafði boðað.
23 Þaðan fór hann upp til Betel. Þegar hann var á leið upp eftir komu smástrákar út úr borginni, gerðu gys að honum og kölluðu til hans: „Komdu upp eftir, skalli! Komdu upp eftir, skalli!“ 24 Hann sneri sér við, leit á þá og formælti þeim í nafni Drottins. Þá komu tvær birnur út úr skóginum og rifu sundur fjörutíu og tvo af drengjunum.
25 Þaðan fór hann til Karmelfjalls og síðan aftur til Samaríu.