Réttlætt af trú

1 Réttlætt af trú höfum við því frið við Guð sakir Drottins vors Jesú Krists. 2 Hann hefur veitt okkur aðgang að þeirri náð sem við lifum í og við fögnum í voninni um dýrð Guðs. 3 En ekki aðeins það: Við fögnum líka í þrengingum þar eð við vitum að þrengingin 4 veitir þolgæði en þolgæði gerir mann fullreyndan og fullreyndur á vonina. 5 Og vonin bregst okkur ekki. Því að kærleikur Guðs hefur streymt inn í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur er gefinn.
6 Meðan við enn vorum vanmegna dó Kristur á settum tíma fyrir óguðlega. 7 Varla gengur nokkur í dauðann fyrir réttlátan mann. Fyrir góðan mann kynni einhver ef til vill að vilja deyja. 8 En Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar í því að Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar. 9 Því fremur mun hann nú frelsa okkur frá reiðinni þar sem við erum réttlætt fyrir blóð Krists. 10 Hafi Guð, þegar við vorum óvinir hans, tekið okkur í sátt með dauða sonar síns, mun hann því fremur nú, þegar hann hefur sætt okkur við sig, frelsa okkur með lífi hans. 11 Og ekki það eitt, heldur fögnum við í Guði vegna Drottins vors Jesú Krists sem hefur sætt okkur við Guð.

Adam og Kristur

12 Syndin kom inn í heiminn með einum manni og dauðinn með syndinni. Þannig er dauðinn runninn til allra manna því að allir syndguðu þeir. 13 Víst var syndin í heiminum áður en lögmálið kom til en synd verður ekki metin til sektar ef ekkert er lögmál. 14 Samt ríkti dauðinn frá Adam til Móse, einnig yfir þeim sem höfðu ekki syndgað á sömu lund og Adam en hann er fyrirmyndan Krists sem koma átti.
15 En náðargjöf Guðs og falli Adams verður ekki jafnað saman. Einn maður féll og við það dóu allir, en einn maður, Jesús Kristur, er sú náðargjöf Guðs sem allir skulu njóta ómælt. 16 Og ekki verður þeirri gjöf jafnað til þess sem leiddi af synd hins eina manns. Því að dómurinn vegna þess sem hinn eini hafði gert varð sektardómur yfir öllum en náðargjöfin er sýknudómur handa öllum sem brutu. 17 Ef misgjörð hins eina manns leiddi til þess að dauðinn tók völd með þeim eina manni, hve miklu fremur munu nú þeir sem þiggja hina ómælanlegu gjöf náðar og sýknunar fá líf og ríki vegna hins eina, Jesú Krists.
18 Allir urðu sekir vegna afbrots eins. Svo verða allir sýknir og öðlast líf sakir þess fullkomna verks sem einn vann. 19 Allir urðu syndarar vegna óhlýðni eins manns. Eins verða allir lýstir sýknir saka vegna hlýðni hins eina.
20 Hér við bættist svo lögmálið til þess að afbrotin yrðu sýnilegri. En að sama skapi sem syndin óx varð náðin ríkulegri. 21 Eins og syndin ríkti með dauðanum á náðin að ríkja með réttlætinu og leiða til eilífs lífs í Jesú Kristi, Drottni vorum.