IX.

Um þetta bil varð Antiochus að fara úr Persialandi með skömm. Því að þá hann var kominn til Persepolen og hugðist að ræna musterið og vinna staðinn þá tóku borgarmenn sig upp og vörðust og ráku Antiochum aftur til baka so að hann hlaut að snúa þar frá með skömm. [ En þegar hann var í Ekbatana þá komu honum þau tíðindi hvernin þeim Nicanor og Timotheus hafði gengið. Þá varð hann gramur og hugsaði að hefna þessarar smánar á Gyðingum og reisti dag og nótt að hann kæmi sem fyrst þangað því að reiði Guðs rak hann af því hann hafði so drambsamlega talað að jafnsnart sem hann kæmi til Jerúsalem þá skyldi hann gjöra staðinn að einnri dauðra manna gryfju.

Þar fyrir straffaði almáttigur Drottinn Ísraels Guð hann með leynilegri plágu hverja enginn kunni að græða. [ Því að jafnsnart sem hann hafði úttalað þau orð þá fékk hann slíkan verk í iðrin að enginn kunni honum bót að ráða. Og að vísu kom það maklega yfir hann af því að hann hafði aðra með margháttuðum og fáheyrðum píslum pínt. Þó samt lét hann ei af sinni drambsemi heldur varð hann því ólmari og brann af illsku til Gyðinga og flýtti sér og í því bili hann renndi fram þá féll hann so hart af vagninum að það tók út í hvern hans lið. Þá varð hann (sem fyrr fyrr af miklum metnaði lét sér þykja að hann vildi bjóða sjávarhafinu og setja fjöllin hvert á annað ofan) af einu falli að láta bera sig á börum so að hver sá ljóslega Guðs magt á honum.

Þar uxu og maðkar af hans bölvaða líkama og fúnaði með stórri pínu að heil stykkin féllu af líkamanum og slík ólykt var af honum að enginn kunni hana að líða. Og sá sem fyrr lét sér þykja að hann næði upp í himininn þann gat enginn borið vegna ólíðanlegrar fýlu. Þá varð hann að láta af sinni drambsemi og játa sig af því Guð hafði so plágað hann og hans kvöl varð ætíð meiri.

Og að síðustu þá hann gat ei sjálfur lengur liðið þá ólykt þá sagði hann: „Rétt er að menn auðmýki sig fyrir Guði og að dauðlegur maður drambi ekki so að hann láti sér þykja hann sé líkur Guði.“ Og sá argi skálkur hóf sig upp og bað til Drottins hver ekki vildi nú lengur vera honum líknsamur og hét að þann heilaga stað sem hann hafði áður hugsað að afmá og að einni dauðra manna gröf að gjöra vildi hann frjálsan láta. Og Gyðingana hverja hann fyrr ekki hélt verðuga greftrunar heldur að þeir skyldu gefast fuglum og dýrum að átu þá vildi hann nú með frí láta vera so sem Athenas borgarmenn. [ Og það heilaga musterið sem hann fyrr rænt hafði, það vildi hann prýða með alls kyns fegurð og gefa þangað miklu fleiri heilög verkfæri en þar höfðu fyrr verið. Og hvað þar þyrfti til offurs árlega það vildi hann til láta af sinni eigin rentu. Þar að auk skyldi hann verða sjálfur einn Gyðingur og í öllum stöðum prísa og boða Guðs veldi.

En þegar sjúkdómurinn vildi ekki af honum létta það Guðs réttlætisreiði var so harðlega yfir hann komin þá örvænti hann sér lífs og skrifaði þetta auðmýktarbréf til Gyðinga sem hér eftir fylgir:

„Antiochus kóngur og höfðingi sendir þeim frómu Gyðingum sína kveðju. [

Ef að þér með yðrum börnum eruð hraustir og heilbrigðir og yður gengur vel það þakka eg Guði en eg em mjög sjúkur.

Með því að eg gjarna vil hafa almennilegan frið sem það gjörist vel þörf með því eg em nú orðinn sjúkur á þessari reisu frá Persialandi þá hugsa eg náðarlega upp á yðar trú og vinskap þó að eg voni að mér muni batna. Og af því að minn faðir þá hann reisti um upplönd þá setti hann kóng eftir sig svo að menn vissu (ef hann kynni nokkuð að skaða eður ef ófriður upp kæmi) hver herrann skyldi vera og að ríkið ekki skyldi sturlast, svo og eg. Með því eg sé að nálægir höfðingjar stunda eftir mínu ríki, ef mér illa gengur þá hefi eg gjört minn son Antiochum að kóngi hvern eg hefi oftsinnis yður trúlega bífalað þá eg hefi í upplöndin reist. [ Þennan sama bífala eg yður enn nú. Þar fyrir áminni og bið eg yður fyrir allra velgjörninga sakir sem eg hefi almennilega og einum og sérhverjum auðsýnt að þér framvegis haldið vináttu og trú við mig og minn son. Því að eg vona þess til hans að hann skal hegða sér góðmannlega og vinsamlega við yður og fylgja mínum siðum.“

So deyði þessi morðingi og guðlastari Antiochus með stórum harmkvælum svo sem hann hafði öðrum mönnum gjört, í ókunnu landi og í eyðimörku, með einum hörmulegum afgangi. Og Philippus sem með honum var uppfóstraður lét jarða hann. Og af því að hann óttaðist Antiochi son flýði hann í Egyptaland til kóng Ptolomeus Philometor.