Syndir fyrirgefnar

1 Nokkrum dögum síðar kom Jesús aftur til Kapernaúm. Þegar fréttist að hann væri heima 2 söfnuðust þar svo margir að hvergi var lengur rúm, ekki einu sinni fyrir dyrum úti. Og Jesús flutti þeim orðið. 3 Þá er komið með lama mann og báru fjórir. 4 Þegar þeir gátu ekki komist með hann til Jesú fyrir fólkinu rufu þeir þekjuna uppi yfir honum, grófu þar í gegn og létu síga ofan rekkjuna sem hinn lami lá í. 5 Þá er Jesús sér trú þeirra segir hann við lama manninn: „Barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“
6 Þar sátu nokkrir fræðimenn og hugsuðu með sjálfum sér: 7 „Hví mælir þessi maður svo? Hann guðlastar. Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?“
8 Samstundis skynjaði Jesús að þeir hugsuðu þannig með sér og hann sagði við þá: „Hví hugsið þið slíkt í hjörtum ykkar? 9 Hvort er auðveldara að segja við lama manninn: Syndir þínar eru fyrirgefnar, eða segja: Statt upp, tak rekkju þína og gakk? 10 En til þess að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald til að fyrirgefa syndir á jörðu, 11 þá segi ég ykkur,“ – og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín.“
12 Maðurinn stóð upp, tók jafnskjótt rekkjuna og gekk burt í allra augsýn svo að allir voru furðu lostnir, lofuðu Guð og sögðu: „Aldrei áður höfum við þvílíkt séð.“

Fylg þú mér

13 Aftur fór Jesús út og gekk með fram vatninu. Allur mannfjöldinn kom til hans og hann kenndi þeim. 14 Og er hann gekk þar sá hann Leví Alfeusson sitja hjá tollbúðinni og Jesús segir við hann: „Fylg þú mér!“ Og hann stóð upp og fylgdi honum.
15 Svo bar við að Jesús sat að borði[ í húsi hans. Margir tollheimtumenn og bersyndugir sátu þar með honum og lærisveinum hans en margir fylgdu honum. 16 Fræðimenn af flokki farísea, sem sáu að hann samneytti tollheimtumönnum og bersyndugum, sögðu þá við lærisveina hans: „Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum.“
17 Jesús heyrði þetta og svaraði þeim: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“

Meðan brúðguminn er hjá þeim

18 Lærisveinar Jóhannesar og farísear héldu nú föstu. Þá koma menn til Jesú og spyrja hann: „Hví fasta lærisveinar Jóhannesar og lærisveinar farísea en þínir lærisveinar fasta ekki?“
19 Jesús svaraði þeim: „Hvort geta brúðkaupsgestir fastað meðan brúðguminn er hjá þeim? Alla þá stund sem brúðguminn er hjá þeim geta þeir ekki fastað. 20 En koma munu þeir dagar er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta á þeim degi.
21 Enginn saumar bót af óþæfðum dúk á gamalt fat því þá rífur nýja bótin af hinu gamla og verður af verri rifa. 22 Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi því þá sprengir vínið belgina og vínið ónýtist og belgirnir. Nýtt vín er látið á nýja belgi.“

Drottinn hvíldardagsins

23 Svo bar við að Jesús fór um sáðlönd á hvíldardegi og lærisveinar hans tóku að tína kornöx á leiðinni. 24 Farísearnir sögðu þá við hann: „Lít á, hví gera þeir það sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?“
25 Jesús svaraði þeim: „Hafið þið aldrei lesið hvað Davíð gerði er honum lá á þegar hann hungraði og menn hans? 26 Hann fór inn í Guðs hús þegar Abíatar var æðsti prestur og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum.“
27 Og Jesús sagði við þá: „Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins. 28 Því er Mannssonurinn einnig Drottinn hvíldardagsins.“