1 Spádómur frá Guði. Orð Drottins til Ísraels fyrir munn Malakí.

Guð elskar Ísrael

2 Ég elska ykkur, segir Drottinn. En þið spyrjið: „Hvernig hefur þú sýnt okkur kærleika þinn?“
Er Esaú ekki bróðir Jakobs? spyr Drottinn. 3 Samt elska ég Jakob og hata Esaú. Ég geri fjalllendi hans að auðn og fæ sjakölum eyðimerkurinnar erfðaland hans. 4 Segi Edómítar: „Við höfum orðið fyrir eyðingu en við munum endurreisa rústirnar,“ þá segir Drottinn hersveitanna: Byggi þeir mun ég niður rífa uns þeir verða kenndir við land ranglætisins og nefndir þjóðin sem Drottinn er ævinlega reiður. 5 Þið munuð sjá það með eigin augum og segja: „Drottinn er mikill, máttur hans nær langt út fyrir land Ísraels.“

Um guðsþjónustuna

6 Sonur heiðrar föður sinn og þjónn húsbónda sinn. Ef ég er faðir, hvar er þá virðingin sem mér ber? Ef ég er húsbóndi, hvar er þá lotningin sem mér ber? Svo segir Drottinn hersveitanna við ykkur, prestar, sem vanvirðið nafn mitt. En þið spyrjið: „Með hverju vanvirðum við nafn þitt?“ 7 Þið berið fram óhreina fæðu á altari mitt og segið: „Hvernig óhreinkum við þig?“ Með því að þið segið: „Borð Drottins getum við vanvirt.“ 8 Ef þið fórnið blindri skepnu, er það ekki rangt? Og þegar þið færið halta eða sjúka skepnu að sláturfórn, er það ekki rangt? Færðu landstjóra þínum slíka skepnu. Ætli hann verði þá ánægður með þig eða velviljaður þér? segir Drottinn hersveitanna. 9 Reynið að milda Guð svo að hann verði okkur náðugur. Sökin er ykkar. Hvernig getur hann tekið nokkrum ykkar vel? spyr Drottinn hersveitanna. 10 Óskandi væri að einhver ykkar lokaði musterisdyrunum svo að þið kveikið ekki eld á altari mínu til einskis. Ég hef enga velþóknun á ykkur, segir Drottinn hersveitanna, og kæri mig ekki um fórnargjöf úr hendi ykkar. 11 Því að frá sólarupprás til sólarlags er nafn mitt mikilsvirt meðal þjóðanna, nafni mínu er alls staðar færð reykelsisfórn og hrein fórnargjöf. Því að nafn mitt er mikið meðal þjóðanna, segir Drottinn hersveitanna. 12 En þið vanhelgið það með því að segja: „Borð Drottins er óhreint og fæðuna á því má vanvirða.“ 13 Þið segið: „Lítið á, hvílík fyrirhöfn,“ og þið blásið í eldinn, segir Drottinn hersveitanna. Þið berið stolið, halt og sýkt fram til fórnar. Á ég að gleðjast yfir þvílíku úr hendi ykkar? spyr Drottinn hersveitanna.
14 Bölvaður sé svikarinn sem heitir Drottni karldýri úr hjörð sinni en fórnar Drottni síðan gallagrip.[ Því að ég er mikill konungur, segir Drottinn hersveitanna, og nafn mitt er mikilsvirt meðal þjóðanna.