Reglur um páskahald

1 Í fyrsta mánuði annars árs eftir brottför Ísraelsmanna frá Egyptalandi ávarpaði Drottinn Móse í Sínaíeyðimörk og sagði:
2 „Ísraelsmenn skulu halda páska á tilteknum tíma. 3 Fjórtánda dag þessa mánaðar, í rökkrinu áður en dimmt er orðið, skuluð þið halda þá. Þið skuluð halda þá að öllu leyti eftir lagaákvæðum og reglum um þá.“
4 Móse bauð Ísraelsmönnum að halda páska 5 og þeir héldu páska í Sínaíeyðimörk, í rökkrinu áður en dimmt var orðið, fjórtánda dag fyrsta mánaðarins. Ísraelsmenn gerðu nákvæmlega allt sem Drottinn hafði boðið Móse.
6 Þarna voru menn sem höfðu saurgast af líki og gátu því ekki haldið páska þennan dag. Þeir gengu fyrir Móse og Aron sama dag 7 og sögðu við hann: „Við höfum saurgast af líki. Hvers vegna er okkur bannað að færa Drottni gjöf á tilsettum tíma með öðrum Ísraelsmönnum?“ 8 Móse svaraði þeim: „Bíðið við. Ég ætla að heyra hvaða fyrirmæli Drottinn gefur um ykkur.“
9 Drottinn talaði til Móse og sagði:
10 „Segðu við Ísraelsmenn: Þegar einhver ykkar eða einhver niðja ykkar hefur saurgast af líki eða er í langferð en ætlar að halda Drottni páska, 11 skal hann halda þá í rökkrinu áður en dimmt er orðið fjórtánda dag annars mánaðar. Þeir skulu neyta páskalambsins með ósýrðu flatbrauði og beiskum jurtum. 12 Þeir mega hvorki leifa neinu af því til næsta morguns né brjóta í því neitt bein. Þeir skulu fara í öllu eftir lögunum um páska. 13 En vanræki sá sem er hreinn og ekki er á ferðalagi að halda páska skal hann upprættur úr þjóð sinni því að hann hefur ekki fært fram gjöf til Drottins á tilteknum tíma. Sá maður skal taka á sig sekt sína. 14 Ef aðkomumaður, sem nýtur verndar hjá ykkur, ætlar að halda Drottni páska skal hann halda þá samkvæmt lögum og reglum um páska. Ein lög skulu gilda hjá ykkur, þau sömu fyrir aðkomumann og þann sem fæddur er í landinu.“

Skýið yfir tjaldbúðinni

15 Daginn, sem tjaldbúðin var reist, huldi skýið sáttmálstjaldið. Og frá kvöldi til morguns hvíldi yfir því eitthvað sem líktist eldi. 16 Þannig var það ávallt, skýið huldi það en eitthvað, sem líktist eldi, var yfir því um nætur. 17 Jafnan þegar skýið hóf sig upp frá tjaldinu lögðu Ísraelsmenn af stað og þar sem skýið settist að settu þeir búðir sínar. 18 Ísraelsmenn lögðu af stað að boði Drottins og settu búðir sínar að boði Drottins. Í hvert sinn sem skýið var yfir tjaldbúðinni dvöldust þeir í búðum sínum.
19 Þegar skýið var lengi um kyrrt yfir tjaldbúðinni fylgdu Ísraelsmenn fyrirmælum Drottins og héldu kyrru fyrir. 20 Stundum var skýið fáeina daga yfir tjaldbúðinni. Þá settu þeir búðir sínar að boði Drottins og lögðu af stað að boði Drottins. 21 Þegar skýið var yfir tjaldbúðinni næturlangt og hóf sig upp að morgni lögðu þeir af stað.
22 Þegar skýið var yfir tjaldbúðinni tvo daga, einn mánuð eða lengur voru Ísraelsmenn um kyrrt í tjaldbúðunum en hvenær sem það hóf sig upp lögðu þeir af stað. 23 Þeir settu búðir sínar að boði Drottins og lögðu af stað að boði Drottins. Þeir fylgdu þeim fyrirmælum Drottins sem Móse hafði flutt.