XIII.

Hver maður sé valdstjórninni undirgefinn þeirri sem yfir honum stjórnar. [ Því að sú er eigi nokkur valdstjórn utan hún sé af Guði. En hvar valdstjórnin er þá er hún af Guði skikkuð. Hver hann mótstendur nú valdstjórnina sá stendur í móti Guðs skikkan. En þeir sem í móti standa munu yfir sig taka dómsáfelli. Því að valdið er ei góðum verkum heldur vondum til skelfingar. En viltu eigi óttast valdstjórnina þá gjör hvað gott er og muntu lofstír af henni hafa. Því að hún er Guðs þénari þér til góða. En ef þú gjörir hvað vont er máttu óttast því að hún ber eigi sverðið forgefins. Því að hún er Guðs þénari og hefndarmaður að aga þann sem illa gjörir. Hvar fyrir oss byrjar undirgefnum að vera, eigi alleinasta hirtingarinnar vegna heldur og líka einnin fyrir samviskunnar sakir. Þar fyrir hljóti þér og skatt að gjalda því að þeir eru Guðs þénarar sem slíkar verndanir skulu handtéra.

Því gefið það hverjum sem þér pligtugir eruð: Þeim skatt sem skattur heyrir, þeim toll er tollur heyrir, þeim ótta er ótti heyrir, þeim heiður sem heiðran heyrir. Verið öngum skyldugir nema það þér elskið hver annan. Því hver hann elskar annan sá hefur lögmálið uppfyllt. Því að það sem þar segist: „Þú skalt eigi hór drýgja,“ „eigi mann vega,“ „eigi stela,“ „eigi ljúgvitni mæla,“ „þú skalt og eigi girnast,“ og ef þar er nokkurt annað boðorð þá felst það í þessum orðum: „Elska skaltu náunga þinn sem sjálfan þig.“ Elskan gjörir náunganum ekki mein. Því er nú elskan lögmálsins uppfylling.

Og með því að vér vitum slíkt, einkum þá stund það tími er upp að rísa af svefninum af því að vor heill er nú nær heldur en þá vér trúðum. Nóttin er umliðin en dagurinn tekur að nálgast. Leggjum því af verkin myrkranna og ískrýðumst herklæðum ljóssins svo að vér göngum siðsamlega sem á degi, eigi í ofáti eða ofdrykkju, eigi í legukofum og munaðlífi, eigi í þráttan né öfundsýki, heldur íklæðist þér Drottni Jesú Christo. Og [ rækið holdið þó so það fremji ekki sínar girndir.