Gulllíkneskið

1 Nebúkadnesar konungur lét gera líkneski úr gulli, sextíu álnir á hæð en sex álnir á breidd. Líkneskið lét hann reisa á Dúrasléttu í Babelhéraði.
2 Og Nebúkadnesar sendi menn til að stefna saman öllum héraðshöfðingjum, landshöfðingjum, fógetum, féhirðum, dómurum, lögmönnum og embættismönnum skattlandanna. Skyldu þeir koma til vígslu líkneskisins sem Nebúkadnesar konungur hafði látið reisa.
3 Og allir héraðshöfðingjarnir, landshöfðingjarnir, fógetarnir, féhirðarnir, dómararnir, lögmennirnir og embættismenn skattlandanna komu saman til vígslu líkneskisins, sem Nebúkadnesar konungur hafði látið reisa, og tóku sér stöðu frammi fyrir líkneskinu sem Nebúkadnesar hafði látið reisa. 4 Þá hrópaði kallarinn hárri röddu: „Þetta er ykkur fyrirskipað, hverrar þjóðar og hvaða lands sem þið eruð og hver sem tunga ykkar er: 5 Þegar þið heyrið hljóm hornanna, lúðranna, gígjanna, harpnanna, langspilanna, sekkjapípnanna og allra hinna hljóðfæranna, þá skuluð þið falla fram og tilbiðja gulllíkneskið sem Nebúkadnesar konungur hefur látið reisa. 6 Hverjum þeim sem fellur ekki fram og tilbiður það verður samstundis varpað inn í glóandi eldsofn.“
7 Um leið og menn heyrðu hljóm hornanna, lúðranna, gígjanna, harpnanna, langspilanna, sekkjapípnanna og allra hinna hljóðfæranna féllu þeir því fram, hverrar þjóðar, hvers lands og hverrar tungu sem þeir voru, og tilbáðu gulllíkneskið sem Nebúkadnesar konungur hafði látið reisa.
8 Kaldear nokkrir gengu nú fram og báru Gyðingana sökum. 9 Þeir tóku til máls og sögðu við Nebúkadnesar konung: „Megir þú lifa að eilífu, konungur. 10 Konungur, þú hefur skipað svo fyrir að jafnskjótt og hver maður heyrir hljóm hornanna, lúðranna, gígjanna, harpnanna, langspilanna, sekkjapípnanna og allra hinna hljóðfæranna skuli hann falla fram og tilbiðja gulllíkneskið 11 og að hverjum þeim sem ekki fellur fram og tilbiður skuli kastað inn í glóandi eldsofn. 12 En nú eru hér Gyðingar nokkrir sem þú hefur gert að héraðsstjórum yfir Babelhéraði, þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó. Þessir menn hafa orð þín að engu, konungur. Þeir dýrka ekki þína guði og tilbiðja ekki gulllíkneskið sem þú hefur látið reisa.“
13 Nebúkadnesar varð ofsareiður og skipaði í bræði sinni að þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó skyldu leiddir fyrir konung og var það gert. 14 Nebúkadnesar tók til máls og sagði við þá: „Er það satt, Sadrak, Mesak og Abed-Negó, að þið dýrkið ekki minn guð og tilbiðjið ekki gulllíkneskið sem ég hef látið reisa? 15 Séuð þið til þess reiðubúnir, jafnskjótt og þið heyrið hljóm hornanna, lúðranna, gígjanna, harpnanna, langspilanna, sekkjapípnanna og allra hinna hljóðfæranna, að falla fram og tilbiðja líkneskið sem ég hef látið reisa skal ég láta kyrrt liggja. En ef þið tilbiðjið það ekki verður ykkur tafarlaust varpað inn í glóandi eldsofn. Og hver er þá sá guð sem gæti frelsað ykkur úr höndum mér?“
16 Þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó svöruðu þá og sögðu við konung: „Nebúkadnesar, um þetta þurfum við þér engu að svara. 17 Vilji Guð okkar, sá sem við dýrkum, frelsa okkur getur hann frelsað okkur jafnt úr glóandi eldsofni sem úr þínum höndum, konungur. 18 Og þótt hann láti það ógert skaltu samt vita að við munum hvorki dýrka þína guði, konungur, né tilbiðja gulllíkneskið sem þú hefur látið reisa.“
19 Nebúkadnesar varð afar reiður þeim Sadrak, Mesak og Abed-Negó, svo að ásjóna hans afskræmdist, og skipaði hann að ofninn skyldi kyntur sjöfalt heitar en venja var. 20 Og hann skipaði nokkrum sterkustu mönnum í her sínum að binda þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó og kasta þeim inn í glóandi eldsofninn. 21 Þeir voru síðan bundnir í treyjum sínum, kyrtlum, höfuðbúnaði og öðrum flíkum sínum og þeim kastað inn í eldsofninn glóandi. 22 En vegna þess hve skipun konungs var afdráttarlaus var ofninn kyntur sem mest mátti og varð eldsloginn mönnunum að bana sem báru þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó. 23 En þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó féllu allir í fjötrum sínum niður í glóandi eldsofninn.

Kraftaverk í eldsofninum

24 Nú varð Nebúkadnesar konungur forviða, spratt á fætur og spurði ráðgjafa sína: „Vörpuðum við ekki þremur mönnum í fjötrum inn í eldinn?“ Og þeir svöruðu: „Jú, vissulega, konungur.“ 25 En hann sagði: „Samt sé ég fjóra menn ganga óbundna og óskaddaða inni í eldinum og er hinn fjórði líkastur guðdómlegri veru[ að sjá.“
26 Þá gekk Nebúkadnesar að loku eldsofnsins glóandi, tók til máls og sagði: „Sadrak, Mesak og Abed-Negó, þjónar hins æðsta Guðs, gangið út og komið hingað!“ Og þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó gengu út úr eldinum. 27 Héraðshöfðingjarnir, landstjórarnir, landshöfðingjarnir og ráðgjafar konungs þyrptust saman og sáu að eldurinn hafði ekki unnið á líkama mannanna, hárið á höfði þeirra hafði ekki sviðnað, né sá á treyjum þeirra og engin brunalykt var af þeim.
28 Nebúkadnesar sagði þá: „Lofaður sé Guð þeirra Sadraks, Mesaks og Abed-Negó sem sent hefur engil sinn að frelsa þjóna sína. Þeir treystu honum og óhlýðnuðust skipun konungsins og lögðu líkama sinn í sölurnar svo að þeir þyrftu ekki að dýrka eða tilbiðja annan guð en sinn Guð. 29 Nú er það tilskipun mín að hver sá, hverrar þjóðar, hvers lands og hverrar tungu sem hann er og fer lastmælum um Guð þeirra Sadraks, Mesaks og Abed-Negó, skal limaður sundur og hús hans lagt í rúst því að enginn annar Guð er til sem megnar að frelsa eins og hann.“
30 Síðan setti konungur þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó til hárra metorða í Babelhéraði.

Síðari draumur Nebúkadnesars

31 Nebúkadnesar konungur sendir kveðju sína öllum mönnum sem á jörðinni búa, hverrar þjóðar, hvaða lands og hverrar tungu sem eru: „Megi ykkur vel farnast. 32 Með velþóknun greini ég frá öllum þeim teiknum og undraverkum sem hinn æðsti Guð hefur birt mér.
33 Hve máttug eru teikn hans,
hve stórkostleg eru undraverk hans.
Konungdæmi hans er eilíft
konungdæmi og veldi hans varir frá kyni til kyns.