Jósef ræður drauma faraós

1 Að tveim árum liðnum dreymdi faraó að hann stæði við Níl 2 og að upp úr ánni kæmu sjö fallegar og vel aldar kýr sem fóru að bíta sefgresið. 3 Á eftir þeim komu sjö aðrar kýr upp úr ánni, ljótar og horaðar. Þær staðnæmdust hjá hinum kúnum á árbakkanum. 4 Síðan átu ljótu og horuðu kýrnar upp sjö fallegu og vel öldu kýrnar. Þá vaknaði faraó.
5 Hann sofnaði aftur og dreymdi annan draum þar sem sjö öx uxu á einni stöng, þrýstin og væn. 6 Á eftir þeim spruttu sjö öx, grönn og skrælnuð af austanvindi. 7 Grönnu öxin svelgdu í sig þrýstnu og fullu öxin sjö. Þá vaknaði faraó og varð ljóst að þetta hafði verið draumur.
8 Um morguninn var honum órótt í skapi. Sendi hann þá eftir öllum spásagnarmönnum Egyptalands og vitringum. Faraó sagði þeim drauma sína en enginn gat ráðið þá fyrir hann.
9 Þá tók yfirbyrlarinn til máls og sagði við faraó: „Ég minnist í dag synda minna. 10 Faraó reiddist okkur yfirbakaranum, þjónum sínum, og hneppti í varðhald í húsi lífvarðarforingjans. 11 Nótt eina dreymdi okkur báða draum, sinn drauminn hvorn, og hafði hvor draumurinn sína merkingu. 12 Þar var með okkur ungur Hebrei sem var í þjónustu lífvarðarforingjans. Við sögðum honum drauma okkar og hann réð þá báða fyrir okkur. 13 Svo fór að ráðning hans á draumunum rættist því að ég var aftur settur í embætti mitt en hinn var hengdur.“
14 Þá sendi faraó eftir Jósef og var hann í skyndi sóttur í fangelsið. Eftir að hann hafði verið klipptur og honum fengin ný klæði gekk Jósef fyrir faraó. 15 Þá sagði faraó við hann: „Mig dreymdi draum sem enginn hefur getað ráðið. En um þig hef ég heyrt að þú ráðir hvern þann draum sem þú heyrir.“ 16 Jósef svaraði: „Ekki er það á mínu valdi en Guð mun veita faraó svar sem boðar honum heill.“
17 Faraó sagði við Jósef: „Mig dreymdi að ég stæði á bakka Nílar 18 þegar upp úr ánni komu sjö vel aldar og fallegar kýr og fóru að bíta sefgresið. 19 Á eftir þeim komu upp sjö aðrar kýr, svo renglulegar, ljótar og horaðar að ég hef engar séð jafnljótar í öllu Egyptalandi. 20 Þessar horuðu og ljótu kýr átu sjö feitu kýrnar. 21 Er þær höfðu étið þær var það ekki á þeim að sjá því að þær voru jafnljótar og áður. Þá vaknaði ég. 22 Mig dreymdi líka að ég sæi að sjö öx uxu á einni stöng, full og væn. 23 Á eftir þeim spruttu sjö kornlaus öx, grönn og skrælnuð af austanvindi, 24 og grönnu öxin svelgdu í sig vænu öxin sjö. Ég hef sagt spásagnarmönnunum frá þessu en enginn gat útskýrt það fyrir mér.“
25 Jósef sagði við faraó: „Það sem faraó dreymdi er einn og sami draumurinn. Guð hefur birt faraó hvað hann hefur í hyggju. 26 Sjö vænu kýrnar merkja sjö ár og sjö vænu öxin merkja einnig sjö ár. Þetta er einn og sami draumur. 27 Sjö mögru og ljótu kýrnar, sem komu á eftir hinum, merkja sjö ár og sjö tómu öxin, sem skrælnuð voru af austanvindi, merkja sjö ára hungursneyð. 28 Eins og ég hef þegar sagt faraó þá hefur Guð birt honum hvað hann hefur í hyggju. 29 Sjö allsnægtaár koma um allt Egyptaland. 30 Í kjölfar þeirra kemur sjö ára hungursneyð svo að allar nægtirnar í Egyptalandi gleymast. Hungursneyðin mun eyða landið. 31 Nægtirnar verða óþekktar í landinu vegna hungursneyðarinnar sem á eftir kemur því að hún verður mjög mikil. 32 Ástæðan til þess að þig dreymdi tvisvar hið sama er sú að þetta er fastráðið af Guði og Guð mun fljótlega láta það verða.
33 Þess vegna ætti faraó nú að svipast um eftir hyggnum og vitrum manni og setja hann yfir Egyptaland. 34 Faraó láti til sín taka og skipi umsjónarmenn yfir landið og taki fimmtung af afrakstri Egyptalands á sjö nægtaárunum. 35 Á góðu árunum, sem fara í hönd, skulu þeir safna vistum og fá faraó kornbirgðirnar til umráða og geyma þær í borgunum. 36 Vistirnar skulu vera forði fyrir landið á mögru árunum sjö, sem koma munu yfir Egyptaland, þannig að hungursneyðin eyði ekki landinu.“

Jósef verður ráðsherra

37 Faraó og öllum þjónum hans leist vel á þessi ráð. 38 Faraó sagði við þjóna sína: „Er annan slíkan mann að finna sem Guðs andi býr í?“ 39 Faraó sagði við Jósef: „Af því að Guð hefur birt þér allt þetta þá er enginn svo hygginn og vitur sem þú. 40 Ég set þig yfir hús mitt og öll þjóð mín mun hlýða þér. Aðeins hásætið hef ég fram yfir þig.“
41 Faraó sagði við Jósef: „Ég set þig yfir allt Egyptaland.“ 42 Hann tók innsiglishring sinn af hendi sér og dró á hönd Jósefs, lét síðan færa hann í dýrindis línklæði og hengdi gullkeðju um háls honum. 43 Hann lét aka honum í næstbesta vagni sínum og menn hrópuðu fyrir honum: „Abrek“, [ og hann setti hann yfir allt Egyptaland.
44 Faraó sagði við Jósef: „Ég er faraó, enginn hreyfi legg né lið í Egyptalandi nema þú skipir svo fyrir.“ 45 Og faraó nefndi Jósef Safenat-panea og gaf honum fyrir konu Asenat, dóttur Pótífera, prests í Ón. Síðan ferðaðist Jósef um Egyptaland.
46 Jósef var þrítugur að aldri er hann gekk í þjónustu faraós Egyptalandskonungs. Síðan hélt Jósef burt frá faraó og ferðaðist um allt Egyptaland.
47 Nægtaárin sjö varð mikil uppskera í landinu. 48 Þá lét Jósef safna saman öllum vistum nægtaáranna sjö í Egyptalandi og safnaði vistunum í borgirnar. Í sérhverja borg safnaði hann vistunum af ökrunum umhverfis hana. 49 Jósef hrúgaði saman korni sem sandi á sjávarströnd. Það var svo mikið að menn gáfust upp á að mæla það því að það varð ekki mælt.
50 Jósef fæddust tveir synir áður en fyrsta hallærið kom. Þá syni fæddi Asenat honum, dóttir Pótífera, prests í Ón. 51 Jósef nefndi hinn frumgetna Manasse, „því að Guð hefur látið mig gleyma bæði þjáningum mínum og ætt,“ sagði hann. 52 En hinn nefndi hann Efraím, „því að Guð hefur gert mig frjósaman í landi eymdar minnar,“ sagði hann.
53 Þegar nægtaárin sjö í Egyptalandi voru á enda 54 tóku við sjö ár hungursneyðar eins og Jósef hafði sagt. Í öllum löndum var hallæri en um allt Egyptaland var til brauð.
55 Þegar hungursneyðin gekk síðan yfir allt Egyptaland heimtaði lýðurinn brauð af faraó en hann svaraði: „Farið til Jósefs og gerið eins og hann segir ykkur.“ 56 Hungrið gekk yfir allan heiminn og Jósef opnaði öll forðabúrin og seldi Egyptum korn er hungrið svarf að í Egyptalandi. 57 Menn komu þá frá öllum löndum til Egyptalands til þess að kaupa korn hjá Jósef því að hungrið svarf hvarvetna að.