Bardagar við grannþjóðirnar

1 Þegar íbúar nágrannaþjóðanna fréttu að fórnaraltarið hefði verið reist og helgidóminum komið í sitt fyrra horf urðu þeir afar reiðir. 2 Afréðu þeir að afmá þá af Jakobs ætt sem bjuggu meðal þeirra og tóku að eyða þeim og myrða þá.
3 Þá réðst Júdas á niðja Esaú í Akrabatenehéruðum Ídúmeu en þeir höfðu umkringt Ísrael. Veitti hann þeim miklar búsifjar, braut þá á bak aftur og tók mikið herfang.
4 Síðan gerði Júdas upp sakir við niðja Bajans. Þeir höfðu bakað Ísraelsmönnum stöðug vandkvæði og hrellingar með því að ráðast að þeim á vegum úti. 5 Hann settist um þá og lokaði þá inni í turnum sínum, helgaði þá banni, kveikti í turnum þeirra og fórust allir sem í þeim voru í logunum. 6 Þá snerist hann gegn Ammónítum og komst að raun um að þeir höfðu miklum her og fjölmenni á að skipa sem Tímóteus stjórnaði. 7 Júdas átti margar orrustur við Ammóníta en þeir fóru halloka fyrir honum og hafði hann sigur. 8 Hann vann einnig Jaser og bæina sem lutu þeirri borg og sneri að svo búnu aftur til Júdeu.
9 En heiðingjarnir í Gíleað sameinuðust um að afmá Ísraelsmenn sem bjuggu í landi þeirra. Flýðu Ísraelsmenn í Datemavirkið 10 og sendu Júdasi og bræðrum hans svohljóðandi bréf:
„Heiðingjarnir hér í kring hafa sameinast um að eyða okkur. 11 Þeir hafa búist til að koma hingað og taka virkið sem við flýðum til. Tímóteus fer fyrir her þeirra. 12 Komdu og bjargaðu okkur undan þeim. Margir okkar eru fallnir. 13 Allir bræður okkar, sem bjuggu á Tóbsvæðinu, voru drepnir, konur þeirra og börn hneppt í þrældóm og eigum þeirra rænt. Féllu þar um þúsund manns.“
14 Meðan enn var verið að lesa bréfið komu aðrir sendiboðar frá Galíleu. Þeir höfðu rifið klæði sín og fluttu þessi boð:
15 „Menn frá Ptólemais, Týrus og Sídon og lið heiðingja úr allri Galíleu hafa safnast gegn okkur og ætla þeir að gera út af við okkur.“ 16 Þegar Júdas og fólkið heyrði þessar fregnir var efnt til fjölmenns fundar til að ráðgast um hvað hægt væri að gera fyrir nauðstadda bræður vegna árása heiðingja. 17 Júdas sagði við Símon bróður sinn: „Veldu þér menn og farðu til Galíleu til að bjarga bræðrum þínum þar. Við Jónatan bróðir minn munum halda til Gíleaðs.“ 18 Skildi hann Jósef Sakaríasson og Asarja eftir í Júdeu til að stjórna lýðnum og verja landið með því sem eftir var af hernum. 19 „Veitið fólki þessu forystu,“ bauð Júdas þeim, „en leggið ekki til orrustu við heiðingjana fyrr en við komum aftur.“ 20 Símon fékk þrjú þúsund manns til að fara með til Galíleu og Júdas átta þúsund gegn Gíleaðmönnum.
21 Símon hélt til Galíleu og háði marga bardaga við heiðingjana. Þeir biðu ósigur fyrir honum 22 og veitti hann þeim eftirför alla leið að borgarhliðum Ptólemais. Um þrjár þúsundir heiðingja féllu og tók Símon eigur þeirra að herfangi. 23 Tók hann síðan landa sína í Galíleu og Arbatta ásamt konum þeirra og börnum og eigum með sér til Júdeu við mikinn fögnuð.
24 En Júdas Makkabeus og Jónatan bróðir hans fóru yfir Jórdan og héldu þrjár dagleiðir inn í auðnina. 25 Þar hittu þeir Nabatea sem tóku þeim vel og skýrðu þeim frá öllu sem hent hafði Ísraelsmenn í Gíleað. 26 Kváðu þeir fjölda Ísraelsmanna vera innikróaða í Bosra og Bósor, Alema, Kasfór, Makeð og Karnaím. Eru það stórar og víggirtar borgir. 27 Aðra sögðu þeir einnig innilukta í öðrum borgum Gíleaðs og að í ráði væri að gera árás á virkin og taka þau næsta dag og fella alla þessa menn á einum degi.
28 Júdas sneri þegar við ásamt hernum og hélt eyðimerkurveginn til Bosra. Hann vann borgina, hjó alla karlmenn niður og tók allar eigur þeirra að herfangi. Síðan brenndi hann borgina. 29 Um nóttina tók hann sig upp þaðan og hélt til virkisins. 30 Þegar birti af degi sáu menn Júdasar ótölulegan aragrúa manna sem báru stiga og umsátursvélar að virkinu til að ráðast til uppgöngu og vinna það. 31 Var Júdasi ljóst að orrustan var þegar hafin enda náði hávaðinn frá virkinu, lúðrablásturinn og öskrin til himins. 32 Hann sagði við liðsmenn sína: „Berjist í dag fyrir bræður okkar.“ 33 Hann réðst aftan að óvinunum með þrjár herfylkingar sem þeyttu lúðra og hrópuðu bænarorð. 34 Þegar her Tímóteusar varð þess vísari að hér var Makkabeus á ferð flýði hann fyrir honum. Vann Júdas mikinn sigur á liði hans og felldi nær átta þúsund af óvinunum þann dag. 35 Síðan sneri Júdas til Alema, gerði árás og vann borgina. Deyddi hann alla karlmenn í borginni, tók allt herfang og brenndi borgina. 36 Þaðan fór hann og vann Kasfór, Makeð, Bósor og aðrar borgir í Gíleað.
37 Eftir þessa atburði safnaði Tímóteus saman öðrum her og sló upp herbúðum gegnt Rafón handan árinnar. 38 Júdas sendi menn til að njósna um herbúðir hans. Þeir færðu honum þessa fregn: „Allir heiðingjarnir umhverfis okkur hafa safnast að Tímóteusi. Er það gífurlegur herafli. 39 Þá nýtur hann einnig stuðnings arabískra málaliða. Hefur liðið komið sér fyrir handan árinnar og er tilbúið til að halda gegn þér og leggja til orrustu.“
Fór Júdas þá á móti þeim. 40 En er Júdas og her hans nálguðust ána sagði Tímóteus við foringja sína: „Ef Júdas verður fyrri til og kemur yfir til okkar, þá munum við ekki geta staðið í gegn honum og mun hann bera okkur ofurliði. 41 En áræði hann það ekki og komi hernum fyrir handan árinnar, þá höldum við yfir um og sigrum hann.“
42 Þegar svo Júdas kom að vatnsfallinu lét hann herkvaðningarforingjana koma sér fyrir á bakkanum og sagði: „Leyfið engum manni að halda hér kyrru fyrir. Allir verða að taka þátt í árásinni.“ 43 Hélt hann síðan fyrstur manna yfir ána og allt liðið fylgdi honum. Biðu heiðingjarnir lægri hlut fyrir honum, fleygðu frá sér vopnum sínum og flýðu til hofsins í Karnaím. 44 Ísraelsmenn unnu borgina, kveiktu í hofinu og brenndu alla sem í því voru. Þannig féll Karnaím og öll mótspyrna gegn Júdasi var brotin á bak aftur.
45 Því næst safnaði Júdas saman öllum Ísraelsmönnum sem bjuggu í Gíleað, háum sem lágum, konum þeirra og börnum og eigum, til að leiða allan þennan mikla skara til Júdeu. 46 Komu þeir til Efron. Var það stór borg og traustlega víggirt og lá leið þeirra um hana. Urðu þeir að komast um hana miðja því að ógjörningur var að fara fram hjá borginni öðrum hvorum megin.
47 Borgarbúar lokuðu borginni fyrir þeim með því að hlaða grjóti í hliðin. 48 Júdas kom friðsamlegum boðum til þeirra svo hljóðandi: „Leyfið okkur að fara um land ykkar til að komast til lands okkar. Ykkur verður ekkert mein gert. Við ætlum aðeins að fara fótgangandi í gegn.“ En borgarbúar vildu ekki opna fyrir honum. 49 Þá lét Júdas þau boð berast um herinn að sérhver skyldi búast til árásar þar sem hann var staddur. 50 Hermennirnir komu sér fyrir og gerðu árásir á borgina allan daginn og um nóttina uns borgin gekk í greipar þeim. 51 Hjó Júdas alla karlmenn í borginni niður, reif hana til grunna og tók allt fémætt herfangi. Gekk hann síðan gegnum borgina ofan á líkum fallinna.
52 Júdas og menn hans fóru yfir Jórdan og yfir á stóru sléttuna gegnt Bet Sean. 53 Alla leiðina smalaði Júdas saman þeim sem drógust aftur úr og taldi kjark í lýðinn allt þar til komið var til Júdeu. 54 Þá fóru Júdas og menn hans upp á Síonfjall með miklum fögnuði og gleði og færðu brennifórn af því að þeim hafði auðnast að snúa heim í friði og enginn þeirra hafði fallið.
55 Um þær mundir er Júdas var með Jónatan í Gíleað og Símon bróðir hans í Galíleu gegnt Ptólemais 56 fréttu herforingjarnir Jósef Sakaríasson og Asarja um dáðir þeirra og orrusturnar sem þeir háðu. 57 Þeir sögðu: „Við skulum einnig afla okkur frægðar með því að ráðast á heiðingjana hér í kring.“ 58 Þeir létu boð út ganga til hersveita sinna og héldu síðan gegn Jabne. 59 En Gorgías og menn hans komu út úr borginni til að ráðast á þá. 60 Jósef og Asarja voru hraktir á flótta og eltir að landamærum Júdeu. Þann dag féllu nær tvær þúsundir af liði Ísraelsmanna. 61 Þjóðin beið þennan mikla ósigur af því að þessir tveir hlýddu Júdasi ekki og ætluðu að drýgja hetjudáð. 62 Þeir voru ekki heldur ættingjar mannanna sem falið var á hendur að frelsa Ísrael.
63 En kappinn Júdas og bræður hans hlutu mikla vegsemd af öllum í Ísrael og meðal allra heiðingja sem heyrðu frá þeim sagt. 64 Flykktust menn að þeim til að hylla þá.
65 Júdas hélt einnig með bræðrum sínum til að herja á niðja Esaú sem bjuggu í suðri. Vann hann Hebron og bæina sem lutu þeirri borg. Hann reif virkisveggina og kveikti í turnunum umhverfis borgina. 66 Síðan tók hann sig upp og hélt til Filisteu og fór í gegnum Marísa. 67 Þann dag féllu prestar í bardaga. Ætluðu þeir að sýna karlmennsku og lögðu án allrar fyrirhyggju út í bardaga. 68 Júdas sneri hins vegar af leið sinni og til Asdód í Filisteu. Reif hann ölturu og brenndi skurðgoð þeirra og sneri aftur til Júdeu þegar hann hafði rænt borgirnar öllu herfangi.