Hreinsun holdsveikra

1 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 „Þetta eru lög um það þegar holdsveikur maður skal úrskurðaður hreinn og leiddur fyrir prest. 3 Presturinn skal ganga út fyrir herbúðirnar og skoða hann. Staðfesti hann að hinn holdsveiki sé orðinn heill af holdsveikinni 4 skal presturinn láta sækja tvo lifandi, hreina fugla, sedrusvið, hárauðan þráð og ísóp handa þeim sem lætur hreinsa sig. 5 Þá skal presturinn gefa fyrirmæli um að slátra öðrum fuglinum yfir leirkeri með lindarvatni. 6 Því næst skal hann taka lifandi fuglinn, sedrusviðinn, hárauða þráðinn og ísópinn og dýfa því öllu ásamt fuglinum, sem er lifandi, í blóð fuglsins sem var slátrað yfir lindarvatninu. 7 Síðan skal hann stökkva vatninu sjö sinnum á þann sem lætur hreinsa sig af holdsveiki. Presturinn skal úrskurða hann hreinan og láta fuglinn, sem lifir, fljúga burt.
8 Sá sem lætur hreinsa sig skal þvo klæði sín, raka af sér allt hár og baða sig í vatni og verður þá hreinn. Eftir það má hann koma inn í herbúðirnar en hann skal hafast við fyrir utan tjald sitt í sjö daga. 9 Á sjöunda degi skal hann raka af sér allt hár, höfuðhár, skegg og augnabrúnir. Þegar hann hefur rakað af sér allt hár skal hann þvo klæði sín og baða líkama sinn í vatni og verður þá hreinn.
10 Á áttunda degi skal hann taka tvö lýtalaus hrútlömb og eina lýtalausa veturgamla gimbur, enn fremur þrjá tíundu úr efu af fínu mjöli blönduðu olíu í kornfórn og einn lóg af olíu. 11 Presturinn, sem hreinsar, skal láta manninn, sem lætur hreinsa sig, taka sér stöðu ásamt fórnargjöfunum frammi fyrir augliti Drottins við dyr samfundatjaldsins. 12 Presturinn skal taka annað hrútlambið og færa það í sektarfórn ásamt lóg af olíu. Hann skal veifa því frammi fyrir augliti Drottins. 13 Hann skal slátra lambinu á sama stað og hann slátrar syndafórnardýrunum og brennifórnardýrunum, á helgum stað, því að sektarfórnin verður eign prestsins eins og syndafórnin, hún er háheilög.
14 Presturinn skal taka nokkuð af blóði sektarfórnardýrsins og bera það á hægri eyrnasnepil, hægri þumalfingur og hægri stórutá þess sem lætur hreinsa sig. 15 Þá skal presturinn taka nokkuð af olíunni og hella í vinstri lófa sinn. 16 Presturinn skal dýfa hægri vísifingri í olíuna, sem er í vinstri lófa hans, og stökkva með fingri sínum dálitlu af olíunni sjö sinnum frammi fyrir augliti Drottins. 17 Auk sektarfórnarblóðsins skal presturinn bera nokkuð af olíunni, sem eftir er í lófa hans, á hægri eyrnasnepil, hægri þumalfingur og hægri stórutá þess sem lætur hreinsa sig. 18 Það sem þá er eftir af olíunni í vinstri lófa prestsins skal hann setja á höfuð þess sem lætur hreinsa sig og presturinn skal friðþægja fyrir hann frammi fyrir Drottni.
19 Því næst skal presturinn færa syndafórnina og friðþægja fyrir þann sem lætur hreinsa sig vegna óhreinleika hans. Þá skal presturinn slátra brennifórnardýrinu. 20 Presturinn skal því næst láta brennifórnina ásamt kornfórninni líða upp í reyk af altarinu. Þannig friðþægir presturinn fyrir manninn og verður hann hreinn.
21 Sé maðurinn fátækur og hafi ekki ráð á þessu skal hann taka eitt lamb í sektarfórn. Skal því veifað til þess að friðþægja fyrir hann. Enn fremur skal hann færa einn tíunda af fínu mjöli blönduðu olíu í kornfórn og einn lóg af olíu, 22 tvær turtildúfur eða dúfur eftir því sem hann hefur ráð á. Skal önnur vera í sektarfórn en hin í brennifórn. 23 Á áttunda degi frá því að hann var úrskurðaður hreinn skal hann færa þetta prestinum að dyrum samfundatjaldsins fram fyrir auglit Drottins. 24 Presturinn skal taka við lambinu, sem ætlað er í sektarfórn, ásamt lóg af olíu. Presturinn skal því næst veifa því frammi fyrir augliti Drottins. 25 Presturinn skal slátra lambinu sem ætlað er í sektarfórn. Því næst skal hann taka nokkuð af blóði sektarfórnardýrsins og rjóða því á hægri eyrnasnepil, hægri þumalfingur og hægri stórutá þess sem lætur hreinsa sig. 26 Þá skal presturinn taka nokkuð af olíunni og hella í vinstri lófa sinn. 27 Því næst skal presturinn stökkva með vísifingri hægri handar nokkru af olíunni, sem er í vinstri lófa hans, sjö sinnum fyrir framan auglit Drottins. 28 Presturinn skal rjóða dálitlu af olíunni, sem eftir er í vinstri lófa hans, á sama stað og sektarfórnarblóðið, á hægri eyrnasnepil, hægri þumalfingur og hægri stórutá þess sem lætur hreinsa sig. 29 Það sem þá er eftir af olíunni í vinstri lófa prestsins skal hann setja á höfuð þess sem lætur hreinsa sig til þess að friðþægja fyrir hann frammi fyrir Drottni. 30 Þá skal hann færa fram aðra turtildúfuna eða aðra ungu dúfuna eftir því sem hann hefur ráð á, 31 aðra í syndafórn, hina í brennifórn, ásamt kornfórninni. Þannig friðþægir presturinn frammi fyrir augliti Drottins fyrir mann sem lætur hreinsast.“
32 Þetta eru lög um þann sem hefur haft holdsveikiskellu en hefur ekki nægileg efni til að standa straum af hreinsuninni.

Skellur á húsum

33 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:
34 „Þegar þið komið inn í Kanaansland sem ég afhendi ykkur til eignar og ég læt holdsveikiskellu koma á eitthvert hús í eignarlandi ykkar, 35 skal eigandi hússins koma til prests, tilkynna honum það og segja: Mér sýnist eitthvað, sem líkist holdsveikiskellu, vera á húsinu. 36 Þá skal presturinn gefa fyrirmæli um að rýma húsið áður en hann kemur til að skoða skelluna svo að ekki verði allt óhreint sem í húsinu er. Að því loknu skal presturinn ganga inn til að líta á húsið.
37 Hann skal skoða skelluna og staðfesti hann að djúpar skellur séu á veggjum hússins, gulgrænar eða rauðleitar, sem virðast liggja dýpra en múrveggurinn umhverfis, 38 skal presturinn ganga út að dyrum hússins og loka því í sjö daga. 39 Á sjöunda degi skal presturinn koma aftur og skoða það. Staðfesti hann að skellan hafi breiðst út um múrveggi hússins 40 skal hann gefa fyrirmæli um að steinarnir með skellunum skuli fjarlægðir og þeim hent á óhreinan stað utan við borgina. 41 Því næst skal hann láta skafa allt húsið að innan. Kalkið, sem skafið er af veggjunum, skal flytja út fyrir borgina og fleygja því á óhreinan stað. 42 Þá skal sækja aðra steina og koma þeim fyrir í stað hinna fyrri. Á sama hátt skal taka nýtt kalk og kalka húsið að nýju.
43 Myndist holdsveikiskella aftur og breiðist út um húsið eftir að steinarnir hafa verið rifnir burt og húsið hefur verið skafið og kalkað að nýju, 44 skal presturinn koma aftur til að skoða það. Staðfesti hann að skellan hafi breiðst út um húsið er þetta illkynjuð holdsveiki á húsinu. Það er óhreint. 45 Þá skal rífa húsið og flytja alla steina, við og kalk úr því út fyrir borgina á óhreinan stað.
46 Sá sem gengur inn í húsið á meðan það er lokað verður óhreinn til kvölds. 47 Sá sem leggst til svefns í húsinu skal þvo klæði sín og sá sem neytir matar í húsinu skal þvo klæði sín.
48 Komi prestur og skoði húsið og staðfesti að skellan hefur ekki breiðst út eftir að húsið var kalkað að nýju, skal presturinn úrskurða húsið hreint. Skellan hefur læknast. 49 Hann skal sækja tvo fugla, sedrusvið, hárauðan þráð og ísóp til þess að hreinsa húsið af synd. 50 Hann skal slátra öðrum fuglinum yfir leirkeri með lindarvatni. 51 Því næst skal hann taka sedrusviðinn, ísópinn og hárauða þráðinn ásamt fuglinum sem er lifandi og dýfa í blóð fuglsins sem slátrað var og í lindarvatn. Þá skal hann stökkva því sjö sinnum á húsið. 52 Þannig hreinsar hann húsið með fuglsblóði, lindarvatni, lifandi fugli, sedrusviði, ísóp og hárauðum þræði. 53 Því næst skal hann láta fuglinn, sem lifir, fljúga burt úr borginni. Þannig friðþægir hann fyrir húsið og það verður hreint.“
54 Þetta eru lög um allar tegundir holdsveiki og um útbrot, 55 um holdsveiki á klæðum og húsum, 56 um bólgu, hrúður og ljósa bletti. 57 Þetta eru leiðbeiningar um það hvenær eitthvað er óhreint eða hreint.
Þetta eru lög um holdsveiki.