Trúfesti Mattatíasar

1 Um þessar mundir flutti Mattatías Jóhannesson Símeonssonar frá Jerúsalem og settist að í Módein. Hann var prestur af ætt Jójaríbs. 2 Hann átti fimm syni, Jóhannes að viðurnefni Gaddi, 3 Símon, sem kallaður var Tassi, 4 Júdas, sem nefndur var Makkabeus, 5 Eleasar, sem kallaður var Avaran, og Jónatan sem nefndist Affus. 6 Þegar Mattatías sá guðlastið, sem viðgekkst í Júdeu og Jerúsalem, 7 sagði hann:
Vei mér! Hví þurfti ég að fæðast,
hví varð ég að sjá þjóð mína kúgaða
og ófarir hinnar helgu borgar?
Fólkið sat hjá er borgin var gefin óvinum á vald
og helgidómurinn lenti í höndum útlendinga.
8 Musteri Jerúsalem er orðið sem ærulaus maður,
9 dýrleg áhöld helgidómsins flutt brott sem herfang.
Börn hennar voru deydd á strætunum,
ungmennin með sverðum óvina.
10 Er nokkur sú þjóð
sem ei fékk hlutdeild í veldi borgarinnar
eða hreppti ekki herfang þegar borgin var rænd?
11 Hún er rúin öllu skarti sínu,
sú sem var frjáls er orðin ambátt.
12 Sjáið musteri vort, fegurð vora og vegsemd.
Því eyddu heiðingjar og vanhelguðu.
13 Hví skyldum vér lifa lengur?
14 Mattatías og synir hans rifu klæði sín, klæddust hærusekkjum og voru harmþrungnir.
15 Þá komu sendimenn konungs til Módein. Áttu þeir að þvinga menn til fráhvarfs og knýja þá til að færa fórnir. 16 Margir Ísraelsmenn komu til fundar við þá. Mattatías og synir hans héldu hópinn. 17 Konungsmenn beindu orðum til Mattatíasar og sögðu: „Þú ert virtur og mikils metinn leiðtogi hér í borg og nýtur stuðnings sona og bræðra. 18 Stíg þú fyrstur fram til að hlýðnast fyrirmælum konungs svo sem allar þjóðir hafa gert, einnig Júdeumenn og þeir sem eftir urðu í Jerúsalem. Þá munuð þið synir þínir verða vinir konungs og sæmdir gulli og silfri og mörgum gjöfum.“ 19 En Mattatías svaraði og brýndi raustina: „Þótt allar þjóðir í ríki konungs hlýði honum og snúi baki við trúarbrögðum feðra sinna og kjósi allar að fara að boðum hans 20 mun ég og synir mínir og bræður samt fylgja sáttmála feðra okkar. 21 Guð forði okkur frá að gerast fráhverfir lögmálinu og ákvæðum þess. 22 Við munum ekki hlýða boðum konungs og ekki víkja til hægri eða vinstri frá guðsdýrkun okkar.“
23 Hann hafði varla sleppt orðinu þegar Gyðingur nokkur gekk fram í augsýn allra til að færa fórn á altarinu í Módein samkvæmt fyrirmælum konungs. 24 Er Mattatías sá það fylltist hann vandlætingu og tók að skjálfa innra með sér. Brennandi af réttlátri reiði þaut hann til og hjó manninn til bana við altarið. 25 Einnig deyddi hann konungsmanninn, sem átti að þvinga aðra til að fórna, og reif altarið niður. 26 Þannig varði hann lögmálið af vandlætingu eins og Pínehas hafði breytt við Simrí Salúson.

Skæruhernaður Mattatíasar

27 Þá hrópaði Mattatías hárri röddu sem barst um borgina: „Hver sem verja vill lögmálið og halda sáttmálann í heiðri fylgi mér.“ 28 Síðan flýði hann og synir hans til fjalla og skildu þeir allar eigur sínar eftir í borginni.
29 Margir, sem þráðu réttlæti og rétt, héldu þá út í auðnina og settust þar að 30 með konur sínar, börn og búfé því að bölið gekk svo nærri þeim. 31 Konungsmenn og hersveitin í Jerúsalem, borg Davíðs, fréttu að menn, sem skeyttu ekki um boð konungs, væru farnir út í hellana í auðninni. 32 Fjölmenni mikið var sent eftir þeim og bjóst til bardaga við þá strax og það hafði náð þeim og hugðist leggja til atlögu á hvíldardegi. 33 Þeir sögðu við Ísraelsmenn: „Er nú ekki mál að linni? Komið og gerið svo sem konungur hefur boðið og þið munuð halda lífi.“
34 Þeir svöruðu: „Við komum ekki út og munum ekki fara að boðum konungs og vanhelga hvíldardaginn.“ 35 Þá réðst lið konungs tafarlaust á þá. 36 Þeir veittu enga mótspyrnu og vörpuðu hvorki steini né lokuðu hellismunnunum 37 en sögðu: „Saklausir göngum við allir í dauðann. Himinn og jörð eru til vitnis um að þið deyðið okkur gegn öllu réttlæti.“ 38 Óvinirnir veittu þeim atlögu á hvíldardeginum og felldu þá, konur þeirra og börn og kvikfé, nær þúsund manna.
39 Þegar Mattatías og vinir hans fréttu af þessu syrgðu þeir hina föllnu mjög. 40 Þeir sögðu hver við annan: „Ef við förum allir að eins og bræður okkar og berjumst ekki við heiðingjana fyrir lífi okkar og réttindum, þá munu þeir brátt afmá okkur af jörðinni.“ 41 Sama dag tóku þeir þessa ákvörðun: „Við munum berjast við hvern þann sem veitir okkur aðför á hvíldardegi. Við ætlum ekki að deyja allir á sama hátt og bræður okkar í hellunum.“
42 Til liðs við þá gekk sveit Hasídea, vaskar hetjur Ísraelsmanna sem allar vildu hlýða lögmálinu staðfastlega. 43 Allir aðrir sem hraktir höfðu verið á flótta undan kúgurunum slógust í hópinn og styrktu hann. 44 Þannig myndaðist hersveit sem gat beint reiði gegn syndurunum og heift sinni að þeim sem svívirtu lögmálið. En þeir sem sluppu flýðu til heiðingjanna til að bjarga lífinu.
45 Mattatías og vinir hans fóru víða um landið og rifu niður ölturu 46 og umskáru með valdi alla óumskorna drengi sem þeir fundu innan landamæra Ísraels. 47 Þeir ofsóttu hina drambsömu og varð vel ágengt. 48 Þeir vörðu lögmálið fyrir árás heiðingja og konunga og gáfu syndaranum ekkert færi á sér.

Mattatías deyr

49 Þegar Mattatías fann dauðann nálgast sagði hann við syni sína: „Nú ríkir dramb og óhæfa, ógnaröld og ofsareiði. 50 Berjist því, börnin mín, af heilagri vandlætingu fyrir lögmálið og leggið lífið í sölurnar fyrir sáttmála feðranna. 51 Minnist dáða þeirra sem feðurnir drýgðu á sinni tíð svo að þið hljótið mikla frægð og orðstír sem aldrei deyr. 52 Reyndist Abraham ekki trúr þegar hann var reyndur og var það ekki reiknað honum til réttlætis? 53 Jósef hlýddi boðorðinu þegar að honum svarf og varð ráðsherra í Egyptalandi. 54 Pínehas, forfaðir okkar, barðist af brennandi vandlætingu og hlaut því sáttmála um eilífan prestdóm. 55 Jósúa gerði allt svo sem boðið var og varð dómari í Ísrael. 56 Kaleb bar sannleikanum vitni frammi fyrir söfnuðinum og hlaut land til eignar. 57 Vegna miskunnsemi sinnar hlaut Davíð hásæti konungs í eilífu ríki. 58 Elía barðist af vandlætingu fyrir lögmálinu og var því hafinn upp til himins. 59 Ananías, Asarja og Mísael treystu Guði og björguðust úr logunum. 60 Vegna hjartahreinleika síns var Daníel hrifinn úr gini ljónanna. 61 Þannig má sjá í sögu genginna kynslóða að hver sá sem vonar á Drottin mun ekki yfirbugaður. 62 Óttist því ekki hótanir syndugs manns. Vegsemd hans verður skarn og maðkafæða. 63 Í dag hreykir hann sér hátt en á morgun er hann gleymdur. Hann er orðinn að mold á ný og ráðabrugg hans að engu. 64 Börnin mín. Sækið hugmóð og styrk í lögmálið. Það mun veita ykkur vegsemd. 65 Ég veit að Símon bróðir ykkar er ráðsnjall maður. Farið ætíð að ráðum hans. Hann skal verða ykkur sem faðir. 66 Júdas Makkabeus hefur verið þróttug kempa frá ungum aldri. Hann skal stýra her ykkar og heyja stríð við heiðingjana. 67 Safnið að ykkur öllum sem trúir eru lögmálinu og komið fram hefndum fyrir þjóð ykkar. 68 Veitið heiðingjunum makleg málagjöld og haldið fast við fyrirmæli lögmálsins.“
69 Síðan blessaði hann syni sína og safnaðist til feðra sinna. 70 Mattatías lést árið eitt hundrað fjörutíu og sex og var lagður í gröf feðra sinna í Módein. Allur Ísrael harmaði hann mjög.