Davíð þyrmir lífi Sáls öðru sinni

1 Einhverju sinni komu nokkrir menn frá Síf til Sáls í Gíbeu og sögðu: „Veistu ekki að Davíð er í felum á Hakílahæð gegnt Jesímon?“
2 Sál hélt þegar af stað og fór niður til Sífeyðimerkur. Með honum fóru þrjú þúsund menn, úrvalslið Ísraels, til þess að leita að Davíð í Sífeyðimörk. 3 Sál setti upp herbúðir á Hakílahæð, sem er við veginn gegnt Jesímon, en Davíð hélt kyrru fyrir í eyðimörkinni. Þegar hann komst að því að Sál hafði elt hann inn í eyðimörkina 4 sendi hann njósnara á vettvang og komst þá að því hvar Sál hélt sig. 5 Síðan hélt Davíð af stað og fór þangað sem Sál hafði sett herbúðir sínar. Þá sá Davíð hvar Sál hafði lagst til svefns ásamt Abner Nerssyni, hershöfðingja sínum. Sál svaf í miðjum herbúðunum en hermennirnir lágu umhverfis hann. 6 Þá sneri Davíð sér að Hetítanum Ahímelek og Abísaí Serújusyni, bróður Jóabs, og sagði: „Hver vill koma með mér niður í herbúðirnar til Sáls?“ „Ég skal koma með þér,“ svaraði Abísaí.
7 Þegar Davíð og Abísaí komu til hersins um nóttina fundu þeir Sál, þar sem hann lá sofandi í herbúðunum, og var spjót hans rekið í jörðu við höfðalag hans. Umhverfis hann lágu Abner og hermennirnir. 8 Þá sagði Abísaí við Davíð: „Í dag hefur Guð selt óvin þinn í hendur þér. Nú festi ég hann við jörðina með einu spjótslagi, meira þarf ekki.“ 9 Davíð svaraði Abísaí: „Dreptu hann ekki. Hver getur lagt hönd á Drottins smurða og komist hjá refsingu? 10 Svo sannarlega sem Drottinn lifir,“ hélt Davíð áfram, „mun Drottinn sjálfur ljósta hann, hvort heldur hann deyr, þegar hans tími er kominn eða hann fellur í orrustu. 11 Drottinn forði mér frá því að leggja hönd á Drottins smurða. Taktu spjótið við höfðalag hans og vatnskrukkuna. Við skulum fara héðan.“ 12 Þegar Davíð hafði tekið spjótið og vatnskrukkuna við höfðalag Sáls héldu þeir leiðar sinnar. Enginn sá neitt né varð neins var og enginn vaknaði heldur sváfu allir því að þungur svefn frá Drottni hafði sigið á þá.
13 Þegar Davíð var kominn yfir um dalinn tók hann sér stöðu á fjallstindi þannig að langt var á milli þeirra. 14 Síðan hrópaði Davíð til hersins og Abners Nerssonar: „Abner, svaraðu mér.“ Abner svaraði: „Hver er það sem hrópar á konunginn?“ 15 Þá hrópaði Davíð til Abners: „Átt þú nokkurn jafningja í Ísrael? Hvers vegna gættir þú ekki herra þíns, konungsins? Maður nokkur komst inn í herbúðirnar og ætlaði að drepa konunginn, herra þinn. 16 Þér hefur farist illa. Svo sannarlega sem Drottinn lifir eigið þið skilið að verða drepnir fyrir að gæta ekki herra ykkar, Drottins smurða. Gættu nú að. Hvar er spjót konungsins og vatnskrukkan sem voru við höfðalag hans?“
17 Sál þekkti rödd Davíðs og sagði: „Er þetta rödd þín, Davíð, sonur minn?“ Davíð svaraði: „Já, herra minn og konungur.“ 18 Og hann bætti við: „Hvers vegna ofsækir þú, herra minn, þjón þinn? Hvað hef ég gert? Hvað illt hef ég í huga? 19 Nú ættir þú, herra minn og konungur, að hlusta á það sem þjónn þinn segir: Hafi Drottinn æst þig upp gegn mér fengi hann að finna fórnarilm. En ef það eru menn, þá séu þeir bölvaðir fyrir augliti Drottins. Því að þeir hafa nú hrakið mig í burtu svo að ég á ekki lengur hlut í arfleifð Drottins. Þeir segja: Farðu og þjónaðu öðrum guðum. 20 En blóð mitt skal ekki renna til jarðar fjarri augliti Drottins. Konungur Ísraels er kominn til að leita að einni fló eins og þegar akurhæna er elt uppi í fjöllunum.“
21 Þá svaraði Sál: „Ég hef brotið af mér. Komdu aftur, Davíð, sonur minn. Ég skal aldrei framar gera þér neitt illt fyrst þú virtir líf mitt svo mikils í dag. Ég hef hegðað mér heimskulega og mér hafa orðið á mikil mistök.“ 22 En Davíð svaraði: „Hér er spjót þitt, konungur. Einhver þjóna þinna getur komið hingað yfir og sótt það. 23 Drottinn endurgeldur hverjum manni réttlæti hans og trúfesti. Þó að Drottinn hafi í dag selt þig mér í hendur vildi ég ekki leggja hönd á Drottins smurða. 24 Svo dýrmætt sem líf þitt var í augum mínum nú í dag verður líf mitt í augum Drottins þegar hann bjargar mér úr öllum nauðum.“ 25 Þá sagði Sál við Davíð: „Blessaður sért þú, Davíð, sonur minn. Þér mun lánast allt sem þú tekur þér fyrir hendur.“
Davíð hélt síðan leiðar sinnar en Sál sneri aftur heim.