Varað við lausung

1Sonur minn, gefðu gaum að speki minni,
ljáðu eyra þitt hyggindum mínum
2til þess að þú varðveitir mannvit
og varir þínar geymi þekkingu.
3Hunang drýpur af vörum framandi konu
og munnur hennar er hálli en olía.
4En síðar verður hún beiskari en malurt
og beitt eins og tvíeggjað sverð.
5Fætur hennar feta niður til dauðans,
spor hennar liggja til heljar.
6Hún ratar ekki á leið lífsins,
brautir hennar eru á reiki
og áttum hefur hún glatað.
7Heyrið mig því, synir,
og víkið ekki frá orðum mínum.
8Leggðu leið þína langt frá henni
og komdu hvergi nærri dyrum hennar
9svo að þú gefir ekki öðrum æskuþrótt þinn
og líf þitt hörðum húsbónda,
10svo að framandi menn nærist ekki af þreki þínu
og þú erfiðir í annarra húsi
11og þú andvarpir að lokum,
þegar líkami þinn og hold veslast upp,
12og segir: „Hví fyrtist ég við leiðsögn
og lét mér umvöndun í léttu rúmi liggja,
13að ég skyldi ekki hlýða rödd kennara minna
og hneigja eyra mitt til þeirra sem fræddu mig.
14Minnstu munaði að ég rataði í harðar raunir
á dómþingi safnaðarins.“
15Drekktu vatn úr brunni þínum
og ferskt vatn úr eigin lind.
16Eiga lindir þínar að flóa út á götuna
og lækir þínir út á torgin?
17Þínar skulu þær vera
og ekki falla öðrum í skaut.
18Uppspretta þín sé blessuð
og gleddu þig yfir eiginkonu æsku þinnar,
19ástarhindinni, dádýrinu yndislega.
Brjóst hennar geri þig ætíð drukkinn
og ást hennar fjötri þig ævinlega.
20Hví skyldir þú, sonur minn, láta aðra konu töfra þig
og taka framandi konu í faðm þér?
21Vegir hvers manns blasa við Drottni,
hann gætir að öllum leiðum hans.
22 Misgjörðir hins óguðlega fanga hann,
hann lætur fangast í snörur eigin synda.
23 Hann deyr vegna skorts á aga,
heimskan stígur honum til höfuðs.