XIX.

Eftir þetta heyrði eg mikla rödd mikils fjölda á himni segjandi: „Halelúja! Heilsa og heiður, dýrð og kraftur sé Guði vorum Drottni því að sannir og réttvísir eru hans dómar það hann fordæmdi hina miklu hórkonu sem jörðina meður sinni hóran fordjarfaði og blóðs sinna þjóna af hennar hendi hefur hann hefnt.“ Og þeir sögðu enn aftur í annað sinn: „Halelúja!“ Og hennar reykur gekk upp eilíflega. Og þeir fjórir og tuttugu öldungar og þau fjögur dýrin félllu fram og tilbáðu Guð hver eð á stólnum situr og sögðu: „Amen. Halelúja!“ Og ein rödd gekk út af stólnum sem sagði: „Lofið vorn Guð, allir hans þjónar og þeir hann óttast, bæði smáir og stórir.“

Og eg heyrða rödd mikils skara og sem nið mikilla vatna og svo sem rödd megnrar reiðarþrumu. Þeir sögðu: „Halelúja! Því að Guð almáttigur hefur ríkið undir sig lagt. Fögnum og verum glaðir og gefum honum dýrð því að brúðkaup lamsbsins er komið og þess húsfrú hefur sig tilreitt. Og henni varð gefið það hún skyldi umklæða sig með hreinu og skínandi silki. En það silki eru réttlætingar heilagra.“ Og hann sagði til mín: „Sælir eru þeir sem til kveldmáltíðar lambsins eru kallaðir.“ Og hann sagði til mín: „Þetta eru sannarleg Guðs orð.“ Og eg féll niður fyrir onum til fóta hans að eg tilbæði hann. Og hann sagði til mín: „Sjá til að þú gjörir það ei. Eg em þinn samþjón og þinna bræðra og þeirra sem hafa Jesú vitnisburð. Tilbið þú Guð. En vitnisburður Jesú er andi spádómsins.“

Og eg sá himinninn opinn og sjá, að hvítur hestur og sá sem þar sat á hét Trúr og Sannarlegur og dæmir og stríðir meður réttlæti. [ Og hans augu eru sem eldslogi og á hans höfði margar kórónur og hann hafði nafn skrifað það enginn þekkti nema sjálfur hann og var klæddur því klæði sem með blóði var dreift og hans nafn hét Guðs orð. Og honum eftir fylgdi allur her sá á himni er á hvítum hestum, klæddir í hvítu og hreinu silki. Og af hans munni framgekk tvíeggjað sverð það hann slægi þar með heiðnar þjóðir og hann mun stjórna þeim meður járnvendi. Og hann fóttreður þrúguna vínsins bræðinnar og reiði Guðs almáttugs og hefur nafn skrifað á sínu fati á sínum lendum so látanda: „Kóngur allra kónga og Drottinn allra drottna.“

Og eg sá einn engil standa í sólunni og hann kallaði hárri rödd og sagði til allra fugla sem undir himni fljúga: „Komið og samansafnið yður til kveldverðar hins mikla Guðs að þér etið hold konunganna og landsstjórnaranna og hold öflugra og hestanna og þeirra sem þar upp á sitja og hold allra frelsingja og þrælanna, bæði smárra og stórra.“ Og eg sá dýrið og konunga jarðarinnar og þeirra lið samansafnað til að halda stríð við þann sem á hestinum sat og við hans her.

Og dýrið varð höndlað og með því sá falski spámaður sem teiknin gjörði fyrir því, af hverjum hann villti þá sem auðkenningarmerki dýrsins meðtóku og þá er mynd dýrsins tilbáðu. Þessir báðir tveir urðu lifandi fleygðir í eldsins díki það með brennisteini logar. Og þeir aðrir urðu í hel slegnir með sverði þess sem á hestinum sat það út af hans munni gekk og allir fuglar urðu saddir af þeirra holdi.