Konur Salómons og hjáguðadýrkun

1 Auk dóttur faraós elskaði Salómon konungur margar útlendar konur, konur frá Móab, Ammón, Edóm, Sídon og ríki Hetíta. 2 Drottinn hafði gefið Ísraelsmönnum svohljóðandi fyrirmæli um konur af þessum þjóðum: „Þið megið ekki leggja lag ykkar við þær og þær mega ekki leggja lag sitt við ykkur því að þær munu áreiðanlega snúa hjarta ykkar til guða sinna.“ Salómon felldi ástarhug til þessara kvenna. 3 Hann átti sjö hundruð konungbornar eiginkonur og þrjú hundruð hjákonur og konur hans leiddu hann afvega. 4 Þegar Salómon var orðinn gamall sneru konurnar hjarta hans til annarra guða svo að hann fylgdi ekki Drottni, Guði sínum, heils hugar eins og Davíð, faðir hans. 5 Salómon fylgdi Astarte, gyðju Sídoninga, og Milkóm, hinum viðurstyggilega guði Ammóníta. 6 Salómon gerði það sem illt var í augum Drottins og fylgdi Drottni ekki af sömu heilindum og Davíð, faðir hans. 7 Þá reisti Salómon fórnarhæð handa Kamos, hinum viðurstyggilega guði Móabs, á fjallinu austan við Jerúsalem og eins handa Milkóm, hinum viðurstyggilega guði Ammóníta. 8 Hið sama gerði hann fyrir allar erlendu eiginkonurnar og þau brenndu reykelsi og báru fram sláturfórnir handa guðum sínum.
9 Drottinn reiddist Salómon vegna þess að hann hafði gerst fráhverfur Drottni, Guði Ísraels, sem hafði birst honum tvisvar 10 og bannað honum að fylgja öðrum guðum. Salómon hafði ekki farið eftir því sem Drottinn bauð honum. 11 Þess vegna sagði Drottinn við hann: „Fyrst þú hefur farið þannig að ráði þínu að þú hefur hvorki haldið sáttmála minn né þau fyrirmæli sem ég hef gefið þér mun ég hrifsa af þér konungsríkið og fá það þjóni þínum. 12 Vegna Davíðs, föður þíns, mun ég þó ekki gera þetta á meðan þú lifir heldur mun ég hrifsa það af syni þínum. 13 Ég mun þó ekki hrifsa af honum allt ríkið. Ég mun fá syni þínum einn ættbálk vegna Davíðs, þjóns míns, og vegna Jerúsalem sem ég hef valið mér.“

Fjandmenn Salómons

14 Drottinn vakti Salómon upp mótstöðumann. Það var Edómítinn Hadad sem var af konungsættinni í Edóm. 15 Þegar Davíð hafði sigrað Edómíta fór Jóab hershöfðingi upp eftir til að grafa hina föllnu og drap hann alla karlmenn í Edóm. 16 Jóab og allur Ísrael dvaldist þar í sex mánuði uns þeir höfðu tortímt öllum karlmönnum í Edóm. 17 En Hadad tókst að flýja til Egyptalands ásamt nokkrum Edómítum sem verið höfðu þjónar föður hans. Hadad var þá unglingur.
18 Þeir höfðu lagt upp frá Midían og komið til Paran, haft með sér nokkra menn frá Paran og loks komið til Egyptalands, til faraós, konungs Egyptalands. Hann fékk Hadad hús, sá honum fyrir lífsviðurværi og gaf honum land. 19 Hadad var í slíkum metum hjá faraó að hann gifti honum systur konu sinnar, Takpenesar drottningar. 20 Systir Takpenesar fæddi Hadad soninn Genúbat sem Takpenes ól upp í húsi faraós. Genúbat bjó því á meðal sona faraós í húsi faraós. 21 Þegar Hadad frétti í Egyptalandi að Davíð hefði verið lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og Jóab hershöfðingi væri dáinn sagði hann við faraó: „Leyfðu mér að snúa aftur til lands míns.“ 22 Faraó svaraði honum: „Hvað skortir þig hjá mér fyrst þú biður leyfis að fara til lands þíns?“ „Ekkert,“ sagði Hadad, „en leyfðu mér samt að fara.“
23 Guð efldi annan andstæðing gegn Salómon. Var það Resón Eljadason sem flúið hafði frá húsbónda sínum, Hadadeser, konungi í Sóba. 24 Er Davíð hafði fellt nokkra Aramea safnaði Resón um sig mönnum og gerðist foringi ræningjaflokks. Þeir fóru til Damaskus, settust þar að og Resón tók sér þar konungsvald. 25 Hann var andstæðingur Ísraels á meðan Salómon lifði og jók það böl sem Hadad olli. Hann hataði Ísrael og ríkti yfir Aram.

Uppreisn Jeróbóams

26 Jeróbóam Nebatsson gerði einnig uppreisn gegn konungi. Hann var frá Sereda, af ætt Efrata, og var í þjónustu Salómons. Móðir hans hét Serúa og var ekkja. 27 Uppreisnin gegn konungi varð með þessum hætti: Salómon var að byggja Milló sem lokaði skarði því sem var í borg Davíðs, föður hans. 28 Jeróbóam var mikill afkastamaður. Þegar Salómon sá hvernig þessi unglingur vann setti hann Jeróbóam yfir burðarmennina af ættbálki Jósefs. 29 Einhverju sinni, þegar Jeróbóam fór frá Jerúsalem, bar svo við að spámaðurinn Ahía frá Síló mætti honum á veginum. Ahía var sveipaður nýrri skikkju og er þeir voru þarna tveir einir á bersvæði 30 greip Ahía nýju skikkjuna sem hann bar og reif hana í tólf hluta. 31 Hann sagði við Jeróbóam: „Taktu tíu hluta því að þetta hefur Drottinn, Guð Ísraels, sagt: Ég hrifsa konungsríkið úr höndum Salómons og færi þér tíu ættbálka 32 en einum ættbálki skal hann halda vegna Davíðs, þjóns míns, og vegna Jerúsalem, borgarinnar sem ég hef valið mér úr öllum ættbálkum Ísraels. 33 Þetta mun ég gera því að Salómon hefur yfirgefið mig og tilbeðið Astarte, gyðju Sídoninga, Kamos, guð Móabs, og Milkóm, guð Ammóníta. Hann hefur ekki gengið veg minn og hvorki gert það sem rétt er í augum mínum né haldið ákvæði mín og lög eins og Davíð, faðir hans, gerði. 34 Ég tek ekki allt konungsríkið úr höndum hans heldur læt hann ríkja meðan hann lifir vegna Davíðs, þjóns míns, sem ég valdi og hélt boð mín og ákvæði. 35 Hins vegar tek ég ríkið úr höndum sonar hans og fæ þér það, það er að segja tíu ættbálka. 36 Ég gef syni hans einn ættbálk svo að Davíð, þjónn minn, hafi ævinlega lampa fyrir augliti mínu í Jerúsalem, borginni sem ég hef valið til þess að láta nafn mitt búa þar. 37 En þig mun ég taka að mér og þú skalt ríkja yfir öllu sem þú sækist eftir og verða konungur yfir Ísrael. 38 Ef þú hlýðir öllu sem ég býð þér, lifir samkvæmt fyrirmælum mínum, ástundar það sem rétt er í augum mínum og heldur ákvæði mín og lög eins og Davíð, þjónn minn, gerði, þá mun ég vera með þér. Ég mun gera ætt þína að konungsætt, treysta hana í sessi eins og ég gerði fyrir hús Davíðs og ég mun fá þér Ísrael. 39 Afkomendur Davíðs mun ég niðurlægja vegna þessa, þó ekki um alla framtíð.“
40 Salómon leitaði nú færis að drepa Jeróbóam en Jeróbóam lagði á flótta til Egyptalands, til Sísaks, konungs Egyptalands. Hann dvaldist í Egyptalandi allt til dauða Salómons.

Dauði Salómons

41 Það sem ósagt er af sögu Salómons, öllum verkum hans og speki, er skráð í annála um hann. 42 Salómon var konungur í Jerúsalem yfir öllum Ísrael í fjörutíu ár. 43 Síðan var hann lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og grafinn í borg Davíðs, föður síns. Rehabeam, sonur hans, varð konungur eftir hann.