Antíokkus Epífanes veikist og deyr

1 Á ferð sinni um upplöndin frétti Antíokkus konungur af borg í Persíu, Elýmaís að nafni. Var hún orðlögð fyrir auð af gulli og silfri. 2 Hofið þar var vellauðugt. Hafði Alexander konungur Filippusson frá Makedóníu, sem fyrstur ríkti yfir Grikkjum, skilið þar eftir gullna skildi, brynjur og vopn. 3 Antíokkus hélt þangað og ætlaði að taka borgina og ræna hana. Það mistókst honum því að borgarbúar komust að ásetningi hans. 4 Veittu þeir honum vopnaða mótspyrnu og flýði hann þungur í huga og ætlaði aftur til Babýlonar.
5 Í Persíu bar sendiboði Antíokkusi þau boð að herir hans, sem héldu inn í Júdeu, hefðu beðið ósigur. 6 Hefði Lýsías farið fyrstur þangað með öflugan her sem andstæðingarnir hrundu. Við það hefðu Gyðingar eflst mjög að vopnum, öðrum hergögnum og hvers kyns búnaði sem þeir tóku af hersveitunum sem þeir brytjuðu niður. 7 Síðan hefðu þeir rifið niður viðurstyggðina sem konungur reisti á fórnaraltarinu í Jerúsalem og hlaðið háa múra kringum helgidóminn, eins og áður voru þar, og einnig umhverfis borg hans Bet Súr.
8 Þegar konungur heyrði þessi tíðindi tók hann að skjálfa af geðshræringu. Lagðist hann í rúmið, yfirkominn af harmi yfir að hafa mistekist það sem hann ætlaði sér. 9 Lá hann dögum saman því að hugarvíl sótti sífellt að nýju á hann og bjóst hann við dauða sínum. 10 Kallaði hann alla vini sína til sín og sagði við þá: „Mér er varnað svefns og hjarta mitt er lamað af áhyggjum. 11 Ég sagði við sjálfan mig: Hvers konar neyð og ógæfa er yfir mig komin? Ég var þó góður og elskaður valdhafi. 12 En nú leita á hugann ódæðin sem ég drýgði í Jerúsalem þegar ég tók öll silfur- og gullkerin þaðan og sendi lið til að afmá íbúa Júdeu að tilefnislausu. 13 Nú skil ég að það er vegna þessa sem ógæfan er yfir mig komin og að ég dey sorgbitinn mjög í framandi landi.“ 14 Síðan kallaði hann á Filippus, einn vina sinna, og setti hann yfir allt ríki sitt. 15 Fékk hann honum kórónu sína, skikkju og fingurgull. Átti hann að fóstra Antíokkus son hans og ala hann upp til að taka við konungdómi. 16 Þarna dó Antíokkus konungur árið eitt hundrað fjörutíu og níu.
17 Þegar Lýsías frétti lát konungs setti hann Antíokkus son hans jafnskjótt til valda í hans stað en Lýsías hafði fóstrað hann frá æsku. Gaf hann honum nafnið Evpator.

Umsátur um virkið í Jerúsalem

18 Setuliðið í virkinu lokaði leiðum fyrir Ísraelsmönnum kringum helgidóminn. Leitaðist það stöðugt við að vinna þeim mein og styrkja heiðingjana. 19 Afréð Júdas að afmá liðið og kallaði alla þjóðina saman til að hefja umsátur. 20 Söfnuðust allir til umsáturs, smíðuðu skotpalla og umsátursvélar og settust um virkið. Var það árið eitt hundrað og fimmtíu.[ 21 En nokkrir hinna umsetnu sluppu út og gerðust sumir guðlausir Ísraelsmenn liðsmenn þeirra. 22 Fóru þeir til konungs og sögðu: „Hve lengi hyggst þú draga að koma á rétti og hefna bræðra okkar? 23 Við þjónuðum föður þínum af fúsu geði, fórum að fyrirmælum hans og hlýddum boðum hans. 24 Þess vegna hafa landar okkar, sem sitja um virkið, snúið við okkur baki. Og ekki nóg með það. Þeir drepa hvern þann af okkur sem þeir ná og ræna eigum okkar. 25 Og ekki beita þeir okkur eina ofbeldi heldur landið allt. 26 Á þessari stundu sitja þeir um virkið í Jerúsalem til að taka það og hafa víggirt bæði helgidóminn og Bet Súr. 27 Ef þú tekur ekki fram fyrir hendurnar á þeim, og það strax, þá munu þeir gera það sem meira er þessu og þú munt ekkert fá við þá ráðið.“

Herför Antíokkusar V til Júdeu

28 Konungur reiddist er hann heyrði þetta. Kallaði hann saman alla þá vini sína sem voru foringjar í her hans og riddaraliði. 29 Frá öðrum konungsríkjum og frá eyjunum í hafinu fékk hann málaher til liðs. 30 Varð herafli hans eitt hundrað þúsund fótgönguliðar, tuttugu þúsund riddarar og þrjátíu og tveir fílar þjálfaðir til bardaga. 31 Hélt herinn um Ídúmeu, settist um Bet Súr og herjaði á borgina dögum saman. Þeir smíðuðu umsátursvélar en hinir umsetnu gerðu útrás, kveiktu í þeim og vörðust hetjulega.
32 Þá yfirgaf Júdas virkið í Jerúsalem, fór með her sinn til Bet Sakaría og kom honum fyrir gegnt herbúðum konungs. 33 Snemma næsta morgun lét konungur her sinn taka sig upp og hélt með hann gunnreifan áleiðis til Bet Sakaría. Þar fylkti liðið sér til bardaga og þeytti herlúðra. 34 Fílunum var sýndur lögur úr þrúgum og mórberjum til að gera þá bardagatryllta. 35 Dýrunum var síðan skipt niður á fylkingarnar. Fylgdu hverjum fíl eitt þúsund menn búnir hringabrynjum og með koparhjálma á höfði og auk þess var fimm hundruð úrvalsriddurum skipað með hverju dýri. 36 Þeir héldu sig þétt að dýri sínu fyrir bardagann. Gengi það fram gerðu þeir hið sama og viku ekki frá því. 37 Hver fíll var brynvarinn og bar sterkan tréturn sem festur var með gjörðum á dýrið. Í hverjum turni voru fjórir hermenn sem þaðan börðust auk Indverjans sem stýrði. 38 Hinir riddararnir voru settir beggja vegna við báða fylkingararma hersins og gátu ógnað óvinum í skjóli við fylkingarnar.
39 Er sólin lýsti á gull- og eirslegna skildi vörpuðu þeir ljóma á fjöllin svo að þau skinu sem brennandi blys. 40 Nokkur hluti konungshersins kom sér fyrir á háfjallinu og annar á sléttunni. Síðan sóttu þeir fram fast og skipulega. 41 Sérhver, sem heyrði hróp þessa fjölda og traðk skarans og glamrið í vopnunum, hlaut að skjálfa, svo yfirtaks mikill sem þessi herafli var.
42 Júdas lagði til atlögu með her sinn og felldi sex hundruð manns úr her konungs. 43 Eleasar Avaran tók eftir að eitt dýranna bar af öllum öðrum og hafði konunglega brynju. Virtist honum sem þar færi konungurinn. 44 Hann fórnaði lífi sínu til að bjarga þjóð sinni og geta sér eilífan orðstír. 45 Hljóp hann djarflega að dýrinu inn í fylkinguna miðja, brytjaði óvini niður til hægri og vinstri svo að þeir hrukku til beggja handa. 46 Hann smaug undir fílinn og lagði hann banasári í kviðinn. Féll fíllinn dauður ofan á Eleasar og beið hann þar bana.
47 En er Ísraelsmönnum varð ljós liðstyrkur konungs og baráttuvilji hersins urðu þeir að hörfa undan.

Konungur hertekur Síonfjall

48 Hermenn konungs héldu til Jerúsalem til að berjast við Jerúsalembúa. Reisti konungur herbúðir gegnt Júdeu og Síonfjalli. 49 Hann samdi frið við íbúa Bet Súr. Fóru þeir úr borginni en þar var orðið fulllítið um vistir til að standast langt umsátur enda var hvíldarár. 50 Hertók konungur Bet Súr og skildi þar eftir setulið til að gæta staðarins.
51 Síðan settist hann um helgidóminn. Stóð umsátrið lengi. Reisti hann þar skotpalla og umsátursvélar, eldvörpur, grjótvörpur, örvaþeyta og valslöngvur. 52 Hinir umsetnu smíðuðu einnig vígvélar gegn umsátursvélum óvinanna og stríðið dróst á langinn. 53 Lítið var orðið um matvæli í búri musterisins þar sem þetta var sjöunda árið og þeir sem bjargað var frá heiðingjunum og komust til Júdeu höfðu lokið því sem eftir var af fyrningum. 54 Svarf hungur svo mjög að mönnum að þeir tvístruðust hver til síns heima og voru einungis fáir eftir í helgidóminum.

Tilboð um frið og trúfrelsi

55 Nú barst Lýsíasi til eyrna að Filippus, sem Antíokkus konungur hafði í lifanda lífi falið að ala son sinn Antíokkus upp til að taka við konungdómi, 56 væri kominn aftur frá Persíu og Medíu með herlið það sem konungur hélt með austur. Hefði hann í hyggju að taka völdin. 57 Ákvað Lýsías að létta þegar umsátrinu og hraða sér brott. Sagði hann við konung, liðsforingjana og menn sína: „Með hverjum degi sverfur meir að okkur og vistir eru á þrotum. Svo er virkið sem við sitjum um vel varið. Enn fremur er brýnt að huga að málefnum ríkisins. 58 Ættum við því ekki að rétta mönnum þessum sáttarhönd og semja frið við þá og þjóð þeirra alla? 59 Við skulum heimila þeim að fara eftir lögmálsreglum sínum eins og áður. Því að það var sakir þess að við felldum þær úr gildi sem þeir reiddust og aðhöfðust allt þetta.“
60 Konungi og liðsforingjunum leist vel á þetta. Sendi konungur hinum umsetnu tilboð um frið og var því tekið. 61 Konungurinn og liðsforingjarnir unnu þeim eiða að skilmálunum og samkvæmt þeim komu hinir umsetnu út úr virkinu. 62 Gekk konungur síðan á Síonfjall. En þegar hann sá hve musterið var vel víggirt rauf hann eiðinn og lét rífa virkisvegginn umhverfis musterið. 63 Hélt hann síðan á brott án frekari tafa og sneri aftur til Antíokkíu. Þar komst hann að raun um að Filippus hafði borgina á sínu valdi. Gerði hann skyndiárás á Filippus og vann borgina.