Manntal

1 Drottinn talaði til Móse í Sínaíeyðimörk, í samfundatjaldinu, fyrsta dag annars mánaðar á öðru ári eftir að Ísraelsmenn fóru frá Egyptalandi og sagði: 2 „Takið manntal hjá öllum söfnuði Ísraelsmanna, teljið hvern ættbálk og hverja fjölskyldu. Þið skuluð telja nöfn allra karla 3 sem eru tuttugu ára og eldri, allra vopnfærra manna í Ísrael. Þið Aron skuluð kanna hverja hersveit 4 og skal einn maður úr hverjum ættbálki vera ykkur til aðstoðar. Það skulu vera ættarhöfðingjar.
5 Þetta eru nöfn mannanna sem eiga að hjálpa ykkur: Frá Rúben: Elísúr Sedeúrsson, 6 frá Símeon: Selúmíel Súrísaddaíson, 7 frá Júda: Nakson Ammínadabsson, 8 frá Íssakar: Netanel Súarsson, 9 frá Sebúlon: Elíab Helónsson.
10 Frá sonum Jósefs: Frá Efraím: Elísama Ammíhúdsson, frá Manasse: Gamlíel Pedasúrsson, 11 frá Benjamín: Abídan Gídoníson, 12 frá Dan: Akíeser Ammísaddaíson, 13 frá Asser: Pagíel Ókransson, 14 frá Gað: Eljasaf Degúelsson, 15 frá Naftalí: Akíra Enansson.“
16 Þessir menn voru valdir af söfnuðinum. Þeir voru höfðingjar yfir ættum feðra sinna, æðstu höfðingjar Ísraels ætta.
17 Móse og Aron létu þá sem höfðu verið valdir ganga fram. 18 Á fyrsta degi annars mánaðar stefndu þeir öllum söfnuðinum saman og fólkið lét skrá sig á manntalsskýrslur eftir ættum sínum og fjölskyldum, með nöfnum eftir höfðatölu, 19 eins og Drottinn hafði falið Móse. Hann taldi þá í Sínaíeyðimörkinni.
20 Synir Rúbens, frumburðar Ísraels, það er niðjar þeirra, voru taldir eftir ættum og fjölskyldum, eftir nöfnum og höfðatölu. Allir vopnfærir karlmenn tuttugu ára og eldri, 21 sem taldir voru af ættbálki Rúbens, voru 46.500.
22 Synir Símeons, það er niðjar þeirra, voru taldir eftir ættum og fjölskyldum, eftir nöfnum og höfðatölu. Allir vopnfærir karlmenn tuttugu ára og eldri, 23 sem taldir voru af ættbálki Símeons, voru 59.300.
24 Synir Gaðs, það er niðjar þeirra, voru taldir eftir ættum og fjölskyldum, eftir nöfnum og höfðatölu. Allir vopnfærir karlmenn tuttugu ára og eldri, 25 sem taldir voru af ættbálki Gaðs, voru 45.650.
26 Synir Júda, það er niðjar þeirra, voru taldir eftir ættum og fjölskyldum, eftir nöfnum og höfðatölu. Allir vopnfærir karlmenn tuttugu ára og eldri, 27 sem taldir voru af ættbálki Júda, voru 74.600.
28 Synir Íssakars, það er niðjar þeirra, voru taldir eftir ættum og fjölskyldum, eftir nöfnum og höfðatölu. Allir vopnfærir karlmenn tuttugu ára og eldri, 29 sem taldir voru af ættbálki Íssakars, voru 54.400.
30 Synir Sebúlons, það er niðjar þeirra, voru taldir eftir ættum og fjölskyldum, eftir nöfnum og höfðatölu. Allir vopnfærir karlmenn tuttugu ára og eldri, 31 sem taldir voru af ættbálki Sebúlons, voru 57.400.
32 Synir Jósefs: Synir Efraíms, það er niðjar þeirra, voru taldir eftir ættum og fjölskyldum, eftir nöfnum og höfðatölu. Allir vopnfærir karlmenn tuttugu ára og eldri, 33 sem taldir voru af ættbálki Efraíms, voru 40.500.
34 Synir Manasse, það er niðjar þeirra, voru taldir eftir ættum og fjölskyldum, eftir nöfnum og höfðatölu. Allir vopnfærir karlmenn tuttugu ára og eldri, 35 sem taldir voru af ættbálki Manasse, voru 32.200.
36 Synir Benjamíns, það er niðjar þeirra, voru taldir eftir ættum og fjölskyldum, eftir nöfnum og höfðatölu. Allir vopnfærir karlmenn tuttugu ára og eldri, 37 sem taldir voru af ættbálki Benjamíns, voru 35.400.
38 Synir Dans, það er niðjar þeirra, voru taldir eftir ættum og fjölskyldum, eftir nöfnum og höfðatölu. Allir vopnfærir karlmenn tuttugu ára og eldri, 39 sem taldir voru af ættbálki Dans, voru 62.700.
40 Synir Assers, það er niðjar þeirra, voru taldir eftir ættum og fjölskyldum, eftir nöfnum og höfðatölu. Allir vopnfærir karlmenn tuttugu ára og eldri, 41 sem taldir voru af ættbálki Assers, voru 41.500.
42 Synir Naftalí, það er niðjar þeirra, voru taldir eftir ættum og fjölskyldum, eftir nöfnum og höfðatölu. Allir vopnfærir karlmenn tuttugu ára og eldri, 43 sem taldir voru af ættbálki Naftalí, voru 53.400.
44 Þetta voru þeir sem taldir voru, þeir sem Móse taldi ásamt Aroni og höfðingjum Ísraels sem voru tólf að tölu, einn frá hverri fjölskyldu. 45 Þannig voru Ísraelsmenn taldir, fjölskylda eftir fjölskyldu, allir vopnfærir menn í Ísrael, tuttugu ára og eldri. 46 Þeir sem taldir voru reyndust vera 603.550.

Sérstaða Levíta

47 Levítar voru ekki taldir ásamt öðrum Ísraelsmönnum eftir fjölskyldum sínum.
48 Drottinn sagði við Móse: 49 „Ættkvísl Leví skaltu hvorki telja né taka manntali ásamt öðrum Ísraelsmönnum 50 en þú skalt gera Levítana ábyrga fyrir tjaldbúð sáttmálstáknsins, áhöldum hennar og öllu sem henni fylgir. Þeir skulu bera tjaldbúðina og öll áhöld hennar. Þeir skulu gæta hennar og tjalda umhverfis hana. 51 Áður en lagt er af stað með tjaldbúðina eiga Levítarnir að taka hana niður og þegar hún kemur á áfangastað skulu þeir reisa hana. Sérhver óviðkomandi, sem nálgast hana, skal tekinn af lífi.
52 Ísraelsmenn skulu tjalda hver í sinni búð hjá gunnfána sínum 53 en Levítar skulu tjalda umhverfis tjaldbúð sáttmálstáknsins svo að reiði Guðs komi ekki yfir söfnuð Ísraelsmanna. Levítarnir skulu halda reglurnar um tjaldbúð sáttmálstáknsins.“
54 Ísraelsmenn gerðu allt þetta. Þeir gerðu allt sem Drottinn hafði lagt fyrir Móse.