Ekkjan Júdít

1 Um þessar mundir bárust Júdít fregnir af þessu. Hún var dóttir Merari Oxsonar, sonar Jósefs Osíelssonar sem var sonur Elkía Ananíassonar, Gídeonssonar, Rafajasonar, Akitovssonar, Elíasonar, Kelkíasonar, Elíabssonar, Natanaelssonar, Selúmíelssonar, Súrísaddaísonar, Símeonssonar, Ísraelssonar. 2 Maður hennar var Manasse af sömu ættkvísl og ætt og hún. Hafði hann dáið um byggskurðartímann. 3 Fékk hann sólsting er hann stjórnaði þeim sem bundu kornknippi á akrinum. Lagðist hann sjúkur og lést í borg sinni Betúlúu og var grafinn hjá feðrum sínum á akrinum milli Dótan og Balamon. 4 Síðan hafði Júdít búið ekkja í húsi sínu í þrjú ár og fjóra mánuði. 5 Hún hafði látið gera sér skýli á þaki húss síns og hafði sekk um lendar sér og bar ekkjuklæði. 6 Auk þess fastaði hún hvern dag ekkjudóms síns að frátöldum aðfangadögum hvíldardaga og hvíldardögum og dögum fyrir tunglkomudaginn og tunglkomudögum og hátíðum og öðrum fagnaðardögum Ísraels. 7 Hún var kona fögur ásýndum og gædd miklum yndisþokka. Manasse maður hennar hafði eftirlátið henni gull og silfur, þjóna og þernur, fénað og akra sem hún réð yfir. 8 Enginn gat borið henni neitt misjafnt enda var hún guðhrædd mjög.

Fundur Júdítar og borgarráðsmanna

9 Júdít heyrði af bituryrðum fólksins við leiðtoga sinn þegar það örvænti af vatnsskorti. Frétti hún einnig hverju Ússía hafði svarað og að hann hefði lagt eið að því loforði að gefa borgina á vald Assýríumönnum eftir fimm daga. 10 Þá sendi Júdít þernu, sem hún hafði sett yfir allar eigur sínar, með boð til Ússía, Kabrís og Karmís, öldunga borgarinnar, um að finna sig. 11 Þegar þeir komu til hennar sagði hún: „Hlýðið á mig, þið sem eruð leiðtogar Betúlúubúa. Ekki gerðuð þið rétt að tala þannig til fólksins í dag og sverja Guði þann eið að gefa óvinunum borgina á vald ef Drottinn veitir okkur ekki hjálp innan þessa tiltekna tíma. 12 Hverjir haldið þið að þið séuð að freista Guðs eins og þið hafið gert í dag og setja ykkur sjálfa í Guðs stað meðal mannanna? 13 Þið eruð að reyna að rannsaka almáttugan Drottin. Aldrei að eilífu munuð þið verða nokkru nær. 14 Ekki getið þið einu sinni komist að raun um hvað leynist í djúpi hjarta mannsins né heldur skilið hugrenningar hans. Hvernig hyggist þið rannsaka Guð sem allt þetta hefur skapað, skilja hugsanir hans og komast að því sem hann ætlast fyrir? Það verður aldrei. Vekið ekki reiði Drottins Guðs. 15 Þótt hann vilji ekki hjálpa okkur á fimm dögum hefur hann samt mátt til að vernda okkur á hvaða degi sem hann kýs og líka mátt til að tortíma okkur fyrir augunum á óvinum okkar. 16 Þið skuluð ekki reyna að þvinga fram ákvörðun Drottins, Guðs okkar. Því að Guð lætur hótanir ekki hnika sér eins og hann sé maður og lætur ekki tala um fyrir sér eins og maðurinn. 17 Þess vegna skulum við vænta hjálpar hans þolinmóð og ákalla hann um hjálp. Hann mun heyra bæn okkar ef honum þóknast. 18 Enda hefur hvorki komið fyrir í manna minnum, né mun það heldur verða í dag, að nein ættkvísl, ætt eða nokkur byggð okkar eða bær tilbiðji guði sem gerðir eru af manna höndum eins og fyrir kom á fyrri tímum. 19 Það var fyrir þá sök að feður okkar voru seldir á vald sverði og ránum og liðu miklar hörmungar af óvinum okkar. 20 En við þekkjum engan annan Guð en Drottin. Þess vegna vonum við að hann yfirgefi okkur ekki né neinn af þjóð okkar. 21 Ef við verðum hertekin þá mun öll Júdea unnin og helgidómur okkar rændur. Guð mun láta okkur gjalda með lífinu fyrir vanhelgun hans.[ 22 Dauða bræðra okkar og herleiðingu þjóðarinnar og eyðingu arfleifðar okkar mun Drottinn láta koma okkur í koll meðal heiðingjanna þar sem við munum hneppt í þrældóm og vekja andstyggð og háðung þeirra sem kaupa okkur. 23 Þrældómur okkar mun ekki snúast til blessunar heldur mun Drottinn Guð gera hann að niðurlægingu okkar. 24 Látum okkur því nú, bræður, sýna bræðrum okkar að líf þeirra er undir okkur komið sem og það hvort helgidómurinn, musterið og fórnaraltarið fær staðist. 25 Sakir þessa alls skulum við þakka Drottni Guði sem reynir okkur eins og hann reyndi feður okkar. 26 Minnist þess hvað hann gerði við Abraham og hvernig hann reyndi Ísak og minnist þess sem kom fyrir Jakob í sýrlensku Mesópótamíu er hann gætti fjár Labans móðurbróður síns. 27 Drottinn mun ekki refsa okkur með slíkri eldraun sem hann setti þá í til að reyna hjörtu þeirra. Nei. Þegar Drottinn hirtir þá sem halda sig að honum þá er það til þess að leiðbeina þeim.“
28 Ússía svaraði henni: „Allt sem þú sagðir mæltir þú af góðum huga og enginn getur hrakið orð þín. 29 Það er ekki heldur í fyrsta sinn í dag að þú sýnir að þú ert vitur kona því að hyggindi þín hafa verið á allra vitorði frá því að þú varst barn að aldri og eðlislæg hjartagæska þín. 30 Þar sem fólkið var kvalið af þorsta neyddumst við til að fara að tilmælum þess og gangast undir eið sem við munum ekki rjúfa. 31 En bið þú, sem ert guðhrædd kona, fyrir okkur. Þá mun Drottinn senda regn sem fylla mun vatnsþrær okkar. Þá verðum við ekki lengur örmagna af þorsta.“
32 Júdít sagði við þá: „Hlýðið á mig. Það verk ætla ég að vinna sem þjóð okkar mun minnast kynslóð eftir kynslóð. 33 Standið í nótt við hliðið. Ég mun ganga út um það með þernu minni og áður en sá dagur rennur sem þið hafið heitið að selja borgina í hendur óvinunum mun Drottinn vitja Ísraels með tilstuðlan handar minnar. 34 En reynið ekki að komast að raun um hvað ég hyggst fyrir því að ég mun ekki greina frá því fyrr en ég hef framkvæmt það sem ég ætla að gera.“
35 Ússía og hinir leiðtogarnir sögðu við hana: „Far þú í friði. Drottinn Guð fari fyrir þér til að hegna óvinum okkar.“ 36 Fóru þeir síðan úr skýli hennar og sneru aftur til varðstöðva sinna.