Leti og heimska

1Letinginn líkist saurugum steini,
allir fussa við smán hans.
2 Letinginn líkist mykjuslettu,
sá sem snertir hana verður að hrista höndina.
3 Óagaður sonur er föður blygðun,
ósiðuð dóttir verður honum til skaða.
4 Hyggin dóttir auðgar eiginmann sinn
en óskammfeilin hryggir föður sinn.
5 Skassið gerir föður og manni skömm
og hlýtur fyrirlitningu beggja.
6 Fræðsla í ótíma er eins og gleðisöngur í sorgarhúsi
en ögun með hrísvendi á alltaf við.
7 Vel uppalin börn hylja lágan uppruna foreldranna
8 en hrokafull og óuppalin börn eru flekkur á tignustu ætt. [
9 Sá sem fræðir heimskingja er líkur þeim
sem límir brotið ker
eða rífur upp mann af fastasvefni.
10 Að leiðbeina heimskingja
er eins og að segja svefndrukknum til,
að lokum segir hann: „Hvað varstu að segja?“
11 Grát látinn mann því ljósið er honum horfið,
grát heimskan mann því að honum er vitið horfið.
Still harm þinn yfir dánum, hann er til hvíldar genginn,
en líf heimskingjans er dapurlegra en dauðinn.
12 Látinn er syrgður í sjö daga,
guðlaus heimskingi veldur harmi meðan hann lifir.
13 Eyddu eigi mörgum orðum á einfeldning,
legg ekki leið þína til óskynsamra.
Varastu hann svo að þú firrir þig vanda
og fáir eigi slettu er hann skekur sig.
Vík úr vegi hans svo að þú fáir frið
og fávísi hans valdi þér eigi lúa.
14 Hvað er það sem íþyngir meira en blý?
Hvað er það annað en heimskingi?
15 Sandur, salt og járnklumpur
er léttari byrði en fávís maður.
16 Bjálkagrind, sem greypt er í steinvegg,
losnar eigi þótt jörðin bifist.
Eins er um hjarta, sem styðst við úthugsuð ráð,
það brestur ei kjark er á þarf að halda.
17 Hjarta, sem styrkt er hygginda ráði,
er sem lágmynd á sléttum múrvegg.
18 Smávölur, sem liggja hæst á hæð,
haldast ekki kyrrar er stormurinn blæs.
Eins er um hjarta, sem er deigt af heimsku ráði,
það fær ekkert staðist sem ógnar.

Um vináttu

19Særindi á auga koma út tárum,
það sem hjartað nístir afhjúpar veikleik þess.
20 Sá fælir brott fugla sem varpar að þeim steini,
sá sem brigslar vini slítur vináttu.
21 Þótt þú hafir brugðið sverði gegn góðvini,
örvæntu ekki því að enn má snúa við.
22 Hafir þú mælt gegn góðvini,
vertu samt ósmeykur því að enn má ná sáttum.
En brigslyrði, hroka, trúnaðarbrot og níð,
slíkt mun sérhver vinur flýja.
23 Ávinn traust náunga þíns meðan hann er fátækur
svo að þú fáir glaðst þegar hann auðgast.
Veit honum stoð er að honum sverfur
svo að þú fáir hlutdeild í happi hans.
Ekki skyldi ætíð fyrirlíta kröpp kjör
og ekki skyldi dá auðmann sé hann heimskur. [
24 Reykur og svæla fara á undan eldi,
eins eru illdeilur fyrr en blóð flýtur.
25 Ekki skal ég blygðast mín fyrir að vernda vin
og aldrei fela mig fyrir honum.
26 En hendi mig illt af völdum hans
munu allir sem um það heyra varast hann.

Bæn um hjálp til að syndga ekki

27 Hver mun standa vörð um munn minn
og setja tryggt innsigli visku á varir mínar
svo að þær verði mér eigi til falls
og tunga mín steypi mér ekki í glötun?