Boðað fyrst og fremst

1 Ég minni ykkur, systkin,[ á fagnaðarerindið sem ég boðaði ykkur, sem þið og veittuð viðtöku og þið standið einnig stöðug í. 2 Það mun og frelsa ykkur ef þið haldið fast við það sem ég boðaði ykkur, ella hafið þið til einskis tekið trú. 3 Því það kenndi ég ykkur fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna synda okkar samkvæmt ritningunum, 4 að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum 5 og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf. 6 Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu sem flestir eru á lífi allt til þessa en nokkrir eru sofnaðir. 7 Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum.
8 En síðast allra birtist hann einnig mér, eins og ótímaburði. 9 Því ég er sístur postulanna og er ekki þess verður að kallast postuli með því að ég ofsótti söfnuð Guðs. 10 En af Guðs náð er ég það sem ég er og náð hans við mig hefur ekki orðið til ónýtis heldur hef ég erfiðað meira en þeir allir, þó ekki ég heldur náð Guðs sem með mér er. 11 Hvort sem það því er ég eða þeir, þá prédikum við þannig og þannig hafið þið trúna tekið.

Afleiðing upprisu Krists

12 Ef við nú prédikum að Kristur sé upprisinn frá dauðum, hvernig geta þá nokkur ykkar sagt að dauðir rísi ekki upp? 13 Ef ekki er til upprisa dauðra, þá er Kristur ekki heldur upprisinn 14 en ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun okkar, ónýt líka trú ykkar. 15 Við reynumst þá vera ljúgvottar um Guð þar eð við höfum vitnað um Guð að hann hafi uppvakið Krist, sem hann hefur ekki uppvakið, svo framarlega sem dauðir rísa ekki upp. 16 Ef dauðir rísa ekki upp er Kristur ekki heldur upprisinn 17 en ef Kristur er ekki upprisinn er trú ykkar fánýt. Syndir ykkar eru þá ekki enn í burtu teknar. 18 Þá eru einnig þau glötuð sem sofnuðu í trú á Krist. 19 Ef von okkar til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum við aumkunarverðust allra manna.
20 En nú er Kristur upprisinn frá dauðum, frumgróði þeirra sem sofnuð eru. 21 Eins og dauðinn kom með manni, þannig kemur upprisa dauðra með manni. 22 Eins og allir deyja vegna sambands síns við Adam, svo munu allir lífgaðir verða vegna sambands síns við Krist. 23 En sérhver í sinni röð: Kristur er frumgróðinn,[ næst koma þeir sem játa hann þegar hann kemur. 24 Síðan kemur endirinn er Kristur selur ríkið Guði föður í hendur, er hann hefur að engu gert sérhverja tign, sérhvert veldi og kraft. 25 Því að Kristur á að ríkja uns hann hefur lagt alla fjendurna að fótum sér. 26 Dauðinn er síðasti óvinurinn sem verður að engu gerður. 27 „Allt hefur hann lagt undir fætur honum.“ Þegar segir að allt hafi verið lagt undir hann er augljóst að sá er undan skilinn sem lagði allt undir hann. 28 Þegar allt hefur verið lagt undir hann mun og sonurinn sjálfur skipa sig undir föðurinn er lagði alla hluti undir hann svo að Guð verði allt í öllu.
29 Til hvers eru menn annars að láta skírast fyrir hina dánu? Ef dauðir rísa alls ekki upp, hvers vegna láta menn þá skíra sig fyrir þá? 30 Hví skyldi ég vera að leggja mig í lífshættu hverja stund? 31 Svo sannarlega sem ég má miklast af ykkur í Kristi Jesú, Drottni vorum: Dauðinn vofir yfir mér hvern dag. 32 Hafi ég eingöngu að hætti manna barist við villidýr í Efesus, hvaða gagn hefði ég þá af því? Ef dauðir rísa ekki upp, etum þá og drekkum, því að á morgun deyjum við! 33 Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum. 34 Vaknið til fulls og hættið að syndga. Sum ykkar þekkja ekki Guð. Það segi ég ykkur til blygðunar.

Hvernig rísa dauðir upp?

35 En nú kynni einhver að spyrja: „Hvernig rísa dauðir upp? Hvaða líkama hafa þeir þegar þeir koma?“ 36 Heimskulega spurt! Það sem þú sáir lifnar ekki aftur nema það deyi. 37 Og er þú sáir þá er það ekki sú jurt er vex upp síðar sem þú sáir, heldur bert frækornið, hvort sem það nú heldur er hveitikorn eða annað fræ. 38 En Guð gefur því líkama eftir vild sinni og hverri sæðistegund sinn líkama. 39 Ekki eru allir líkamir eins heldur hafa mennirnir sinn, kvikféð annan, fuglarnir sinn og fiskarnir annan. 40 Til eru himneskir líkamir og jarðneskir líkamir. En vegsemd hinna himnesku er eitt og hinna jarðnesku annað. 41 Eitt er ljómi sólarinnar, annað ljómi tunglsins og enn annað ljómi stjarnanna því að stjarna ber af stjörnu í ljóma.
42 Þannig er og um upprisu dauðra. Sáð er forgengilegu en upp rís óforgengilegt. 43 Sáð er í vansæmd en upp rís í vegsemd. Sáð er í veikleika en upp rís í styrkleika. 44 Sáð er jarðneskum líkama en upp rís andlegur líkami. Ef jarðneskur líkami er til, þá er og til andlegur líkami. 45 Þannig er og ritað: „Hinn fyrsti maður, Adam, varð lifandi sál,“ hinn síðari Adam lífgandi andi. 46 En hið andlega kemur ekki fyrst heldur hið jarðneska, því næst hið andlega. 47 Hinn fyrsti maður er frá jörðu, jarðneskur, hinn annar maður er frá himni. 48 Eins og hinn jarðneski var, þannig eru og hinir jarðnesku og eins og hinn himneski, þannig eru og hinir himnesku. 49 Og eins og við höfum borið mynd hins jarðneska munum við einnig bera mynd hins himneska.
50 Það segi ég, systkin,[ að hold og blóð getur eigi erft Guðs ríki, eigi erfir heldur hið forgengilega óforgengileikann. 51 Sjá, ég segi ykkur leyndardóm: Við munum ekki öll deyja en öll munum við umbreytast, 52 í einni svipan, á einu augabragði, við hinn síðasta lúður. Því lúðurinn mun gjalla og þá munu dauðir upp rísa óforgengilegir og við munum umbreytast. 53 Forgengilegir og dauðlegir líkamir okkar eiga að breytast í óforgengilega líkami sem dauðinn nær ekki til.
54 En þegar það gerist og hið forgengilega breytist og verður ódauðlegt, þá rætist það sem ritað er:
Dauðinn er uppsvelgdur í sigur.
55 Dauði, hvar er sigur þinn?
Dauði, hvar er broddur þinn?

56 En syndin er broddur dauðans og lögmálið afl syndarinnar. 57 Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist! 58 Þess vegna, mín elskuðu systkin,[ verið staðföst, óbifanleg, síauðug í verki Drottins. Þið vitið að Drottinn lætur erfiði ykkar ekki verða til ónýtis.