Ferðin til Rages

1 Tóbías sendi eftir Rafael og sagði við hann: 2 „Asaría, bróðir, taktu með þér fjóra þjóna og tvo úlfalda og farðu til Rages. Þar finnur þú Gabael. Láttu hann fá skjalið[ og taktu við peningunum. Komdu síðan með hann með þér til brúðkaupsveislunnar. 3/4 Þú veist að faðir minn telur dagana og ef mér dvelst einum degi of lengi veldur það honum miklu hugarangri. Þú þekkir líka hvað Ragúel hefur svarið og ekki get ég gengið í berhögg við eið hans.“[
5 Rafael og þjónarnir fjórir héldu með úlfaldana tvo til Rages í Medíu og dvöldu hjá Gabael. Rafael afhenti honum skjalið og sagði honum frá Tóbíasi Tóbítssyni, að hann væri kvæntur og byði Gabael til brúðkaups síns. Gabael reiddi jafnskjótt fram peningaskjattana sem enn voru innsiglaðir og staflaði þeim upp.
6 Árla næsta morgun héldu þeir af stað til brúðkaupsins. Þegar þeir komu inn til Ragúels sat Tóbías til borðs. Hann spratt upp, faðmaði Gabael sem brast í grát, blessaði hann og sagði:
„Göfugi og góði vinur, sonur göfugs, góðs, réttláts og gjafmilds manns. Drottinn gefi þér og eiginkonu þinni himneska blessun og föður þínum og móður hennar. Lofaður sé Guð fyrir að leyfa mér að líta Tóbías sem er lifandi eftirmynd föður síns.“