Og Drottinn talaði við Mósen í eyðimörku Sínaí á öðru ári eftir það þeir voru útfarnir af Egyptalandi, á þeim fyrsta mánaði og sagði: „Lát Ísraelssonu halda páska á sínum tíma eftir allri sinni skikkan og öllum sínum rétti þann fjórtánda dag í þessum mánaði að aftni.“ [ Og Móses talaði við Ísraelssonu að þeir skyldu halda páska. Og þeir héldu páska þann fjórtánda dag í þeim fyrsta mánaði móti kvöldi í eyðimörku Sínaí. Og Ísraelssynir gjörðu allt það sem Drottinn hafði boðið Móse.
Þá voru þar nokkrir menn sem saurgast höfðu af framliðnum manni so þeir gátu ekki haldið páskana á þeim degi. Þeir gengu fyrir Mósen og Aron þann sama dag og sögðu: „Vér erum óhreinir af framliðnum manni. Því skulum vér þar fyrir vera minniháttar að vér megum eigi bera vorar gáfur inn fyrir Drottin á sínum tíma á meðal Ísraelssona?“ En Móses sagði til þeirra: „Hafið biðlund, ég vil heyra hvað Drottinn býður yður.“ Og Drottinn talaði við Mósen og sagði: „Tala þú til Ísraelssona og segðu: Þegar að nokkur saurgast af einum framliðnum eða er í fjarska við yður á sinni reisu eða á meðal yðar ættmanna, sá sami skal líka vel halda Herrans páska, en þó á þann fjórtánda dag í þeim öðrum mánaði á móti kvöldi, og skal eta það með ósýrðu brauði og beisku salti og láta þar ekki neitt afleyfast til annars morguns og ekkert bein skulu þeir brjóta í því og þeir skulu halda það í allan máta so sem menn plaga páska að halda. [
En hvör hann er hreinn og er ei í fjarlægð á sinni reisu og hélt þó ekki páskana, hans sál skal afmást frá hans fólki, sökum þess að hann hefur ekki fært Drottni sína gáfu á sínum tíma, hann skal bera sína synd. Og þá þar býr nokkur framandi hjá yður, hann skal og halda Drottins páska og hann skal halda þá eftir páskanna skikkan og rétti. Þessi skikkan skal vera eins fyrir alla, so þann framanda so sem þann óðalborna.“
Og á þeim degi sem tjaldbúðin var uppreist þá kom eitt ský og huldi tjaldbúðina vitnisburðarins og það var að sjá yfir tjaldbúðinni frá kvöldi og til morguns þvílíkast sem eirn eldur. [ So skeði jafnan að skýið huldi hana og um nætur var það að sjá sem eirn eldur. Og þá skýið tók sig upp frá tjaldbúðinni þá ferðuðust Ísraelssynir sína leið. Og hvar sem skýið staðnæmdist þar settu Ísraelssynir sínar tjaldbúðir. Ísraelssynir ferðuðust eftir orði Drottins og eftir hans orði lögðu þeir sig. Og so lengi sem skýið var yfir tjaldbúðinni, so lengi láu þeir kyrrir. Og þá skýið var marga daga yfir tjaldbúðinni þá gættu Ísraelssynir varðhalds Drottins og ferðuðust hvörgi.
Og þegar so bar að að skýið var nokkra daga samfleytt yfir tjaldbúðinni þá settu þeir sínar herbúðir eftir orði Drottins, so og ferðuðust þeir áleiðis eftir orði Drottins. Þá skýið var þar frá kvöldi til morguns og tók sig þá upp þá ferðuðust þeir framvegis. Eða þá það tók sig upp um daga eða um nætur þá ferðuðust þeir sína leið. En þá það var tvo daga eða eirn mánuð eða nokkuð lengur yfir tjaldbúðinni þá voru Ísraelssynir kyrrir og ferðuðust hvörgi. Og þá það tók sig upp þá ferðuðust þeir. Því eftir Drottins munni reistu þeir sínar herbúðir og eftir Drottins munni ferðuðust þeir. Og þeir gættu að Drottins varðhaldi eftir orðum Drottins fyrir Mósen.