Niðjar Arons og Móse

1 Þessir voru niðjar Arons og Móse þegar Drottinn talaði við Móse á Sínaífjalli. 2 Þetta eru nöfn sona Arons: frumburðurinn Nadab, Abíhú, Eleasar og Ítamar. 3 Þetta eru nöfn sona Arons, hinna smurðu presta sem vígðir höfðu verið til prestsembættis. 4 Nadab og Abíhú dóu fyrir augliti Drottins því að þeir báru fram vanhelgan eld fyrir auglit Drottins í Sínaíeyðimörkinni. Þeir áttu enga syni en Eleasar og Ítamar þjónuðu sem prestar í tíð Arons, föður síns.
5 Drottinn talaði til Móse og sagði:
6 „Láttu ættbálk Leví ganga fram og taka sér stöðu frammi fyrir Aroni presti og skulu þeir þjóna honum. 7 Þeir eiga að gegna þjónustu fyrir hann og allan söfnuðinn frammi fyrir samfundatjaldinu því að þeir eiga að vinna öll verk í tjaldbúðinni. 8 Þeir skulu gæta allra áhalda í samfundatjaldinu því að þeir eiga að gegna þjónustu fyrir Ísraelsmenn með því að vinna öll verk í tjaldbúðinni. 9 Þú skalt gefa Aroni og sonum hans Levítana. Þeir skulu fengnir honum og greindir frá öðrum Ísraelsmönnum til þjónustu hjá honum. 10 En þú skalt fela Aroni og sonum hans að þjóna sem prestar. Komi einhver óviðkomandi of nærri skal hann líflátinn.“
11 Drottinn talaði til Móse og sagði:
12 „Ég hef sjálfur greint Levíta frá öðrum Ísraelsmönnum. Þeir koma í stað allra frumburða Ísraelsmanna, þeirra sem opna móðurlíf til þess að Levítar verði eign mín. 13 Því að allir frumburðir eru eign mín. Þegar ég deyddi alla frumburði Egyptalands helgaði ég mér alla frumburði í Ísrael, bæði frumburði manna og skepna, þeir skulu vera eign mín. Ég er Drottinn.“

Skráning Levíta og þjónusta þeirra

14 Drottinn talaði til Móse í Sínaíeyðimörkinni og sagði: 15 „Teldu syni Leví eftir fjölskyldum þeirra og ættum þeirra. Þú skalt telja alla sem eru karlkyns, mánaðargamlir og eldri.“
16 Móse taldi þá eftir boði Drottins eins og hann hafði fyrir lagt. 17 Þetta eru nöfn sona Leví: Gerson, Kahat og Merarí. 18 En þetta eru nöfn sona Gersons eftir ættum þeirra: Libní og Símeí, 19 synir Kahats eftir ættum þeirra: Amram, Jísehar, Hebron og Ússíel, 20 synir Merarí eftir ættum þeirra: Mahelí og Músí.
21 Ættir Libníta og Símeíta voru komnar af Gerson, þeir voru synir Gersons. 22 Þeir sem taldir voru reyndust vera 7500 karlmenn, mánaðargamlir og eldri. 23 Ættir sona Gersons áttu að tjalda við bakhlið tjaldbúðarinnar vestan megin. 24 Eljasaf Laelsson var ættarhöfðingi sona Gersons. 25 Þjónusta sona Gersons í samfundatjaldinu fól í sér alla vinnu við tjaldbúðina, tjaldið, þak þess og forhengið fyrir dyrum samfundatjaldsins, 26 tjöld forgarðsins, forhengið fyrir dyrum forgarðsins sem umlykur tjaldbúðina og altarið, einnig tjaldstögin og allt sem að þjónustunni laut.
27 Ættir Amramíta, Jíseharíta, Hebroníta og Ússíelíta voru komnar af Kahat. Það voru ættir Kahatíta. [ 28 Þeir sem taldir voru, allir karlmenn, mánaðargamlir og eldri, reyndust vera 8600. 29 Ættir Kahatíta áttu að tjalda við aðra hlið tjaldbúðarinnar, sunnan megin. 30 Ússíel Elísafansson var höfðingi yfir ættum Kahatíta. 31 Þjónusta þeirra fólst í allri vinnu við örkina, borðið, ljósastikuna, ölturun og hin helgu áhöld, sem notuð voru við helgiþjónustuna, og fortjaldið.
32 Eleasar prestur Aronsson var yfirhöfðingi Levíta. Hann var settur yfir þá sem gættu helgidómsins.
33 Ættir Mahelíta og Músíta voru komnar af Merarí. Það eru ættir Merarí. 34 Þeir sem taldir voru, allir karlmenn, mánaðargamlir og eldri, reyndust vera 6200. 35 Súríel Abíhaílsson var höfðingi yfir ættum Merarí. Þeir áttu að tjalda við hina hlið tjaldbúðarinnar, norðan megin. 36 Niðjar Merarí voru settir til þjónustu sem fólst í allri vinnu við borð tjaldbúðarinnar, þverslár hennar, súlur hennar og sökkla og öll áhöld hennar, 37 enn fremur súlurnar allt umhverfis forgarðinn og sökkla þeirra, tjaldhæla og stög.
38 Þeir sem áttu að tjalda við framhlið tjaldbúðarinnar, austan megin, við framhlið samfundatjaldsins, gegnt sólarupprás, voru Móse og Aron og synir hans. Þeir báru ábyrgð á þjónustunni í helgidóminum og voru í þjónustu Ísraelsmanna. Kæmi einhver óviðkomandi þar nærri var hann líflátinn.
39 Allir Levítar, sem taldir voru og Móse og Aron tóku manntali eftir ættum þeirra samkvæmt boði Drottins, allir karlmenn, mánaðargamlir og eldri, reyndust vera 22.000.

Levítar leysa frumburði

40 Drottinn sagði við Móse:
„Taktu alla karlkyns frumburði Ísraelsmanna manntali, mánaðargamla og eldri, og skráðu nöfn þeirra. 41 En þú skalt taka Levítana frá handa mér, Drottni, í stað allra frumburða Ísraelsmanna, einnig búfé Levíta í stað allra frumburða búfjár annarra Ísraelsmanna.“
42 Móse taldi alla frumburði Ísraelsmanna eins og Drottinn lagði fyrir hann. 43 Allir karlkyns frumburðir, mánaðargamlir og eldri, sem höfðu verið taldir með skráningu nafna þeirra, reyndust vera 22.273.
44 Drottinn talaði til Móse og sagði:
45 „Taktu Levítana frá í staðinn fyrir alla frumburði annarra Ísraelsmanna og taktu búfé Levítanna í staðinn fyrir búfé annarra Ísraelsmanna. Levítarnir skulu verða eign mín. Ég er Drottinn. 46 En af því að frumburðir Ísraelsmanna eru 273 fleiri en frumburðir Levíta 47 skaltu taka fimm sikla lausnargjald fyrir hvert höfuð. Þú skalt innheimta þetta eftir vigt helgidómsins, tuttugu gerur í hverjum sikli. 48 Þú skalt fá Aroni og sonum hans þetta fé í lausnargjald fyrir þá sem eru umfram Levítana á meðal þeirra.“
49 Móse tók við þessu lausnargjaldi fyrir þá sem voru umfram fjölda þeirra Levíta sem höfðu verið leystir. 50 Hann tók við þessu fé, þrettán hundruð sextíu og fimm siklum, eftir vigt helgidómsins. 51 Móse fékk Aroni og sonum hans lausnargjaldið að boði Drottins eins og Drottinn hafði lagt fyrir Móse.