Griðaborgirnar

1 Drottinn talaði til Jósúa:
2 „Segðu Ísraelsmönnum að velja griðastaði eins og ég gaf fyrirmæli um af munni Móse 3 svo að sá sem af vangá eða óviljandi hefur orðið manni að bana geti flúið þangað og þar veitist ykkur grið fyrir þeim sem á blóðs að hefna. 4 Nú flýr maður til einhverrar af þessum borgum. Skal hann þá taka sér stöðu við inngang borgarhliðsins og leggja mál sitt fyrir öldunga borgarinnar. Þeir skulu taka við honum inn í borgina og fá honum bústað svo að hann geti sest að hjá þeim. 5 Ef sá sem blóðs á að hefna veitir honum eftirför skal ekki framselja honum banamanninn, enda hafi hann ekki áður borið haturshug til þess sem veginn var. 6 Hann skal vera um kyrrt í borginni þar til hann hefur komið fyrir dómstól safnaðarins. Þarna skal hann búa þar til sá sem þá er æðsti prestur er látinn. Þá getur banamaðurinn snúið aftur til fjölskyldu sinnar og borgarinnar sem hann flýði frá.“
7 Þá tóku þeir Kedes í Galíl í fjalllendi Naftalí frá, einnig Síkem í fjalllendi Efraíms og Kirjat Arba, það er Hebron, í fjalllendi Júda. 8 Handan við Jórdan, austan Jeríkó, völdu þeir Beser í auðninni á sléttunni frá ættbálki Rúbens, Ramót í Gíleað frá ættbálki Gaðs og Gólan í Basan frá ættbálki Manasse.
9 Þessar borgir voru griðaborgir sem ætlaðar voru öllum Ísraelsmönnum og aðkomumönnum sem bjuggu þeirra á meðal. Hver sá sem banaði manni óviljandi gat flúið þangað svo hann þyrfti ekki að falla fyrir hendi þess sem átti blóðs að hefna fyrr en hann hefði staðið fyrir máli sínu frammi fyrir söfnuðinum.