1Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum,
áður en vondu dagarnir koma
og þau árin nálgast er þú segir um: „Mér líka þau ekki,“
2áður en sólin myrkvast og ljósið
og tunglið og stjörnurnar,
áður en skýin koma aftur eftir regnið,
3þá er þeir skjálfa sem hússins gæta
og sterku mennirnir verða bognir
og kvarnarstúlkurnar hafast ekki að
því að þær eru orðnar fáar
og dimmt er orðið hjá þeim sem líta út um gluggana
4og dyrunum út að götunni er lokað
og hávaðinn í kvörninni minnkar
og menn vakna við fuglskvak
en allir söngvarnir verða lágværir,
5þegar menn eru hræddir við hæðir
og sjá skelfingar á veginum,
þegar möndlutréð stendur í blóma
og engispretturnar dragast áfram
og kapersber hrífa ekki lengur
en maðurinn fer burt til síns eilífðarhúss
og grátendurnir ganga um strætið,
6áður en silfurþráðurinn slitnar
og gullskálin brotnar
og skjólan mölvast við lindina
og hjólið brotnar við brunninn
7og moldin hverfur aftur til jarðarinnar
þar sem hún áður var og andinn til Guðs sem gaf hann.
8Aumasti hégómi, segir prédikarinn, allt er hégómi.

Niðurlag

9 En prédikarinn var spekingur og miðlaði mönnum einnig þekkingu og rannsakaði og kynnti sér og samdi mörg spakmæli. 10 Prédikarinn leitaðist við að finna fögur orð og það sem hann hefur skrifað í einlægni eru sannleiksorð.
11 Orð spekinganna eru hvöss sem broddar og kjarnyrðin eins og fastreknir naglar; þau eru gefin af einum hirði. 12 Sonur minn, þýðstu viðvaranir. Að taka saman margar bækur, á því er enginn endir og mikill lestur þreytir líkamann.
13 Við skulum hlýða á niðurstöðu þessa alls: Óttastu Guð og haltu boðorð hans því að það á hver maður að gera. 14 Guð mun leiða sérhvert verk fyrir dóm sem haldinn verður yfir öllu því sem hulið er, hvort sem það er gott eða illt.