Framtíð konungsættar og þjóðar

1 Vei hirðunum sem leiða sauðina afvega og tvístra hjörðinni sem ég gæti, segir Drottinn. 2 Þess vegna segir Drottinn, Guð Ísraels, um hirðana sem gæta þjóðar minnar: Þér hafið tvístrað sauðum mínum og sundrað þeim og ekki sinnt þeim. Nú mun ég draga yður til ábyrgðar fyrir illvirki yðar, segir Drottinn. 3 En ég mun sjálfur safna saman þeim sem eftir eru af sauðum mínum frá öllum þeim löndum sem ég tvístraði þeim til. Ég mun leiða þá aftur í haglendi þeirra og þeir verða frjósamir og þeim mun fjölga. 4 Ég mun setja hirða yfir þá sem munu gæta þeirra. Þeir munu hvorki skelfast framar né óttast og einskis þeirra verður saknað, segir Drottinn.
5 Sjá, þeir dagar koma, segir Drottinn, að ég mun láta réttlátan kvist vaxa af ætt Davíðs. Hann mun ríkja sem konungur, breyta viturlega og iðka rétt og réttlæti í landinu. 6 Um hans daga verður Júda bjargað og Ísrael mun búa óhultur. Þetta er nafnið sem honum verður gefið: „Drottinn er réttlæti vort.“
7 Þeir dagar koma, segir Drottinn, að ekki verður lengur sagt: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sem leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi,“ 8 heldur: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sem leiddi niðja Ísraels og flutti þá heim frá landinu í norðri og frá öllum þeim löndum sem ég hrakti þá til svo að þeir gætu búið í eigin landi.“

Deilt á spámenn og presta

9Um spámennina:
Hjartað í brjósti mér brestur,
öll bein mín skjálfa.
Ég er eins og drukkinn maður,
eins og maður sem er ofurölvi
vegna Drottins og vegna hans heilögu orða.
10Landið er fullt af hórkörlum,
landið syrgir vegna bölvunarinnar,
beitilöndin í óbyggðunum skrælna.
Þeir hlaupa á eftir illskunni,
rangindi eru styrkur þeirra.
11Bæði spámenn og prestar eru guðlausir,
ég hef jafnvel orðið var við illsku þeirra í húsi mínu,
segir Drottinn.
12Þess vegna mun vegur þeirra reynast þeim háll,
þeim verður hrint út í myrkrið
og þar hrasa þeir.
Því að ég færi þeim ógæfu
árið sem þeim verður refsað, segir Drottinn.

Siðleysi spámannanna

13Á meðal spámannanna í Samaríu
hef ég einnig séð andstyggilegt athæfi:
Þeir spáðu í nafni Baals
og leiddu þjóð mína, Ísrael, afvega.
14Og meðal spámannanna í Jerúsalem
hef ég séð hryllilegt athæfi.
Þeir hórast og ljúga,
styðja illvirkja,
svo að enginn þeirra hverfur frá illri breytni sinni.
Fyrir mér eru þeir allir orðnir eins og Sódóma,
borgarbúar eins og Gómorra.
15Þess vegna segir Drottinn hersveitanna um spámennina:
Ég gef þeim malurt að eta
og eitrað vatn að drekka
því að siðleysið hefur breiðst út um allt landið
frá spámönnunum í Jerúsalem.

Einkenni falsspámanna

16Svo segir Drottinn hersveitanna:
Hlustið ekki á orð spámannanna.
Þeir flytja yður boðskap
en þeir blekkja yður,
þeir flytja uppspunnar sýnir
og ekki af vörum Drottins.
17Þeir segja sífellt við þá sem fyrirlíta orð Drottins:
„Þér hljótið heill.“
Og við hvern sem fylgir þverúð eigin hugar segja þeir:
„Engin ógæfa kemur yfir yður.“
18En hver hefur staðið í ráði Drottins,
séð hann og heyrt orð hans?
Hver hefur hlýtt á orð hans og boðað það?
19Sjá, stormur Drottins brýst fram,
hvirfilbylur steypist yfir höfuð hinna óguðlegu.
20Reiði Drottins slotar ekki
fyrr en hann hefur framkvæmt og fullkomnað
fyrirætlanir hjarta síns.
Síðar meir munuð þér skilja það.
21Ég sendi ekki þessa spámenn,
samt hlaupa þeir,
ég talaði ekki til þeirra,
samt spá þeir.
22 Hefðu þeir verið í ráði mínu,
þá hefðu þeir boðað þjóð minni orð mín
og snúið henni frá villu síns vegar
og vondri breytni.

Spámenn án umboðs

23 Er ég aðeins Guð í nánd? segir Drottinn,
en ekki Guð í fjarlægð?
24 Getur nokkur falist í fylgsnum
þar sem ég get ekki séð hann? spyr Drottinn.
Er það ekki ég
sem fylli bæði himin og jörð? spyr Drottinn.

25 Ég hef heyrt hvað spámennirnir, sem boða lygi í mínu nafni, segja: „Mig dreymdi draum, mig dreymdi draum.“ 26 Hve lengi getur þetta gengið? Er nafn mitt í huga þeirra spámanna sem boða lygi og blekkingu úr eigin hjarta?
27 Þeir reyna að fá þjóð mína til að gleyma nafni mínu með draumunum sem þeir segja hver öðrum, rétt eins og forfeður þeirra gleymdu nafni mínu vegna Baals. 28 Sá spámaður sem hefur dreymt draum segir aðeins eigin draum en sá sem hefur mitt orð flytur orð mitt í sannleika.
Hvað er sameiginlegt hálmstrái og korni? spyr Drottinn.
29 Er orð mitt ekki eins og eldur? spyr Drottinn,
eins og hamar sem molar kletta?
30 Ég snýst gegn spámönnunum, segir Drottinn,
af því að þeir stela orðum mínum
hver frá öðrum.

31 Nú snýst ég gegn spámönnunum, segir Drottinn. Þeir nota eigin tungu til að flytja boð frá Guði. 32 Nú snýst ég gegn spámönnunum sem segja logna drauma, segir Drottinn, og blekkja þjóð mína með lygum sínum og raupi. Ég hef hvorki sent þá né gefið þeim fyrirmæli, þeir eru þessari þjóð til einskis gagns, segir Drottinn.

Háðsyrði gegn spámannsorðinu

33 Þegar þetta fólk, einhver spámaður eða prestur, spyr þig: „Hver er byrði Drottins?“ skaltu svara þeim: Þér eruð byrðin og ég fleygi yður af mér, segir Drottinn. 34 Ef einhver spámaður, prestur eða annar af þessu fólki, nefnir „byrði Drottins“ mun ég draga þann til ábyrgðar ásamt fjölskyldu sinni.
35 En þannig skuluð þér spyrja hver annan og segja hver við annan: „Hverju hefur Drottinn svarað og hvað hefur Drottinn sagt?“ 36 En minnist aldrei framar á „byrði Drottins“ því að fyrir hvern mann er hans eigið orð byrði af því að þér hafið rangfært orð hins lifandi Guðs, Drottins hersveitanna, Guðs vors. 37 Þannig skaltu spyrja spámanninn: „Hverju hefur Drottinn svarað þér og hvað hefur Drottinn sagt?“ 38 En ef þér nefnið „byrði Drottins“, segir Drottinn: Þér hafið nefnt „byrði Drottins“, þó að ég hafi sent yður boðbera til að segja: Nefnið ekki „byrði Drottins“. 39 Þess vegna lyfti ég yður upp og fleygi yður burt frá augliti mínu ásamt borginni sem ég gaf yður og forfeðrum yðar. 40 Ég legg á yður ævarandi skömm og smán sem aldrei gleymist.