Önnur ræða Bildads

1 Bildad frá Súa svaraði og sagði:
2Hversu lengi ætlið þér að halda aftur af yður?
Reynið að skilja, þá getum vér talast við.
3Hvers vegna erum vér metnir eins og skepnur,
óhreinir í augum yðar?
4Þú sem tætir eigið hold í reiði þinni,
á jörðin að eyðast þín vegna
og kletturinn að færast úr stað?
5Ljós óguðlegra slokknar
og bjarminn frá eldi hans lýsir ekki,
6birtan myrkvast í tjaldi hans
því að lampinn yfir honum slokknar.
7Rösklegt fótatak hans deyr út
og hans eigin ráð steypa honum
8því að fætur hans lenda í neti,
hann stígur í möskvana,
9snara grípur hæl hans,
netið heldur honum föstum.
10Á jörðinni bíður hans snara í leyni,
á veginum gildra.
11Ógnir skelfa hann á allar hliðar
og reka hann áfram, skref fyrir skref.
12Ógæfu hans tekur að hungra
og glötunin bíður eftir falli hans.
13Sýki tærir húð hans,
frumburður dauðans gleypir limina.
14Hann verður hrifinn burt úr tjaldinu sem hann taldi öruggt,
verður leiddur fyrir konung skelfinganna.
15Í tjaldi hans býr enginn honum viðkomandi,
brennisteini verður stráð á bústað hans.
16Að neðan skrælna rætur hans,
að ofan visna greinar hans.
17Minning hans verður afmáð af jörðinni,
nafn hans verður ekki nefnt á völlunum.
18Honum verður hrint úr birtu í myrkur
og hann hrakinn úr mannheimi.
19Enga niðja og enga ættingja lætur hann eftir meðal þjóðarinnar
og enginn verður eftir á dvalarstað hans.
20Menn skjálfa í vestri vegna skapadægurs hans,
í austri fer hrollur um menn.
21Þannig fer fyrir bústað hins rangláta
og dvalarstað þess sem þekkir ekki Guð.