Verið algáð

1 Öldungana ykkar á meðal hvet ég sem einnig er öldungur og vottur písla Krists og einnig á hlutdeild í þeirri dýrð sem mun opinberast: 2 Verið hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið ykkur. Gætið hennar ekki nauðugir heldur af fúsu geði eins og Guð vill, ekki af gróðafíkn heldur fúslega. 3 Þið skuluð ekki drottna yfir söfnuðunum heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar. 4 Þegar hinn æðsti hirðir birtist munuð þið öðlast þann dýrðarsveig sem aldrei fölnar.
5 Og þið sem yngri eruð, verið öldungunum hlýðin og öll lítillát hvert gagnvart öðru því að „Guð stendur gegn dramblátum en auðmjúkum veitir hann náð“. 6 Beygið ykkur því undir Guðs voldugu hönd til þess að hann upphefji ykkur á sínum tíma. 7 Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.
8 Verið algáð, vakið. Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt. 9 Standið gegn honum stöðug í trúnni og vitið að bræður ykkar og systur[ um allan heim verða fyrir sömu þjáningum. 10 En er þið hafið þjáðst um lítinn tíma mun Guð, sem veitir alla náð og hefur í Kristi kallað ykkur til sinnar eilífu dýrðar, sjálfur fullkomna ykkur, styrkja og gera ykkur öflug. 11 Hans er mátturinn um aldir alda. Amen.

Kveðjur

12 Ég hef látið Silvanus, sem er trúr bróðir í mínum augum, skrifa þetta stutta bréf til þess að hvetja ykkur og vitna hátíðlega að þetta er hin sanna náð Guðs. Standið stöðug í henni.
13 Söfnuðurinn í Babýlon,[ útvalinn eins og þið, og Markús, sonur minn, heilsa ykkur. 14 Heilsið hvert öðru með kærleikskossi.
Friður sé með yður öllum sem eruð í Kristi.