Önnur för bræðranna til Egyptalands

1 Mikil hungursneyð var í landinu 2 og þegar þeir höfðu etið upp kornið sem þeir höfðu sótt til Egyptalands sagði faðir þeirra við þá: „Farið þangað aftur og kaupið okkur korn.“ 3 Þá svaraði Júda honum: „Maðurinn lagði á það ríka áherslu að við fengjum ekki að koma fyrir auglit hans nema bróðir okkar væri með okkur. 4 Ef þú sendir bróður okkar með okkur skulum við fara og kaupa kornið. 5 Viljir þú ekki senda hann með förum við hvergi því að maðurinn sagði: Þið komið ekki fyrir auglit mitt nema bróðir ykkar sé með í för.“
6 Ísrael sagði: „Hvers vegna þurftuð þið að gera mér það að segja manninum að þið ættuð einn bróður enn?“ 7 Þeir svöruðu: „Maðurinn þráspurði um okkur og ætt okkar og sagði: Er faðir ykkar enn á lífi? Eigið þið einn bróður enn? Við svöruðum honum eins og satt var. Við gátum ekki vitað að hann mundi segja: 8 Komið hingað með bróður ykkar.“
Júda sagði við Ísrael föður sinn: „Leyfðu drengnum að koma með mér og leggjum strax af stað svo að við höldum lífi í stað þess að deyja, bæði við og þú og börnin okkar. 9 Ég skal ábyrgjast hann, af mér skaltu krefjast hans. Komi ég ekki með hann aftur og færi ég þér hann ekki skal ég vera sekur við þig alla ævi. 10 Hefðum við ekki beðið svo lengi værum við nú komnir aftur öðru sinni.“
11 Þá sagði Ísrael faðir þeirra: „Sé það óhjákvæmilegt gerið þá þetta: Takið af því besta sem landið hefur upp á að bjóða og setjið í sekki ykkar og færið manninum að gjöf lítið eitt af balsami og lítið eitt af hunangi, reykelsi og myrru, pistasíuhnetur og möndlur. 12 Takið með ykkur tvöfalda fjárupphæð því að þið verðið að taka með ykkur silfurpeningana sem höfnuðu í sekkjum ykkar. Það kann að hafa gerst fyrir slysni. 13 Takið bróður ykkar og leggið strax af stað til mannsins. 14 Almáttugur Guð gefi að maðurinn sýni ykkur nú miskunn og leyfi ykkur að fara heim með hinn bróður ykkar og Benjamín. Eigi sonamissir að verða hlutskipti mitt þá verður svo að vera.“ 15 Bræðurnir tóku gjafirnar með sér og tvöfalda peningaupphæð og lögðu af stað til Egyptalands með Benjamín og gengu þar á fund Jósefs.

Jósef heldur bræðrum sínum veislu

16 Þegar Jósef sá að Benjamín var með þeim sagði hann við ráðsmann sinn: „Farðu með mennina heim til mín, slátraðu og eldaðu mat því að þessir menn eta með mér miðdegisverð í dag.“ 17 Maðurinn gerði eins og Jósef bauð og fór með mennina inn í hús hans. 18 Þeir urðu hræddir þegar þeir voru leiddir inn í hús Jósefs og sögðu: „Það er vegna silfurpeninganna sem höfnuðu aftur í sekkjum okkar í fyrra skiptið að við höfum verið leiddir hingað. Nú ætlar hann að ráðast á okkur, yfirbuga okkur og gera að þrælum og taka asna okkar.“ 19 Þeir sneru sér að ráðsmanni Jósefs við dyrnar að húsinu 20 og sögðu: „Æ, herra minn, við komum hingað í fyrra skiptið til að kaupa korn. 21 En svo gerðist það þegar við komum til gististaðar og opnuðum sekki okkar að silfurpeningar hvers og eins reyndust vera efst í sekk hans, öll upphæðin, og við erum nú komnir með peningana aftur. 22 Auk þess tókum við með okkur fé til að kaupa korn. Við vitum ekki hver lét peningana í sekki okkar.“ 23 „Þið getið verið áhyggjulausir,“ sagði ráðsmaðurinn. „Óttist ekki. Það er Guð ykkar og Guð föður ykkar sem hefur sett peningana í sekkina. Silfur ykkar er komið til mín.“ Að svo mæltu leiddi hann Símeon út til þeirra.
24 Síðan fór maðurinn með þá inn í hús Jósefs og gaf þeim vatn svo að þeir gætu þvegið fætur sína og hann lét gefa ösnum þeirra fóður. 25 Þeir tóku fram gjafirnar svo að þær væru til taks er Jósef kæmi um miðdegið því að þeir höfðu heyrt að þeir ættu að matast þar.
26 Er Jósef kom heim færðu þeir honum gjafirnar sem þeir höfðu meðferðis og lutu til jarðar fyrir honum. 27 Hann spurði hvernig þeim liði og bætti við: „Hvernig líður hinum aldraða föður ykkar sem þið nefnduð? Er hann enn á lífi?“ 28 Þeir játuðu því: „Þjóni þínum, föður okkar, líður vel. Hann er enn á lífi.“ Og þeir hneigðu sig og lutu honum.
29 Þegar Jósef kom auga á Benjamín, bróður sinn, son móður sinnar, sagði hann: „Er þetta yngsti bróðir ykkar sem þið nefnduð við mig?“ Og hann bætti við: „Guð sé þér náðugur, sonur minn.“ 30 Skyndilega gekk Jósef út því að ástin til bróður hans bar hann ofurliði og hann varð að fara afsíðis vegna þess að hann var að bresta í grát. Hann fór inn í innra herbergið og grét þar.
31 Síðan þvoði hann andlit sitt og kom út aftur og lét ekki á neinu bera og mælti: „Berið á borð.“ 32 Og menn báru á borð fyrir hann sér í lagi og fyrir þá sér í lagi og sér í lagi fyrir þá Egypta sem með honum mötuðust því að Egyptar geta ekki setið til borðs með Hebreum, á því hafa þeir andstyggð. 33 Bræðrunum var skipað til sætis gegnt honum, í aldursröð, frá hinum elsta til hins yngsta, og þeir litu með undrun hver á annan. 34 Jósef lét þjóna þeim frá borði sínu og fékk Benjamín fimm sinnum meira en nokkur hinna. Og þeir drukku með honum og urðu hreifir.