III.

Hann gekk og inn í samkunduhúsið aftur. Og þar var einn sá maður er hafði visnaða hönd. [ Og þeir geymdu að hvert hann læknaði hann á þvottdegi so að þeir mættu áklaga hann. Og hann sagði til mannsins þess sem visna hafði höndina: „Stattu upp hér í miðið.“ Hann sagði og til þeirra: „Hvort hæfir á þvottdögum vel að gjöra eður illa, lífinu til frelsis að gjöra eður því að tortína?“ En þeir þögðu allir. Hann leit þá til þeirra með reiðisvip og angraðist viður þeirra hjartans blindleik og segir so til mannsins: „Réttu út þína hönd.“ Og hann rétti hana út og hans hönd varð heil líka sem hin önnur.

En Pharisei gengu út og gjörðu strax sín ráð með Herodes þénurum í móti honum hvernin helst að þeir fengi tortýnt honum. [ En Jesús veik þaðan til sjávar með sína lærisveina. Og margt fólk af Galilea og úr Judea þa fylgdi honum eftir og þeir sem voru af Jerúsalem og Idumea og þeir hinumegin Jórdanar og þeir sem byggðu kringum Tyro og Sidonem, mikill mannfjöldi, sem heyrðu hvað hann gjörði og komu til hans.

Hann sagði og til sinna lærisveina að þeir skyldu leigja honum skip fyrir fólksins sakir að það þrengdi honum eigi því að hann læknaði margan. [ En þeir tráðu að honum öllum þeim er plágaðir voru að þeir mættu fá að snerta hann. Og nær eð óhreinir andar sáu hann féllu þeir niður fyrir honum og kölluðu upp, so segjandi: „Þú ert Guðs sonur!“ En hann straffaði þá harðlega so að þeir opinberuðu hann eigi.

Hann gekk og upp á fjallið og kallaði til sín þá hann vildi sjálfur og þeir komu til hans. [ En hann hagaði so til að þeir tólf voru hjá honum og hann sendi þá út að prédika og gaf þeim vald til sóttir að lækna og djöfla út að reka. Og á Simonem setti hann Péturs nafn og á Jacobum son Zebedei og Johannem bróður Jakobs, þeim gaf hann nafnið Bnehargen, hvað útþýðist „Reiðarþrumusynir“. Og Andream, Philippum, Bartholomeum, Mattheum og Thomam og Jacobum son Alphei og Taddheum og Symon af Chananea og Júdas Ískaríot sá er sveik hann.

Og þá er þeir komu til herbergis kom fólkið enn saman aftur so að þeir gátu eigi matast fyrir því. Og þá er þeir heyrðu það sem með honum voru gengu þeir út og vildu hamla honum því að þeir sögðu að hann mundi ganga af vitinu. En hinir skriftlærðu sem ofan frá Jerúsalem voru farnir sögðu: „Hann hefir Belsebúb og fyrir djöflahöfðingja þá rekur hann fjandur út.“ Og að þeim samankölluðum sagði hann í eftirlíking til þeirra:

„Hvernin fær andskotinn annan andskotann útrekið? [ Því ef ríkið skiptist í sjálfu sér þá fær það ríki eigi staðið. Og ef eitt hús tvístrast í sjálfu sér þá fær það hús eigi staðið. Og ef andskotinn rís upp í móti sjálfum sér á er hann við sig ósamþykkur og fær eigi staðið heldur hefur hann þá ein endalok. Enginn fær og inngengið í hús hins öfluga og burtgripið hans húsbúnað nema að hann bindi áður hinn öfluga og megi hann þá so ræna hans hús.

Sannlega segi eg yður: [ Allar syndir fyrigefast mannanna sonum og einnin guðlastanir þar þeir lasta Guð með. En sá er lastar helgan anda hann hefir eigi fyrirgefning að eilífu heldur verður hann sekur eilífs dóms.“ Því að þeir sögðu: „Hann hefur óhreinan anda.“

Þar komu þá móðir hans og bræður, stóðu þar úti fyrir, sendu til hans, kallandi á hann (og fólkið sat kringum hann) og þeir sögðu til hans: „Sjá, móðir þín og bræður þínir standa þar úti og spyrja að þér.“ Hann svaraði þeim og sagði: [ „Hver er mín móðir og mínir bræður?“ Þá leit hann og um sig til lærisveinanna er sátu í kringum hann og sagði: „Sjáið, það er mín móðir og mínir bræður. Því að hver er gjörir Guðs vilja sá er minn bróðir, mín systir og mín móðir.“